Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:02:33 (2680)

1997-12-18 16:02:33# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Hann bendir á að markmið þessara laga sé að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Þetta er 1. gr. laganna. Hún hljóðar svo.

Hann lýsti ákveðnum áhyggjum yfir hag leigjenda í félagslegum íbúðum, hver hann yrði eftir að húsaleigubætur eru komnar á og leigukostnaður færður upp í það sem kallað er raunkostnaður, félagslega húsnæðiskerfið með öðrum orðum markaðsvætt. Ég kem að því síðar.

Að mínum dómi er mjög jákvætt að setja lög sem tryggja öllum þegnum landsins húsaleigubætur. Lög um húsaleigubætur voru sett árið 1994 en við framkvæmd þeirra var sveitarfélögunum í sjálfsvald sett hvort þau tækju kerfið upp, hvort þau tækju upp húsaleigubætur. Þeim sveitarfélögum hefur síðan smám saman verið að fjölga sem hafa farið þann veginn og munu nú vera 39 talsins. Mönnum reiknast til að húsaleigubætur nái til 65% landsmanna og yfir 80% af húsaleigumarkaðnum sé á svæðum eða í sveitarfélögum sem eru með húsaleigubætur þannig að út af standa 20% af þeim markaði. Með þessum lögum er gert ráð fyrir að rétturinn nái til landsins alls en annað er að í lögunum eins og þau hafa verið taka húsaleigubætur aðeins til þeirra sem eru á opnum markaði, ekki til þeirra sem búa í félagslegu húsnæði. Með þessum lögum er gerð breyting á þessu. Nú skulu húsaleigubætur ná til allra þeirra sem leigja íbúðir. Þetta tel ég mjög jákvætt. Ég tel hins vegar að ríkið eigi að fjármagna þetta algerlega, þetta eigi ekki að vera á hendi sveitarfélaga.

Ég er sammála því sem kom fram í máli Kristins H. Gunnarssonar við fyrri umræðu þar sem hann skilgreindi þennan lagabálk sem réttindalöggjöf. Líta ætti á þetta sem réttindalöggjöf einstaklingsins og ætti ekki að skipta máli hvar á landinu hann byggi og þannig ættum við að nálgast þessi mál. Þetta er gagnrýnisatriði sem ég vil setja fram og leggja áherslu á, þ.e. ég tel að ríkið eigi að fjármagna þessar bætur.

Annað sem hefur verið gagnrýnt í tengslum við þessi lög eða breytingar, þótt breyta hefði þurft öðrum lögum en þessum til að fá því framgengt, er skattlagning húsaleigubótanna. Ég tek undir þær áherslur sem komið hafa frá verkalýðssamtökum, frá ASÍ, BSRB, Leigjendasamtökunum og ýmsum öðrum almannasamtökum þar sem þess er krafist að hið sama gildi um húsaleigubætur og aðrar bætur í húsnæðiskerfinu. Ég tel að þetta eigi ekki að skattleggja eða öllu heldur að sömu reglur eigi að gilda. Mér finnst persónulega koma til álita að skoða eða endurskoða bótakerfið og íhuga hvort rétt væri að fella það undir almennan tekjuskatt að einhverju leyti eða öllu leyti. Mér finnst það alveg koma til álita en mér finnst að hið sama eigi að gilda um húsaleigubætur og vaxtabætur að þessu leyti. Hið opinbera ver mjög litlum fjármunum til húsaleigubóta til þeirra sem leigja húsnæði í samanburði við stuðning við húseigendur. Mönnum reiknast til að vaxtabætur, stuðningur við þá sem eru að kaupa húsnæði, hafi numið 3.300 millj. kr. á ári en tæpum 230 millj. kr. hafi verið varið í húsaleigubætur þegar það dæmi hafi verið gert upp eftir skatt.

