Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:10:58 (2615)

1997-12-18 12:10:58# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:10]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni heilbr.- og trn. fyrir svörin sem voru mjög skýr eins og hans er von og vísa. Ég held að það sé mjög gott að það liggi fyrir þannig að um það verði ekki deilur að bankastarfsmenn muni falla undir þessa lagabreytingu, því þeirra fæðingarorlof er skipað með nokkuð óvenjulegum hætti. Þeir taka þriggja mánaða fæðingarorlof á fullum launum en hina þrjá mánuðina samkvæmt þeim rétti sem gildir á almenna markaðnum. Það er því skýrt og liggur fyrir hver túlkunin er varðandi bankastarfsmenn.

Varðandi reglugerð hæstv. fjmrh. og hvort hann muni breyta sinni reglugerð í þá veru að feður hjá hinu opinbera njóti þess aukna réttar sem brtt. heilbr.- og trn. kveður á um, þ.e. að eins mánaðar fæðingarorlof verði í þeim tilvikum þegar um er að ræða fjölburafæðingar eða alvarleg veikindi barns eða móður, þá hefði nú verið æskilegt að skýrt lægi fyrir af hálfu fjmrh. áður en þetta frv. verður að lögum, hvort hann muni breyta reglugerðinni þannig að þarna sé gætt jafnræðis. Því spyr ég hv. formann heilbr.- og trn. hvort hann muni beita sér fyrir því að við 3. umr. málsins liggi fyrir slík yfirlýsing frá hæstv. fjmrh.