Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 13:49:12 (2634)

1997-12-18 13:49:12# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:49]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að taka málið til umræðu og með hvaða hætti hann rakti það ástand sem við búum við. Það er ekki eins og við höfum ekki vitað að hverju stefndi því á undanförnum vikum hefur því verið lýst yfir aftur og aftur að unglæknar mundu standa við uppsagnir sínar ef þeir fengju ekki þær kjarabætur sem þeir hafa farið fram á og gert grein fyrir á mörgum undanförnum vikum. Hins vegar var alveg með ólíkindum að hlusta á hæstv. ráðherra eyða þeim fimm mínútum sem hún hefur til svara í að fara yfir ástandið eins og það er í dag sem hver og einn getur lesið um í dagblöðum eða hlustað á hjá hv. framsögumanni. Hér var verið að fara fram á að hæstv. ráðherra veitti einhver svör, kæmi með svör við þeim spurningum sem hv. þm. lagði fyrir. Hvernig ætla heilbrigðisyfirvöld að bregðast við því neyðarástandi sem við blasir, því neyðarástandi sem við höfum vitað í nokkuð margar vikur að stefndi í? Svörin eru engin, bara yfirferð á því hvert er mat yfirvalda á hverju sjúkrahúsi. Vissulega er ábyrgð stjórnenda sjúkrahúsa einhver, vissulega er hún til staðar. En ábyrgð heilbrigðisyfirvalda á því hvernig komið er er til staðar og hún er mest. Ábyrgðin liggur hjá heilbrigðisyfirvöldum. Við höfum vitað þetta og rætt áður á Alþingi í hvað stefndi og það er löngu orðið tímabært að hæstv. ráðherra gefi okkur einhver svör við þeim spurningum sem við setjum fram. Það er ekki hægt að bjóða upp á það dag eftir dag, viku eftir viku, þegar við förum yfir ástandið í heilbrigðiskerfinu, fjársvelti heilbrigðisstofnana, hvernig háttað er kjaramálum heilbrigðisstétta, að fá ekki svör. Nú förum við fram á þau. Hæstv. ráðherra fær tíma á eftir og vonandi kemur hún þá með þau svör sem beðið er eftir.