Ég tek að vissu leyti undir sumt sem kom fram í málflutningi hv. þm. Péturs H. Blöndals að því leyti að skerðingarákvæðin, tekjuskerðingar eða viðmiðunarmörkin á skerðingu húsaleigubóta liggja mjög lágt. Og vegna þess að ég var að bera saman stöðu leigjenda og húsnæðiskaupenda þá er hróplegt misræmi þar að finna, eins og reyndar kom fram í ræðu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal flutti fyrr um þetta sama mál, en hann benti á að hátekjufólk með samanlagðar fjölskyldutekjur upp á 600 þús. kr. gæti fengið 200 þús. kr. á einu ári í vaxtabætur. Stuðning upp á 200 þús. kr. á einu ári. Á sama tíma erum við með frv. sem gerir ráð fyrir skerðingu sem byrjar í 125 þús. kr. og sé ekki barn í fjölskyldunni falla greiðslurnar algerlega niður við 155 þús. kr. en við 212 þús. kr. hjá barnafjölskyldu. Þarna er ekki saman að jafna, annars vegar stuðningnum og hins vegar þegar kemur að þessari skerðingu einnig, hjá þeim sem eru að kaupa íbúðir og hins vegar hjá hinum sem leigja íbúðir. Ég tek því undir þá gagnrýni þótt við komumst ekki að sömu niðurstöðu, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal. Vil ég benda á í því sambandi þegar hann ber saman barnlausa einstaklinga annars vegar og barnafjölskyldur hins vegar og segir að eðlilegt væri að taka meira tillit til fjölskyldufólksins en gert er í þessu frv., þá vil ég vekja athygli á því sjónarmiði að fyrir einstakling er lífið að mörgu leyti hlutfallslega erfiðara en hjá fjölskyldufólki eða þar sem eru tvær fyrirvinnur og stuðningur við barnafólk kemur líka fram í gegnum önnur ferli. Við erum með barnabætur og við erum líka með í frv. hærri húsaleigubætur fyrir barnafólk; við bætast 4.500 kr. fyrir fyrsta barn, 3.500 kr. fyrir annað, og 3.000 kr. fyrir þriðja barn. Þarna er því tekið tillit til barna, en hitt er rétt hjá hv. þm. að síðan kemur skerðingin til sögunnar og getur tekið þetta algerlega til baka. Það er alveg rétt sem hv. þm. segir að fjölskyldutekjur upp á 212 þús. kr. hjá barnmörgum fjölskyldum eru ekki miklir peningar.

Mér finnst hins vegar að við þurfum að íhuga rækilega þegar við erum að tala um ráðstöfunartekjur fjölskyldnanna á hvern hátt við viljum að þessir fjármunir komi til sögunnar. Þar er um að ræða laun, barnabætur, vaxtabætur hjá þeim sem eru að afla sér húsnæðis eða húsaleigubætur eftir atvikum. Við megum ekki einblína á eina lausn í þessu efni heldur skoða allt samspilið. En ég tek undir það og legg áherslu á að mér finnst þessi skerðingarviðmiðunarmörk vera of lág.

Um aðrar greinar frv. ætla ég ekki að fjölyrða. Ég ætla þó að nefna eitt atriði sérstaklega, þ.e. 14. gr. frv. og síðan brtt. sem meiri hluti félmn. hefur flutt við 14. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Félagsmálanefnd sveitarfélags er heimilt að fella niður greiðslur bóta, stöðva bótagreiðslur eða greiða bætur beint til leigusala, og þá með samþykki leigjanda, ef nefndin fær vitneskju um veruleg leiguvanskil leigjanda.``

,,Félagsmálanefnd sveitarfélags er heimilt að fella niður greiðslu bóta.`` Þetta get ég engan veginn sætt mig við og kem ég þar aftur að því sem ég nefndi áðan að þetta er réttindalöggjöf. Það er réttur einstaklingsins sem við erum að tryggja með lögunum. Ef við ætlum síðan að heimila félagsmálanefnd, fulltrúum sveitarfélagsins, að svipta einstaklinginn þeim rétti þá finnst mér við vera komin út á heldur betur hálan ís. Mér finnst öðru gegna að heimild sé til þess að bótagreiðslurnar verði látnar renna til eiganda íbúðarinnar, sem hugsanlega væri þá sveitarfélagið. Að heimild væri fyrir hendi til þess að tryggja að leigan færi í að greiða húsaleigu, að fyrir hendi væri heimild til þessa. En heimild til að svipta einstaklinginn bótunum finnst mér ekki ganga upp. Það er nokkuð sem ég vil gagnrýna og get ekki stutt.

