Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 13:46:45 (2633)

1997-12-18 13:46:45# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), SF
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:46]

Siv Friðleifsdóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem hefur komið fram í umræðunni að við tökum fyrir mjög alvarlegt mál. Hjá stjórnendum sjúkrahúsa hefur komið fram að uppsagnirnar munu hafa veruleg áhrif á þjónustu sjúkrahúsanna. Lækningaforstjórinn á Sjúkrahúsi Reykjavíkur telur t.d. að einungis sé hægt að tryggja nauðsynlega bráðaþjónustu um tíma fyrst í stað. Það er að segja það fer eftir því hve lengi sérfræðingarnir hafi þrek til að manna þær vaktir sem til þarf. Að mínu mati er nokkur vandi að leysa uppsagnirnar. Hins vegar tel ég mjög brýnt að menn skoði þá bókun sem var gerð við kjarasamningana fyrir stuttu þar sem segir að stjórnendur sjúkrahúsa ásamt læknum eigi að setjast niður og endurskoða allt vinnufyrirkomulagið, alveg frá upphafi. Í þessari bókun kemur fram að slíkt endurskipulag á að vera komið á blað í síðasta lagi 30. sept. og koma til framkvæmda tveimur mánuðum síðar. Ég tel eðlilegt að farið verði miklu hraðar í þetta mál. Það verður að fara í þá vinnu strax. Ég vona svo sannarlega að stjórnendur sjúkrahúsa og læknar setjist niður og ljúki því máli mun fyrr.

Persónulega hefði ég viljað sjá þá vinnu enda í verulegri samþættingu sjúkrahúsanna, sérstaklega í Reykjavík, þ.e. með samþættingu Sjúkrahúss Reykjavíkur og Ríkisspítalanna, en eins og allir vita er ég mikill talsmaður þess að þau tvö sjúkrahús sameinist. Ég vil líka koma því á framfæri að nokkuð mikil umræða hefur orðið um álagið sem er á slysadeildinni uppi á Sjúkrahúsi Reykjavíkur en þar er talið að um það bil 20 þús. komur á ári séu nánast óþarfi faglega séð og það séu komur sem heilsugæslan eigi að geta tekið á sig. Ég tel brýnt að heilsugæslan í samráði við heilbrigðisyfirvöld kynni það betur fyrir fólki að því beri að snúa sér fyrst til heilsugæslunnar en ekki alltaf beint á slysadeildina.