Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 15:43:43 (2675)

1997-12-18 15:43:43# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[15:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka hv. félmn. fyrir skjóta afgreiðslu á frv. Eins og fram kom við 1. umr. málsins tafðist að málið væri tekið á dagskrá og mér er ljóst að frv. hefur verið afgreitt á skömmum tíma í félmn. þó ég vænti þess samt að henni hafi gefist tími til að leggja í það vinnu þannig að meiri hluti hennar sé sæmilega ánægður með þetta frv. Ég get samþykkt þær brtt. sem meiri hlutinn leggur til enda er að stofni til meiri hluti þeirra fluttur að minni beiðni, þ.e. hlutverk jöfnunarsjóðsins í þessu dæmi er nýtilkomið. Eins og þegar hefur komið fram í umræðunni var við 1. umr. ekki búið að ganga frá fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga fyrir þetta ár en það tókst að koma því samkomulagi á nokkrum dögum eftir að málið fór til nefndar. Þar með var upp vakið hlutverk fyrir jöfnunarsjóð í þessu efni.

[15:45]

Eins og komið hefur fram leggur ríkið sveitarfélögunum til 305 millj. kr. til að annast alfarið húsaleigubætur. Í staðinn fyrir að ríkið hefur greitt 60% á móti sveitarfélögunum leggur ríkið nú 305 millj. kr. til að létta sveitarfélögunum þessa byrði. 280 millj. af því, eins og hér hefur réttilega komið fram, ganga í gegnum jöfnunarsjóð, og það sem á vantar, 25 millj. kr., fara upp í önnur fjármálaleg samskipti. Sveitarfélögin fá því 305 millj. frá ríkinu til að standa undir þessu verkefni. Það var hárrétt tala hjá hv. 5. þm. Reykn. 200 millj. kr. hefur verið rífur raunkostnaður ríkishlutans af húsaleigubótum þann tíma sem þær hafa verið greiddar. Ríkishlutinn af húsaleigubótunum hefur aldrei náð alveg 200 millj., var 180 millj. eitt árið eða eitthvað í kringum það, en við gengum út frá 200 millj. sem væri raunkostnaður hjá þeim sveitarfélögum sem hafa greitt húsaleigubætur. Síðan er bætt við 50 millj. vegna þeirra nýju sveitarfélaga sem taka þátt í verkefninu og að nú verður farið að greiða út á allar íbúðir. 80% landsmanna áttu kost á húsaleigubótum eða eiga kost á húsaleigubótum að óbreyttum lögum. Sú viðbót sem þarna verður eða sú víkkun á rammanum er metin upp á 50 millj. kr. 55 millj. skoðast sem endurgreiddur tekjuskattur af húsaleigubótunum, þ.e. sveitarfélögin fá raunkostnaðinn plús útvíkkunina og extra 55 millj. sem þau geta varið til húsaleigubóta. Væntanlega verja þau þeim til húsaleigubóta og þá gætu þær hækkað sem því nemur ef þeim býður svo við að horfa.

Frumvarpið byggist á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga og er unnið í mjög nánu samráði við sveitarfélögin í landinu. Þar af leiðandi er örðugt að fara að breyta einhverjum grundvallaratriðum í því. Þá teldi ég að við værum að ganga á það samkomulag sem við gerðum.

Ég get ekki fallist á brtt. hv. þm. Péturs H. Blöndals. Sumar af þeim er reyndar hægt að framkvæma í reglugerð, ef maður vildi, því reglugerðarsetningin eða heimildin til reglugerðar er slík að félmrh. setur, samkvæmt 4. gr., að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga ákvæði í reglugerð um útreikning og fjárhæð bóta, þar á meðal um grunnfjárhæðir bóta. Það liggur í augum uppi að sveitarfélagi er heimilt að greiða meira en grunnfjárhæð ef sveitarfélagið kærir sig um og hefur til þess burði.

Ég er í grundvallaratriðum ósammála sumum af brtt. hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég tel mjög mikilvægt að um þinglýstan leigusamning sé að ræða. Þinglýsingin er einmitt trygging leigjandans. Hann hefur þinglýstan samning í höndunum og það er hans trygging og ég lít svo á að það sé fengur leigutakans að hafa þinglýstan samning. Þar er uppgefin tala, leigufjárhæð er gefin upp, og leigusali hefur þá ekki tækifæri til að kreista hærri leigu út úr leigutakanum en gefin er upp á samningnum. Samningurinn stendur og samningurinn gildir. Hann er þinglýstur og hann er trygging fyrir leigutakann. Ég get því ekki fallist á röksemd hv. þm. að óþarfi sé að þinglýsa. Ég get heldur ekki fallist á að eðlilegt sé að borga húsaleigubætur út á einstaklingsherbergi. Ég tel eðlilegt að binda þetta við íbúðir. Hvað varðar stúdentagarðana, þá tel ég að það hljóti að vera hægt að leysa það mál. Þar sem samliggjandi herbergi með eldunaraðstöðu og baði eru talin einstaklingsherbergi núna, þá á að vera auðvelt að slá þeim saman í íbúðir, þar sem tveir einstaklingar byggju þá í tvíbýli.

Við 1. umr. málsins kom fram talsvert mikill ótti um að leigutökum yrði íþyngt þegar farið yrði að greiða húsaleigubætur á leiguhúsnæði í eigu sveitarfélaga. Sveitarfélögin mundu nota tækifærið og hækka bara leiguna upp úr öllu valdi og ætla húsaleigubótunum að taka við þeirri félagslegu skyldu sem þau hafa við íbúa sína. Í tilefni af þessum málflutningi fékk ég til fundar við mig formann Félagsbústaðanna í Reykjavík og reyndar fleiri af ráðamönnum í borginni, og ég var fullvissaður um að það væri alls ekki meiningin að íþyngja illa settum leigjendum í borginni þótt farið yrði að greiða húsaleigubætur út á leiguhúsnæði í eigu borgarinnar eða Félagsbústaða hf. (Gripið fram í.) Hins vegar getur það gerst að einhverjir leigjendur hjá borginni séu það tekjuháir að það komi við pyngju þeirra, þ.e. að þeir fái ekki húsaleigubætur. En þá eru þeir ekkert verr settir en annað fólk á leigumarkaði. Mér finnst að húsaleigubætur eigi fyrst og fremst að vera fyrir hina tekjulágu, aðstoð til hinna tekjulægri í þjóðfélaginu. Það átti að koma til móts við leigusalann og fá hann til að verða fúsari að gera þinglýstan leigusamning, að sumu leyti að því er mér finnst með órökréttu skattfrelsi leigutekna. Ég óttast að til sé í landinu svartur leigumarkaður þar sem leigan er ekki öll gefin upp og verið sé að leigja húsnæði sem tæplega er boðlegt, og þar af leiðandi tel ég mjög mikilvægt að leigumarkaðurinn sé opinber.

Ég vil að lokum minna á að auðvitað hafa sveitarfélögin skyldur, og því mega menn ekki gleyma, í félagslegum húsnæðismálum og þau hafa líka skyldur um félagslega aðstoð við íbúa sem eru illa settir og í fjárþröng.