Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 13:56:44 (2637)

1997-12-18 13:56:44# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[13:56]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ástandið á sjúkrahúsum landsins hefur verið mikið til umræðu að undanförnu vegna fjárskorts og ekki síður vegna kjaradeilu lækna almennt og þar hefur sérstaða unglækna komið skýrt fram. Þeir hafa haldið uppi mjög mikilvægu starfi á spítölunum, þ.e. móttöku allra sjúklinga sem koma á spítalann, bæði í bráðamóttöku og skipulagðar aðgerðir, og bráðadeildir eru opnar allan sólarhringinn. Vinnuframlag þeirra er mjög mikið. Launakerfi ríkisins endurspeglast í kjörum þeirra, þ.e. lág grunnlaun og síðan er það fyrst og fremst vaktavinnuálag og yfirvinna. Ég ætla mér ekki að blanda mér í kjaradeilur lækna og ég tel að umræðan sé ekki um kjaramál og því sé eðlilegt að hér sitji heilbrrh. fyrir svörum en ég tel að hér sé birtingarmáti meingallaðs launakerfis sem er jafnvel ekki bjóðandi mjög ungu, hraustu fólki. Vinnuálagið og vinnutíminn er eyðileggjandi fyrir fjölskyldur þessa fólks sem sér varla börnin sín í þau ár sem það vinnur sem unglæknar. Þetta er eitt birtingarform neyðarástandsins á sjúkrahúsunum og við verðum að ná tökum á því án þess að þingið sé stöðugt með þessar stofnanir í gjörgæslu. Ég tel að sú stund muni fyrr en síðar koma upp að sjúkrahúsin verði rekin þannig að þau fái heildarupphæð, eins og til dæmis Háskóli Íslands, og síðan ráði þau sjálf hvernig þau ráðstafa upphæðinni. Að minnsta kosti er alveg ljóst að ekki er hægt að stýra sjúkrahúsunum eins og hér er gert og síðan verður að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar ef forgangsröðin eða vinnulagið er ekki viðunandi. Til að slík tilhögun gangi upp þarf að tryggja að þeir sem úthluta fjármagninu innan sjúkrahúsanna hafi alla hópa í huga, ekki síst unglækna sem starfa sannarlega við óviðunandi aðstæður. Kjör þeirra verður að bæta því nám þeirra er vanmetið og það mun reynast þjóðfélaginu dýrkeypt.