Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 13:38:26 (2631)

1997-12-18 13:38:26# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:38]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Á þremur stærstu sjúkrahúsum landsins vinna 148 unglæknar. Af þeim hafa 100 sagt upp störfum. Ég tel nauðsynlegt að fara yfir stöðuna á þessum þremur sjúkrahúsum.

Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri starfa tíu læknar. Af þeim hafa níu sagt upp störfum. Uppsagnirnar koma til framkvæmda 20. til 27. desember nk. Níu unglæknar starfa á lyflækningadeildum og barnadeild annars vegar og handlækningadeildum og fæðingardeild hins vegar. Þeir eru á bundnum fjór- og fimmskiptum vöktum utan dagvinnutíma, tveir í húsinu í hvert skipti.

Að mati forstjóra sjúkrahússins munu fyrstu áhrifin af fjarveru unglækna verða þau að elektívar, þ.e. valkvæðar, aðgerðir eða starfsemi leggjast af. Erfitt verður að halda óbreyttri bráðastarfsemi gangandi. Því lengri sem fjarvera unglækna verður þeim mun meiri verða áhrifin á þjónustumöguleika sjúkrahússins. Til lengri tíma litið mun slík fjarvera eða vöntun á unglæknum í starfsemi sjúkrahússins óhjákvæmilega kalla á algjöra endurskipulagningu á mönnun og þjónustu.

Á Landspítala eru um 82 aðstoðarlæknar. Af þeim hafa 42 sagt upp. Tveir hafa dregið uppsögn sína til baka. Að mati lækningaforstjóra spítalans munu uppsagnirnar fyrst og fremst koma fram á lyflækningadeild og handlækningadeild. Sérfræðingar munu taka vaktir unglækna og það skipulag hefur þegar tekið gildi. Dagvinna sérfræðinga mun að einhverjum hluta dragast saman. Í lyflækningum mun sá samdráttur bitna á starfsemi göngudeilda og í rannsóknum á sjúklingum. Á handlækningadeild bitna uppsagnir strax á göngudeild og almennum handlækningadeildum og aðgerðum mun fækka. Hvað varðar geðdeildir taka uppsagnir gildi á tímabilinu 24. til 29. desember. Það mun fljótlega hafa veruleg áhrif á starfsemi geðdeilda. Lækningaforstjórinn bendir á að á þeim tíma árs, um jól og nýár, dregst ýmis starfsemi á sjúkrahúsum saman og verða því áhrifin til skamms tíma mildari en ella. Ef allar uppsagnir koma til framkvæmda og unglæknar koma ekki til starfa á ný er ljóst að fljótlega eftir áramót gætir áhrifa uppsagnanna af fullum þunga í allri starfseminni.

Á Sjúkrahúsi Reykjavíkur störfuðu um síðustu mánaðamót 57 aðstoðar- og deildarlæknar. Af þeim hafa 49 sagt starfi sínu lausu auk tveggja sem hefja áttu störf um áramót. Uppsagnir 42 hafa tekið gildi í dag, þann 18. desember. Þann 21. þ.m. munu allar uppsagnir hafa borist og tekið gildi. Enginn unglæknir hefur dregið uppsögn sína til baka. Lækningaforstjóri spítalans metur það svo að ef ekkert óvænt kemur til, almenn veikindi eða holskefla slysa, ætti að vera mögulegt að tryggja nauðsynlegustu bráðaþjónustu fyrst í stað. Hins vegar er erfitt að sjá fyrir hversu lengi sérfræðingar hafa þrek til að manna allar þær vaktir sem nauðsyn ber til og vinna jafnframt sín sérfræðistörf á spítölum jafnvel þó að dregið verði úr starfsemi eins og framast er unnt. Óvænt og ófyrirsjáanleg atvik geta breytt þessu brotgjarna ástandi til hins verra á stuttum tíma. Mönnun slysadeildar stendur einna tæpast en læknum allra annarra deilda sjúkrahússins hefur verið gert að létta þar undir og er sú skipulagning fullbúin fram til jóla.

Ég vil taka fram að er hér aðeins að hluta til um kjaradeilu að ræða frá sjónarhóli unglækna. Hvað varðar unglækna á Landspítala og FSA, hafa kjarasamningar verið samþykktir milli fjmrh. og Læknafélags Íslands. Hvað varðar unglækna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er til meðferðar hjá sáttasemjara kjaradeila milli Reykjavíkurborgar og Læknafélags Reykjavíkur. Og eins og fram kom hjá hv. þm. áðan verður miðlunartillaga sáttasemjara lögð fram í dag og um hana samið á næstu tveim dögum.

Með uppsögnum unglækna virðist óánægja þeirra til langs tíma vera að birtast. Sú óánægja er ekki einungis varðandi launakjör. Hún snýr ekki síður að skipulagi vinnunnar, vinnutíma og mikilli vaktabyrði.

Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er að renna út en að lokum vil ég segja og kem síðan að því aftur á eftir að það er staðreynd að vaktaálag og viðvera unglækna hefur verið mjög mikil og langtum meiri en eðlilegt getur talist. Ég er sammála forustu unglækna um að þessu vinnufyrirkomulagi verður að breyta. Með þeim kjarasamningi sem nýlega var undirritaður milli Læknafélags Íslands og ríkisins var bókun í sex liðum þar sem bæði er fjallað (Forseti hringir.) um með hvaða hætti vinnutími lækna verður aðlagaður tilskipun Evrópusambandsins og einnig ákvæði um að unnið verði að breytingum á vinnufyrirkomulagi. Það er brýnt að samningsaðilar flýti þeirri vinnu eins og kostur er.