Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:52:49 (2665)

1997-12-18 14:52:49# 122. lþ. 48.6 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv. 148/1997, GHelg (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:52]

Guðrún Helgadóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Síðan ég tók þetta mál hér upp fyrst hefur Norræna flutningaverkamannasambandið krafist þess að erlendir skipverjar yrðu tryggðir, enda lítið um almannatryggingar í Líberíu, Antígva eða hvar sem þessi skip eru skráð. Skipafélögin hafa verið pínd til að kaupa tryggingu handa þessum mönnum hjá einkatryggingafélögum. Þetta gætu auðvitað íslensku útgerðirnar gert líka. En hvað gera þeir? Þeir sigla undir hentifána til að losna við að greiða til eigin lands en samt á ríkið að greiða fyrir þá slysabæturnar. Þeir hefðu auðvitað átt að sjá sóma sinn í að tryggja Íslendinga á eigin skipum hjá einkatryggingafélögum en ekki bæði sleppa og halda. Þeir forðast að greiða til íslensks samfélags það sem þeim bæri að greiða ef skipin sigldu undir íslenskum fána en íslenska ríkið á síðan að greiða slysatryggingarnar af íslenskum áhafnarmeðlimum. Málið snýst um þetta.