Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:44:02 (2663)

1997-12-18 14:44:02# 122. lþ. 48.6 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv. 148/1997, GHelg
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:44]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Nú er þetta mál komið til umræðu, frv. hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar og fleiri. Við 1. umr. um málið gerði ég ákveðnar athugasemdir. Því ber auðvitað að fagna að íslenskir sjómenn sem vinna á farskipunum okkar skuli verða slysatryggðir ef þetta frv. verður að lögum. Ég hef hins vegar dregið í efa að sumt í þessu geti einfaldlega staðist vegna þess að ég tel það stangast á við lög um lögskráningu skipa þ.e. að sama skipið geti verið bæði erlent fyrirtæki og innlent. Það sem hér er verið að gera er að slysatryggja íslenska sjómenn með því að greiða launatengd gjöld og þar með tryggingagjald af Íslendingunum í áhöfn þessara skipa en ekki útlendingana.

[14:45]

Ástæðan er sú að útlendingarnir eiga hvorki lögheimili hér né vinna hjá íslensku fyrirtæki, vegna þess að skip sem ekki siglir undir íslenskum fána er ekki íslenskt skip eins og segir í lögum. Til þess er leikurinn gerður, þ.e. með því að flagga út skipi telst það ekki lengur íslenskt skip og er ekki undir íslenskri lögsögu. Ég minnti á að þegar íslenskt hentifánaskip var fært til hafnar í Noregi á sínum tíma og kallað var á Þorstein Pálsson, núv. og þáv. hæstv. sjútvrh. og hann spurður: Hvað ætlar þú nú að gera? Þá svaraði hann kórrétt og eðlilega: Þetta skip heyrir ekki undir mig. Og það er alveg rétt. Vegna þess að skipið tilheyrir ekki íslenska flotanum. Ég er búin að segja þetta svo oft hér í þingsölum að ég held ég einfaldlega gefist upp. Þetta frv. sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og fleiri leggja fram er í raun aðeins aðeins það að þeir birta orðrétta 24. gr. laga um almannatryggingar. Þetta er reyndar leiðinleg aðferð við lagabreytingar því maður verður að hafa dálítið fyrir að sjá hverju er verið að breyta. Örfá orð koma ný inn í þá grein sem fyrir er. Setningin byrjar eins og áður: ,,Starf um borð í íslensku skipi`` svo kemur breyting þeirra hv. þm.:

,,... skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi ...`` Þá breytir væntanlega engu hvort það siglir undir íslenskum fána eða erlendum. Hins vegar brennur náttúrlega á manni spurningin um hvort sama skipið með sömu áhöfn í sömu ferð geti verið annars vegar rekið af íslensku skipafélagi og hins vegar af útlendu? Ég fæ ekki skilið hvernig slíkt má vera. Þegar sá hörmulegi atburður varð að Dísarfellið fórst í fyrra þá uppgötvaðist að sjómennirnir voru ekki tryggðir hér. Um slysatryggingu segir í almannatryggingalögunum, með leyfi hæstv. forseta:

,,Launþegar sem starfa hér á landi, að undanskildum erlendum ríkisborgurum sem gegna embætti fyrir erlend ríki og erlendu starfsliði slíkra embættismanna. Starf um borð í íslensku skipi eða íslenskri flugvél jafngildir starfi hér á landi samkvæmt þessum lið.``

Starf á ,,íslensku`` skipi. Næstum öll skip Eimskipafélagsins t.d., sigla undir erlendum fána. Þau heyra undir erlend ríki og eru þar af leiðandi ekki íslensk skip, hvað sem fólk vill segja. Það er oft þannig, hæstv. forseti, að menn eru að lappa upp á löggjöf landsins án þess að líta til ótal þátta sem varða auðvitað stórlega þau sömu lög.

Það er ekki þægilegt að þurfa að standa hér og gera þessar athugasemdir því auðvitað er málefnið góðra gjalda vert. Ég hef áður lýst því yfir, þar sem ég sit í tryggingaráði, að ég átti þátt í að brjóta lög með því að samþykkja slysatryggingu til fjölskyldu manns sem lést á Dísarfellinu. Okkur þótti ekki stætt á að fjölskyldan stæði uppi bótalaus. Eins og menn hafa tekið eftir, hefur Tryggingastofnun ríkisins auglýst formlega í dagblöðum að þessar slysatryggingar verði ekki greiddar eftir 1. janúar 1998. Nokkrum sinnum hafa slys á Íslendingum um borð í þessum skipum verið bætt og það stafaði einfaldlega af því að menn gerðu sér ekki ljóst að ekki væri um tryggingarétt að ræða. Auðvitað fagna ég því að skipverjar um borð í þeim farskipum sem eiga að heita rekin af íslenskum fyrirtækjum, þó þau séu rekin undir öðrum þjóðfánum, séu tryggðir. Ég hefði kosið að betur væri gengið frá þeim málum og ég held að þetta eigi eftir að valda vandræðum ef til dómsmáls t.d. kæmi. Ég dreg stórlega í efa að þetta standist fyrir dómstóli.

Ég hef látið þessar athugasemdir koma fram, og skal ekki tefja frekar afgreiðslu málsins. En æru minnar vegna sem þingmanns mun ég sitja hjá við afgreiðslu málsins.