Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 14:57:55 (2668)

1997-12-18 14:57:55# 122. lþ. 48.6 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv. 148/1997, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[14:57]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum hér að fjalla um eina af greinum almannatryggingalaganna sem fjallar um slysatryggingar. Ég fagna því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson skuli hafa átt frumkvæði að því að koma með þetta frv. inn í þingið. Þetta er mikið réttlætismál og ég tel að með þeim breytingum sem lagðar eru til í þessu frv. og með þeim breytingum sem hv. heilbr.- og trn. leggur til við afgreiðslu málsins, þá séu lögin um slysa- og almannatryggingar skýrari og betri en áður. Ég ætla ekki að fara mjög ítarlega í þessar breytingar en mig langar að geta eins þeirra atriða sem kemur inn í lögin. Það fjallar um slysatryggingar þeirra sem starfa um borð í íslensku loftfari, eða loftfari reknu af íslenskum aðilum. Þetta kom nokkuð til umræðu í nefndinni og ég fagna því að flugliðar, sem starfa um borð í íslenskum flugvélum eða flugvélum sem íslenskir aðilar gera út, skuli njóta slysabóta almannatrygginga.

Undanfarið hefur með aukinni samkeppni aukist mjög að íslenskir flugliðar og jafnvel starfsmenn ferðaskrifstofa starfi um borð í erlendum flugvélum en fái laun sín greidd hér á landi. Því er mjög mikilvægt að þessi liður sé skýrður í lögunum.

[15:00]

Flugliðar þessir ferðast oft fram og til baka í sömu ferðinni og dvelja þá skamman tíma á áfangastað. Þeir starfa þá oft í flughöfnum erlendra flugvalla og hér í nefndaráliti kemur fram að íslensku almannatryggingalögin skuli taka til starfa þessara flugliða eða starfsmanna hjá íslenskum fyrirtækjum þegar þeir eru að störfum tengdum loftfarinu á flugvelli eða flughöfn. Ég tel þetta mjög mikilvæga breytingu.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur verið um slysatryggingar almannatrygginga langar mig að geta þess að árið 1993 hafi verið gerð breyting á almannatryggingalögunum um rétt sjómanna til sjómannalífeyris almannatrygginga. Þar var sett inn sambærilegt ákvæði og kemur hér inn í slysatryggingarnar. Miðað er við íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum, þ.e. tekið er til leiguskipa þegar miðað er við réttinn til töku sjómannalífeyris almannatrygginga. Þarna er samræmi á milli.

Ég vil í lok máls míns fagna afgreiðslu þessara breytinga á slysatryggingum almannatrygginga.