Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 15:06:44 (2670)

1997-12-18 15:06:44# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, RG
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[15:06]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Laust fyrir hádegi var hér áhugaverð umræða um fæðingarorlof feðra. Þar tók félmrh. til máls og hafði orð á því að þetta væri eitt af hinum góðu málum ríkisstjórnarinnar. Hann nefndi líka til sögunnar önnur góð mál, t.d. opinbera fjölskyldustefnu sem ég tek undir að það sé gott mál. En ánægjulegra er að góðu málin sem sá ágæti hæstv. ráðherra hefur flutt hafa gjarnan átt upphaf sitt hjá Alþfl. Þannig var með opinbera fjölskyldustefnu og þannig er með það mikilvæga mál sem við ræðum nú, frv. til laga um húsaleigubætur.

Virðulegi forseti. Þetta mál, húsaleigubætur, er hluti af okkar velferðarkerfi. Þetta mál er eitt af þeim umbótamálum sem jafnaðarmenn hafa hrint í framkvæmd. Meðal þeirra stóru mála sem mynda velferðarkerfi okkar eru lög um félagslegar íbúðir og löggjöf um almannatryggingar.

Með nýrri löggjöf, rammalöggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga og húsaleigubætur ásamt fleiri málum, myndast net félagslegra úrræða sem fáum dytti í hug að falla frá í dag. Þessi lög eiga það öll sammerkt að hafa verið pólitísk átakamál milli flokka á sínum tíma. Þegar verið er að ræða um breytingar á máli eins og þessu sem þykir sjálfsagt og eðlilegt að hafa til staðar í dag, gæti verið hollt fyrir okkur að rifja upp þau átök sem staðið hafa um slík mál og að berjast þurfti fyrir þeim Leiða þurfti mönnum fyrir sjónir hversu miklu skipti að slík úrræði væru hluti af því öryggisneti sem velferðarkerfi okkar er, fyrir þá sem eru á lágum launum, lenda í veikindum eða öðrum erfiðleikum og þurfa á því að halda að í okkar stjórnkerfi felist jöfnunarkerfi með þeim hætti sem hér er um að ræða.

Segja má að stuðningur hins opinbera sé nú annars vegar til þeirra sem eiga íbúðir eða leigja á opinberum markaði og þeirra sem eiga eða leigja félagslegt húsnæði í formi vaxta- og húsaleigubóta. Þessar bætur eru í eðli sínu nokkuð ólíkar. Annars vegar eru vaxtabætur hjá ríkinu sem taka mið af vaxtabyrði fjölskyldu með tilliti til eigna og tekna en hins vegar húsaleigubæturnar sem lúta öðrum lögmálum sem við ræðum um í dag.

Í þessu frv. sem við erum með til 2. umr. felast tvö meginatriði sem ég tel afar þýðingarmikil og styð heils hugar. Í fyrsta lagi að þegar þetta frv. hefur verið lögfest muni öll sveitarfélög greiða húsaleigubætur og í öðru lagi muni húsaleigubætur framvegis verða greiddar vegna allra íbúða, bæði leiguíbúða á almennum markaði og íbúða í félagslega húsnæðiskerfinu. Að þessi tvö meginatriði séu uppfyllt í umræddu frv. þýðir samt ekki endilega að þeir sem styðja markmiðin og eru sáttir við þær breytingar, sætti sig við frv. í heild sinni. Því hafa allmargir okkar alþingismanna í félmn. skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Við styðjum meginatriði frv. en erum hvert um sig með mismunandi skoðun. Þessi álitamál geta reyndar verið mörg. Það hefur t.d. frá upphafi verið álitamál hvort skattleggja eigi húsaleigubætur á meðan vaxtabæturnar bera ekki skatt.

