Afleiðingar af uppsögnum ungra lækna

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:01:19 (2639)

1997-12-18 14:01:19# 122. lþ. 48.91 fundur 148#B afleiðingar af uppsögnum ungra lækna# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:01]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Um er að ræða viðkvæma deilu sem leysist ekki á Alþingi en það er líka mikilsvert að deilan sé ekki gerð erfiðari en ástæður standa til í sal Alþingis.

Tilefni þess að ég stend upp eru ummæli hv. 2. þm. Suðurl., Guðna Ágústssonar, þegar hann spurðist fyrir um það áðan hvort unglæknar hefðu engum skyldum að gegna gagnvart þjóðinni. Ég hygg að þessi ummæli séu á einhverjum misskilningi byggð. Þess eru fá dæmi að stétt búi við það álag sem unglæknar búa við á Íslandi. Full ástæða er til þess að gera bætur á því vinnuálagi og á þeim aðstæðum sem þeir búa við og það er vissulega von mín að það takist að finna lausn á því vandamáli. En það er ekki hægt að varpa þeirri spurningu fram hvort unglæknar hafi engum skyldum að gegna gagnvart þjóðinni ef með því er átt við að þessi stétt telji sig hafa minni skyldum að gegna gagnvart þjóðinni en aðrar stéttir. Ég hygg að þessi stétt hafi axlað meiri byrðar gagnvart þjóðinni en flestar aðrar stéttir.