Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 13:53:59 (2636)

1997-12-18 13:53:59# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:53]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Oft hef ég undrað mig á hv. stjórnarandstöðu en aldrei eins og í dag. Þegar hún tekur fyrir kjaradeilu unglækna gerir hún ekki einu sinni kröfu til þess að sá sem fer með kjaramálin fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjmrh., sé í salnum heldur er málið eingöngu rætt við fagráðherrann, hæstv. heilbrrh. Er þetta tilviljun eða snýr það að því sem hér var einhvern tímann sagt, að sé kona í ríkisstjórn þá hefur hún ekki nokkurn frið? Þetta eru engin vinnubrögð af hálfu stjórnarandstöðunnar. Auðvitað á sá sem með kjaramálin fer að vera viðstaddur þá umræðu. Ég vil segja að kjaradeilur eru komnar í nýjan farveg. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það gerist að menn segja upp, einstaklingsbundið, og hverfa úr starfi. Það er að verða vandi hálaunastétta á vinnumarkaði á Íslandi. Þeir hverfa og fara, þeir segja upp og við því er lítið hægt að gera. Það er því mikið vandamál sem blasir við og snýr að miklu fleiru en laununum. Ég held að við þessar aðstæður ættu menn virkilega að hugsa um það þegar þeir standa frammi fyrir svona aðstæðum hvort ekki beri að afnema fjöldatakmarkanir í læknadeild og leyfa öllu því unga fólki sem það vill læra til að þjóna Íslendingum að sækja þá deild og koma svo til starfa. Ég vil enn fremur segja að í fjárlögum næsta árs er tillaga upp á einar 150 millj. til að stórbæta kjör lækna og ganga í það verkefni.

Ég vil að lokum spyrja að því: Hafa unglæknar engar skyldur eftir það nám sem þeir hafa fengið? Hafa þeir ekki skyldur við þjóð sína? Hafa þeir ekki skyldur við það starf sem þeir hafa verið kallaðir til? Ég trúi að þeir hafi það enda er það ekki nema brot þeirra sem hverfur og ég trúi því að um leið og umræðan fer fram, hæstv. forseti, sé lausn að nást í deilunni.