Eins og ég greindi frá áðan þegar ég bar saman vaxta- og húsaleigubætur, þá er ljóst að hægt er að fara í mikla umræðu um eðlismun á vaxta- og húsaleigubótum. Ég ætla ekki að gera það en bendi á að eðlilegt hefur þótt að vaxtabæturnar sem taka mið af vaxtabyrði, fjölskyldustærð, tekjum og eignum, séu hrein endurgreiðsla og ekki skattlagðar. Ég hef alltaf talið mikið vafamál að húsaleigubætur séu skattlagðar. Þær eru það t.d. ekki á hinum Norðurlöndunum og af hálfu sumra umsagnaraðila, t.d. stúdentaráðs Háskóla Íslands, var það harðlega gagnrýnt.

Sama má segja um framfærslufé félagsmálastofnana, það fjármagn sem fólk fær í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga þegar það á í erfiðleikum og leitar stuðnings hjá sínu sveitarfélagi. Þar er yfirleitt verið að líta á brýnustu þarfir og óhætt að segja að naumt sé skammtað. Þrátt fyrir það var fyrir fáum árum síðan tekin ákvörðun um að skattleggja slíka fyrirgreiðslu sem oft hefur verið þeim þung byrði eftir á þegar hagur hefur vænkast örlítið. Ef um atvinnulaust fólk hefur verið að ræða og það fengið atvinnu, þó ekki hátt launaða, greiðir viðkomandi að sjálfsögðu staðgreiðslu af tekjum sínum en jafnframt skatt af framfærslustuðningi frá árinu á undan. Segja má að þetta hafi líka komið fram í ábendingum þeirra félagsmálastjóra sem félmn. kallaði á sinn fund. Þeir nefndu gjarnan að bæði húsaleigubæturnar og framfærsluaðstoðin ættu ekki að vera skattlögð. Hins vegar var sú ákvörðun var tekin við fyrstu setningu laga um húsaleigubætur að þær yrðu skattlagðar. Ég stóð að þeirri ákvörðun þrátt fyrir að ég væri ósátt við hana. Það gerðist reyndar þannig að eftir að búið var að vinna þetta mál í nefnd, búið að taka ákvörðun um eðli húsaleigubótanna, hvernig þær yrðu reiknaðar út og þær fjárhæðir sem þar skyldu koma til, var ljóst að frv. næðist ekki fram öðruvísi en að húsaleigubætur bæru skatt. Þó náðist það fram að upphæðirnar voru hækkaðar sem skattinum nam. Auðvitað réttlætti það á vissan hátt þessa fyrstu ferð sem farið var í en vegur varla þungt í dag þótt fjárhæðin hafi á sínum tíma verið hækkuð til að koma til móts við sköttunina.

[15:15]

Það getur líka verið álitamál hver fjárhæð húsaleigubótanna á að vera, hvar skerðingarmörkin liggja og hvernig tillit er tekið til barnafjölskyldna í sambandi við húsaleigubæturnar. Í frv. sem við erum að fjalla um er ákvæði til bráðabirgða og þar er greint frá því hver grunnstofn til útreiknings húsaleigubóta er samkvæmt reglugerð. Hann er 7.000 kr. á mánuði fyrir hverja íbúð. Að auki bætist við 4.500 kr. fyrir fyrsta barn, 3.500 fyrir annað barn, og 3.000 kr. fyrir þriðja. Þessu til viðbótar koma 12% þess hluta leigufjárhæðar er liggur á milli 20 og 45 þús. kr. Síðan skerðast bæturnar óháð fjölskyldustærð í hverjum mánuði um 2% af árstekjum umfram 1,5 millj. kr. og húsaleigubæturnar geta aldrei orðið hærri en sem nemur 50% af leigufjárhæð og að hámarki 21.000 kr. á mánuði.

