Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:50:36 (2664)

1997-12-18 14:50:36# 122. lþ. 48.6 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv. 148/1997, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:50]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Mig furðar enn að heyra málflutning hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur vegna þessa frv. Ekki síst þá athugasemd sem hún gerði við störf þingsins varðandi framsetningu málsins en þess ber að geta að málið var lagt fram rétt í byrjun októbermánaðar. Mál ráðherra sem hún getur svo mjög um var lagt hér fram fyrir skömmu og auk þess hefur ekki verið mælt fyrir því. En þetta er aukaatriði.

Aðalatriðið er að í viðræðum hv. heilbr.- og trn. við aðila sem tengjast þessum útgerðum og við starfsmann Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins, sem er þeirra umboðsaðili, kom í ljós að oftar en ekki eru Íslendingar á þeim skipum sem leigð eru af íslenskum skipafélögum, lakar settir en aðrir um borð. Hv. frsm. heilbr.- og trn., Össur Skarphéðinsson, gat um svokallaða lestarstjóra sem oft eru einu Íslendingarnir um borð í skipum í leigusiglingu fyrir íslenskar útgerðir. Þeirra staða hefur verið lakari en erlendra skipverja. Við 1. umr. þessa máls kom fram hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að verið væri að veita íslenskum sjómönnum rétt umfram aðra um borð og erlendir sjómenn væru skildir eftir. Hún kvað þá ekki njóta sama réttar en það er rangt. Í máli Borgþórs Kjærnesteds kom fram að hér væri gott mál á ferðinni sem mundi tryggja réttarstöðu sjómanna sem væru íslenskir ríkisborgarar. Þeir þiggja laun hjá útgerðinni og greiða skatta sína og skyldur hér.