Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 13:44:28 (2632)

1997-12-18 13:44:28# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:44]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ástandið á sjúkrahúsunum er afleitt eins og við höfum heyrt í ræðu hv. formanns heilbr.- og trn. og einnig í ræðu hæstv. ráðherra. En hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við því neyðarástandi sem skapast hefur á sjúkrahúsunum? Við því voru engin svör. Hæstv. ráðherra lýsti aðeins því ástandi sem nú ríkir. Forsvarsmenn sjúkrahúsanna eru ráðþrota. Það kom fram á fundi heilbr.- og trn. í gær.

[13:45]

Við erum í alþjóðlegri samkeppni um menntafólk eins og lækna. Þeim bjóðast störf erlendis á betri launum þar sem viðmót og vinnuumhverfi er allt annað en hér eftir allan niðurskurðinn. Eftir sex ára nám hafa íslenskir læknar almennt tekið kandidatsárið hér og starfað eftir það um tíma á íslenskum sjúkrahúsum. En nú blöskrar þeim ástandið. Það er yfirvofandi að nýútskrifaðir læknar muni taka kandidatsárið í útlöndum. Geri þeir það hér sjá þeir fram á tví- og þrískiptar vaktir og þeim óar ástandið á sjúkrahúsunum og þeir fara. Þó þeir yrðu allir hér heima dugir það ekki til því við útskrifum ekki nógu marga lækna til að það bæti ástandið eftir að unglæknarnir eru farnir úr landi. Ég talaði við nokkra unglækna í morgun, sem hafa sagt upp, og þeir eru búnir að gefast upp á ástandinu, og miðlunartillagan breytir þar engu um. Þeir fara utan. Við erum að missa læknana okkar, unga menntafólkið, úr landi. Hver veit hvort og hvenær það kemur til baka? Sjúkrastofnanirnar líða, sjúklingarnir líða. Þetta er afleiðing sveltistefnu ríkisstjórnarinnar, ábyrgðin er stjórnvalda.