Í félmn. kom til umræðu, virðulegi forseti, að bæturnar skyldu skerðast óháð fjölskyldustærð en það er alveg ljóst að miðað við uppsetningu húsaleigubótanna var tillit tekið til barnanna í útreikningi bótanna en síðan tekur skerðingin eingöngu mið af auknum árstekjum umfram 1,5 milljónir. Þetta er líka álitamál en útreikningum húsaleigubóta hefur ekki verið breytt frá því lögin voru sett. Stuðst er við sömu fjárhæðir og voru í reglugerð sem sett var 1994 þannig að við höfum ekki valið að gera neina athugasemd við útreikning bótanna. Líka hefur verið rætt hvort ætti að aflétta þinglýsingu húsaleigusamninga og var mikið rætt um þetta í nefndinni. Mörgum fannst að þetta væri íþyngjandi og þegar búið væri að koma kerfinu á og það búið að festa sig í sessi væri hugsanlega eðlilegt að aflétta þinglýsingunni. Niðurstaðan var að gera það ekki né heldur breyta því að þinglýsingin gilti fyrir samningstímabilið á húsaleigusamningum heldur halda sig við það sem í frv. er vegna þess að fram komu ábendingar um að þetta væri ákveðin trygging fyrir leigjandann. Það að endurnýja samninginn um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár gefur leigjandanum ákveðna tryggingu og m.a. er þá fylgst með leigukjörum, hvort leiga hefur hækkað og hvort aðstæður hafi breyst sem hafi áhrif á bótafjárhæðina. Auðvitað er þetta allt álitamál og ekkert nema eðlilegt að um það séu skiptar skoðanir en niðurstaða okkar var sem sé sú að hafa þetta óbreytt.

Ég vek athygli á því að það hefur verið misjafnt hvernig sveitarfélög hafa staðið að leigu á félagslegum íbúðum. Sums staðar hefur verið ákveðin föst lág leiga sem breytist lítið og er lægri en raunkostnaður af félagslegu íbúðarhúsnæði og tekur kannski lítið mið af því hver hagur fjölskyldna er sem hafa fengið inni í íbúðunum. Sum sveitarfélög hafa svo margar leiguíbúðir á sinni könnu að það hefur kannski verið þannig að sá sem hefur fengið íbúð til leigu hjá sveitarfélagi hefur líka getað haldið henni líka eftir að hagur hefur vænkast, tekjur orðið góðar, eða aðstæður breyst og á þessu afar lága, niðurgreidda verði. Í öðrum sveitarfélögum hefur leiga jafnvel verið færð sem raunkostnaður og húsnæðisstuðningur verið færður sérstaklega og jafnvel tekið mið af aðstæðum fólks, sums staðar verið mikill og annars staðar minni, þó í sama sveitarfélagi væri og tekið mið af aðstæðum.

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að þetta frv. gerir ráð fyrir að leiga hækki almennt upp í raunkostnað sveitarfélagsins af íbúðarhúsnæði og að síðan verði greiddar húsaleigubætur sem komi til móts við leiguna. Það er ótti ýmissa að þar með hækki leiga mjög mikið í þeim sveitarfélögum sem hafa verið með fasta niðurgreidda húsaleigu og langt niður fyrir að hún beri raunkostnað af félagslegu húsnæði. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því en það tengist ekki frv. Frv. fjallar um með hvaða hætti eigi að greiða húsaleigubætur til allra. Þetta frv. fjallar um hvernig húsaleigubætur eru fundnar út og hinn hlutinn fjallar um hvernig sveitarfélag setur upp leigu sína á félagslegu húsnæði eða leiguíbúðum almennt sem geta reyndar verið í öðru húsnæði en félagslegu íbúðarhúsnæði í sveitarfélögum. Það er sérmál. Mér finnst full ástæða til af því ég hef áhyggjur af þessu að benda samt á hvernig þetta hefur verið í sveitarfélagi mínu. Þar hefur ekki verið byggt mikið af leiguíbúðum í félagslega kerfinu. Hins vegar hefur verið keypt talsvert af íbúðum á almennum markaði og þær hafa fyrst og fremst verið notaðar til þess að bregðast við þegar illa hefur staðið á hjá fjölskyldum. Fjölskylda hefur lent í veikindum, erfiðleikum, atvinnuleysi eða öðru sem kallar á félagslega aðstoð. Áherslan var í gegnum árin einkum lögð á gera fólki sem var á lágum launum kleift að komast inn í félagslegar eignar\-íbúðir. Því má segja að leiguhúsnæði í bæjarfélagi mínu hafi fyrst og fremst verið notað sem gegnumstreymishúsnæði, oftast þannig að fjölskyldan bjó ekki í húsnæðinu nema kannski tvö, hámark þrjú ár og niðurgreiddur stuðningur við húsaleigu gerði það að verkum ásamt öðrum félagslegum stuðningi að þá hafði fjölskyldan oftast nær getað rétt sig við á þann hátt að hún var fær um að takast á við að koma sér inn í eigið heimili með þeim úrræðum sem bjóðast í okkar lögum. Hins vegar ef við tökum t.d. Reykjavíkurborg, eða Akureyri hefur verið lögð mikil áhersla á að byggja félagslegar íbúðir í gegnum félagslega húsnæðiskerfið, sem er byggt með lágum vöxtum, miklu hagkvæmari lánum og léttari vaxtabyrði en annað húsnæði og leiga jafnvel verið greidd niður þó ég reikni með að á flestum stöðum sé leiga nú ekki miklu lægri en raunkostnaður af félagslegri íbúð.

