Frumvörp um almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:29:07 (2654)

1997-12-18 14:29:07# 122. lþ. 48.96 fundur 160#B frumvörp um almannatryggingar# (um fundarstjórn), GHelg
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:29]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa undrun minni á því að þetta mál sem næst er á dagskrá skuli koma fyrir hið háa Alþingi. Hér er um að ræða frv. sem nokkrir þingmenn annars stjórnarflokksins hafa flutt um ákveðið mál og þótt ég hafi flest við málið að athuga er það ekki þess vegna sem ég er hingað komin, heldur til að undrast það að í hv. heilbr.- og trn. liggur enn þá stjórnarfrv. frá hæstv. heilbrrh. --- Mætti sjá svo um að hæstv. heilbrrh. heyrði til mín? --- Í hv. heilbr.- og trn. liggur óafgreitt mál frá hæstv. heilbr.- og trmrh. um sama efni. (Gripið fram í: Þetta er misskilningur.)

[14:30]

Þetta er enginn misskilningur. Mestan partinn eru þau tvö frv. efnislega samhljóða. Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hvort til standi að afgreiða stjfrv. fyrir áramót vegna þess að megintilgangur þessa frv. er að bjarga því vandræða\-ástandi að um áramót hættir Tryggingastofnun ríkisins aftur að greiða slysatryggingar sjómanna á skipum sem sigla undir hentifána, sem stofnunin hefur gert til bráðabirgða vegna neyðarástands sem kom upp og ég mun ekki eyða þessum dagskrárlið í að rekja það. Ég mun að sjálfsögðu taka þátt í þeirri umræðu ef hún á að fara fram. Ég spyr hæstv. forseta vegna þess að ég hef aldrei séð svona farið með einn hæstv. ráðherra fyrr, að þingmannafrv. flokks sem er í stjórn með hæstv. ráðherra sé tekið fram yfir stjfrv. Ég vil fá skýringu á því hvers vegna frv. hæstv. ráðherra var ekki látið ganga fyrir því það er jú víðtækara en frv. hv. þm. sem bæta inn í lög um almannatryggingar, hvað er það, sex eða sjö orðum. Þetta er svo óvenjulegt að ég hlýt að biðja hæstv. forseta um skýringar.