Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 12:54:31 (2626)

1997-12-18 12:54:31# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[12:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég bendi á þá staðreynd að hér eru staddir karlmenn sem hafa fylgst með öllum umræðum um þessi mál, voru viðstaddir allra fyrstu umræðuna og tóku þátt í henni. Það væri a.m.k. sanngjarnt að halda slíku til haga og gera ekki lítið úr hlut þeirra. Ég get vissulega tekið undir það að málið kemur öllum hv. þm. við og maður vildi nú sem endranær gjarnan sjá miklu meiri þátttöku og viðveru í þingsalnum. (Gripið fram í: Sumir karlmenn kunna að ...) Ég á ekki við að hæstv. ráðherra amist heldur við því að hér hafi orðið umræður um málið. Hann segir það furðulegt og skrýtið að svo miklar umræður verði um samkomulagsmál. Fagnar hæstv. ráðherra því ekki að menn láti sig þetta mál varða, að menn ræði ýmsar hliðar þess og komi jafnvel hingað í ræðustólinn að fagna áfanga og tímamótum í jafnréttismálum? Er hæstv. félmrh. og ráðherra jafnréttismála virkilega að amast við slíku? Sér hann eftir sjálfum sér að sitja undir klukkustundarumræðum eða þó stundirnar væru tvær um mál af þessu tagi þegar það er að fá farsæla afgreiðslu? Ég bið hæstv. ráðherra að vera ekki svona sérhlífinn og önugan að hann komi hér og gefi í skyn að honum finnist það verra að málið fái þá athygli, umfjöllun og umræðu sem það hefur fengið hér. Það er ekki við hæfi. Það kann vel að vera að hæstv. ráðherra sé þreyttur, illa sofinn eða rasssár en ég held að hann verði bara að líta á það sem hluta af embættisskyldum sínum að sýna Alþingi og málinu þá virðingu að láta ekki svona athugasemdir falla.