Full ástæða er til að velta þessum hlutum fyrir sér en ég legg mikla áherslu á að samhliða því, eins og ég hóf mál mitt á, virðulegi forseti, varðandi þetta öryggisnet sem við höfum verið að reyna að sníða í velferðarkerfi okkar að einn þáttur þess er rammalöggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga, löggjöf sem ég mat mjög mikils að var sett á hæstv. Alþingi og hún leggur þær kröfur á sveitarfélögin að leggja mat á aðstæður fjölskyldna sem á þurfa að halda og bregðast við í kerfi sínu þannig að sómi sé að. Því miður er það ekki alltaf þannig og sumir segja: Þá eigum við bara að horfast í augu við að áherslur eru ólíkar, og að fólk getur á fjögurra ára fresti gert upp hug sinn gagnvart því sveitarfélagi sem það býr í og varðandi þær áherslur sem viðkomandi sveitarstjórn leggur hvort þar er um félagslegar áherslur að ræða eða hvort áherslur liggja annars staðar. Ég get alveg tekið undir það, en við höfum hins vegar talið, bæði á Norður- og Vesturlöndum, að viljinn til að vera með ákveðinn jöfnuð í kerfinu sérgreini þessi lönd þannig að samhjálp komi til þeirra sem hafa lægstu launin eða bera þyngstu byrðar af einhverjum orsökum og að við setjum upp kerfi sem skapi eins mikið réttlæti og unnt er varðandi íbúana í landinu. Við deilum um hvað sé réttlæti og ég ætla ekkert að fara út í það en ég hef lagt mikla áherslu á það í pólitík minni að við gætum þess að enginn verði undir og gætum þess að ef við ætlum að vera með stuðning þá sé sá stuðningur við alla, miðað við einhver tiltekin mörk. Það eru fyrst og fremst mörk sem við erum að fást við í þessu ítarlega frv.

Mér finnst þetta afar gott mál og mér finnst mikilvægt að þróun þessa máls frá því lög um húsaleigubætur voru sett hefur staðfest að það var rétt að setja þessi lög á sínum tíma. Hins vegar var mjög erfitt að fá stuðning við það og auðvitað bera lögin þess merki að vera samkomulagsmál. Þessi lög eru ekki einu lögin sem bera þess merki og auðvitað kysum við gjarnan að geta sett lög nákvæmlega eins og við mundum vilja hafa þau en nú er verið að færa til betri vegar það sem ekki náðist samstaða um á sínum tíma, þetta tvennt sem mér finnst vera meginatriði, að öll sveitarfélög greiði húsaleigubætur og að húsaleigubætur verði greiddar til allra íbúða.

