Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:54:13 (2666)

1997-12-18 14:54:13# 122. lþ. 48.6 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv. 148/1997, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:54]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan gat hv. þm. Guðrún Helgadóttir þess þegar þetta mál var hér til 1. umr. að henni þætti það leitt fyrir hönd okkar sex sjálfstæðismanna sem flytjum þessa breytingu á lögum við almannatryggingar. Hún sagði að við værum hér að flytja frv. sem byggt væri á staðlausum stöfum. Hér hefur það verið rækilega hrakið og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það.

Ég vildi hins vegar gjarnan að þingmaðurinn gerði frekari grein fyrir ákveðnu atriði. Hún fullyrðir hér að skipafélögin hafi verið pínd til að kaupa tryggingu vegna erlendra áhafna á skipunum eins og það hafi gerst í gær. Það væri gott að fá fram frekari vitneskju um þetta atriði. Hún svaraði því heldur ekki um daginn þegar ég spurði hana hvaðan hún hefði það að íslenskar kaupskipaútgerðir rækju þessi hentifánaskip í einhverju pósthólfafyrirtæki. Hún hafði einhverjar upplýsingar og væri gott að fá vitneskju í þeim efnum. Ég held það væri mjög þarft verk einkum og sér í lagi vegna stéttarfélaga farmanna ef svo alvarlegir hlutir mundu upplýsast í rekstri skipafélaganna. Eins væri athyglisvert að vita nánar um það sem hv. þm. sagði að eftir að hún tók þetta mál upp hafi skipafélögin séð sig tilneydd að kaupa tryggingar fyrir erlendu áhafnirnar. Eins og ég sagði áðan upplýsti margumræddur Borgþór Kjærnested, umboðsmaður Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins og Skandinavíska flutningaverkamannasambandsins hér á landi, það að réttarstaða Íslendinga um borð í þessum skipum yrði um áramót lakari en hinna erlendu ef þessi lög næðu ekki fram að ganga.