Ég var að tala um hlut sveitarfélaganna og að þau velji að fara sína leið. Það hefur t.d. ekki verið valið að greiða húsaleigubætur í sveitarfélagi mínu. Það liggur meðfram Reykjavík frá vestri til austurs og það er ákaflega erfitt að verða vitni að því að ungt fólk sem er á leigumarkaði í Kópavogi ber svo mikli þyngri leigu en þeir sem búa í sveitarfélaginu við hliðina. Það er ástæða til fyrir þingmenn að horfast í augu við það að á þeim árum sem lögin hafa verið við lýði og þetta val verið hjá sveitarfélaginu hefur það gerst, sem er óhjákvæmileg afleiðing þessa, að ungt fólk með lágar tekjur og er að basla með lítil börn og reyna að koma sér áfram sækir í það sveitarfélag sem er með húsaleigubæturnar. Það er enginn nýr sannleikur. Um það var rætt þegar lögin voru sett en viljinn og óskin var sú að sveitarfélög með einhvern metnað til að standa sig gagnvart íbúum sínum mundu greiða húsaleigubætur.

Ég lýsti því yfir í upphafi máls míns, að ég hefði ritað undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn lýtur t.d. að því uppgjöri sem birtist í frv. og er kynnt í brtt. Þess vegna völdum við að vera ekki með á brtt. vegna þess að þegar frv. kom inn var hugsunin sú að sveitarfélagið yfirtæki húsaleigubæturnar sem verkefni sitt og fengi til þess fjármuni eða tekjustofna. Ég skildi það svo að sveitarfélagið ætti að fá tekjustofna en meðan málið var til umfjöllunar í félmn. var ljóst að sveitarfélögin og félmrh. gerðu samning sín á milli um að ríkið bæri ákveðinn kostnað og sveitarfélögin ákveðinn kostnað í verkaskiptingu sem ætti að bæta sveitarfélögunum upp þann kostnað sem þau yfirtækju af húsaleigubótunum. Það blað sem fylgdi með inn í félmn. var hins vegar frekar torskilið en á einfaldan hátt er hægt að segja að ríkið hafi lagt fram 200 milljónir sem er mun minna en áætlað var í upphafi að yrði kostnaður ríkisins.

[15:30]

Ríkið hefur borið um 200 millj. króna af kostnaði við húsaleigubæturnar sem eru 60% sem var hlutur ríkisins. Nú er áformað þar sem öll sveitarfélög greiða húsaleigubætur að miðað við þessi 60% yrði kostnaður ríkisins meiri og hann er áætlaður 50 millj. Vegna umræðunnar um félagslega húsnæðið, mér skilst það sé vegna hennar, ætlar ríkið jafnframt að endurgreiða sveitarfélögunum 55 millj. kr. af staðgreiðslu fólks í félagslega kerfinu. Þetta samanlagt gerir 305 millj. kr. sem er þá það sem ríkið ætlar að bera, sýnist mér, af kostnaði sveitarfélagsins. Sveitarfélagið ætlar að taka að sér fötluð börn á leikskólum sem kostar um 95 millj. og ríkið ætlar að taka að sér vinnumiðlanir upp á 120 millj. kr. Þarna myndast því mismunur. Ef við tökum 95 millj. fyrir fötluðu börnin og leggjum þær við 305 millj. út af húsaleigubótunum koma 400 millj. í niðurstöðutölu og vinnumiðlanirnar eru kostnaður sveitarfélagsins í dag en fara til ríkisins og verða 120 millj. Þá skuldar ríkið enn þá 280 millj. inn í pakkann sem ég var að lesa upp sem verður kostnaður sveitarfélagsins og þann mismun ætlar ríkið að greiða inn í jöfnunarsjóð vegna húsaleigubótanna. Pakkinn er því ekki 280, hann er heldur ekki 400, pakkinn sýnist mér um 305 millj. kr., sem ríkið er að greiða í húsaleigubótunum, sem verða nú greiddar öllum, í öllum sveitarfélögunum, og bæði á almennum markaði og í félagslega kerfinu. Ég treysti mér ekki til að meta hvort þetta séu sanngjarnar tölur. Ég treysti mér ekki til að leggja mat á hvort þarna er búið að koma upp samningi sem fólk hrópi upp af síðar eins og gerðist í grunnskólunum. Sveitarfélögin og ríkið hafa komið sér saman um að gera þetta á þennan hátt og ég býst því við að sitja hjá um þessa brtt. en get fullvel stutt hinar tvær. Önnur þeirra er tengd því að þegar þessar 280 millj. eru komnar inn í jöfnunarsjóðinn er eðlilegt að sveitarfélögin hafi upplýsingaskyldu gagnvart sjóðnum og þriðja tillagan er um breytingu á grein sem fjallar um heimild til að fella niður greiðslu bóta, stöðva bótagreiðslur, eða greiða bætur beint til leigusala og þá með samþykki leigjanda sem nefndin óskaði að væri tekið til greina. Nefndinni fannst mikilvægt að það úrræði væri til staðar hjá félmn. ef vandræði væru uppi hjá leigjanda. Þess vegna hef ég velt upp nokkrum álitamálum en ekki lagst gegn neinu beinu ákvæði í þessum lögum annað en að ég tel eðlilegt að það sé stjórnarmeirihlutinn sem tekur ábyrgð á fjárhagsdæminu og samningnum við sveitarfélögin og mun ekki hafa afskipti af því.

Virðulegi forseti. Það er ákveðið áhyggjuefni að meðal þeirra sem nýta sér ekki rétt til bóta eru ekki allir á leigumarkaði því það eru ekki allir sem nýta sér réttinn og sækja um. Sumir eru kannski með of háa leigu og of háar tekjur og reyna ekki við það en það er upplýst í nefndinni að meðal þeirra sem nýta sér ekki rétt til bóta er fólk sem ekki fær til þess heimild leigusala þar sem leigusalinn hafnar þinglýsingu leigusamnings. Við vitum að sjálfsögðu ekki vegna hvers, hvers konar leigusamningur er þar á ferðinni, en þegar leigusali hafnar þinglýsingu á leigjandi einskis úrkosti með að fá húsaleigubætur. Þetta finnst mér að verði að skoða og ég hvet félmrh. til að láta gera úttekt á því hversu margir eru á leigumarkaði, hve margir fá húsaleigubætur og hvort einhverjar frekari upplýsingar eru til, jafnvel að leita eftir því við sveitarfélögin að slík könnun verði gerð.

Virðulegi forseti. Þegar lög um húsaleigubætur voru sett var strax kveðið á um endurskoðun þeirra. Við höfum sameinast um niðurstöðuna að mestu leyti og ég hef sérstaklega gert að umtalsefni hvað ég fagna því að öll sveitarfélög muni nú greiða húsaleigubætur. Hins vegar tel ég að í framtíðinni eigi sveitarfélög að fá næga tekjustofna til félagslegra verkefna sem þeim er ætlað og að þau eigi líka að fá meira svigrúm til útfærslu á félagslegri þjónustu sinni. Það er ekki órökrétt að lögin um húsaleigubætur séu svo mikið útfærð þegar ríkið leggur fé fram. Það er alveg ljóst að ef við værum að setja lög um húsaleigubætur sveitarfélaga og þeim væru fengnir tekjustofnar til að inna þennan þátt af hendi ætti þetta kannski að vera meiri rammalöggjöf og sveitarfélögin að hafa meira svigrúm.

Að þessum orðum töluðum, virðulegi forseti, og þar sem ég hef eiginlega lokið máli mínu vil ég þó benda á 4. gr. og með tilliti til þess sem ég hef sagt um áhyggjur margra af því að húsaleiga hækkar hjá sveitarfélögunum árétta ég enn einu sinni að það er þó óháð þessum lögum, en í 4. gr. segir að sveitarstjórn skuli taka ákvörðun fyrir 1. nóv. ár hvert um fjárhæðir húsaleigubóta á næsta ári, sem geta verið hærri en grunnfjárhæðir, og hún skuli fyrir 1. nóv. ár hvert auglýsa tryggilega ákvörðun sína um fjárhæðir. Þarna er verið að vísa til þess að sveitarfélögin geri grein fyrir því að með því að gera breytingar, geri þau það, á fjárhæðum húsaleigubóta í félagslegu húsnæðiskerfi sínu eru þær að kalla yfir sig að gera heyrinkunnugt hverjar þessar bætur verða.