[16:15]

Ég tek undir það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði áðan að þær upphæðir sem hér er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og eru að hluta til ætlaðar til greiðslna á húsaleigubótum verða að vera algerlega á ábyrgð stjórnvalda. Þetta tengist samningum sem ríkisstjórnin gerði við sveitarfélögin. Margt er óljóst um hvernig þeim sjóði verður ráðstafað og á þessum fjármunum treysti ég mér ekki til að taka neina ábyrgð.

Annað sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og ég reyndar hef sagt hér fyrr við umræðuna að tengist ekki þessu frv. en menn hafi þó haft áhyggjur af, er hver útkoman verður þegar upp verður staðið fyrir þá sem eru í félagslegu íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga. Ég er kominn á aðra skoðun, að sjálfsögðu tengist það þessu frv. og meira að segja er skýrt kveðið á um það í skýringum við bráðabirgðaákvæði í lagatextanum. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið gerir ráð fyrir þeirri meginbreytingu frá gildandi fyrirkomulagi að húsaleigubætur komi í stað niðurgreiðslna félagslegra íbúða.``

Það er beinlínis kveðið á um það í lagatextanum að húsaleigubótakerfið komi í stað niðurgreiðslna félagslegra íbúða. Við erum að lögbinda að svo verði. Ef við ætlum að lögbinda að svo verði, þá verðum við að hyggja vel að því hvernig dæmið lítur út þegar upp er staðið. Ég ætla að taka dæmi úr raunveruleikanum:

Einstætt foreldri með tvö börn, með árstekjur upp á tæpar 708 þús. kr. og í félagslegri íbúð í Reykjavík, greiðir núna í leigu tæpar 24 þús. kr. á mánuði. Eftir að leigukostnaðurinn verður færður upp í svokallaðan raunkostnað er gert ráð fyrir að leigan á þessari íbúð verði tæpar 45 þús. kr. Viðkomandi einstætt foreldri með tvö börn á framfæri fengi 18 þús. kr. í húsaleigubætur. Þar af yrði tekið í skatt tæpar 7.400 kr. þannig að húsaleigubæturnar eftir skatt yrðu 10.600 kr. Áætluð leiga hjá hinu einstæða foreldri með tvö börn þegar húsaleigubæturnar hafa dregist frá leigunni yrði 34.200 þús. kr. Mismunurinn yrði rúmlega 10 þús. kr. Ef skattlagningin hefði ekki verið komin til sögunnar eða bæturnar ekki verið skattlagðar, þá værum við að tala um 2.800 kr., en þó í mínus, enn í mínus. Þetta skyldi löggjafinn hugleiða mjög vel þegar hann er að festa í lög breytingar, húsaleigubætur, sem eiga að koma í stað niðurgreiðslna félagslegra íbúða.

Ég ætla að taka annað dæmi. Ég ætla að taka einstakling með 730 þús. kr. í árstekjur. Hann greiðir nú í leigu tæpar 9 þús. kr. á mánuði. Áætlað er að leigan fyrir þá íbúð fari í rúmar 22 þús. kr. (Gripið fram í: Er þetta í Reykjavík?) Þetta er í Reykjavík. Húsaleigubætur fyrir skatt hjá þessum einstaklingi yrðu rúmlega 7 þús. kr. og þær yrðu skattlagðar vegna þess að ríkisstjórnin neitar að láta sama gilda um húsaleigubætur og vaxtabætur. Hún ætlar að skattleggja leigjendur sérstaklega. Hún ætlar að skattleggja það lágtekjufólk sem ég er að nefna. Hún ætlar að skattleggja það sérstaklega en hún skattleggur ekki fjölskylduna sem ég nefndi áðan með 600 þús. kr. á mánuði og 200 þús. kr. á ári í vaxtabætur. Hún borgar engan skatt af því. En sá einstaklingur sem er með innan við milljón ári, reyndar langt innan við milljón, rúmar 700 þús. kr., og fengi húsaleigubætur upp á rúmlega 7 þús. kr. yrði að borga 3 þús. kr. af þeim í skatt. Húsaleigubæturnar hjá þeim einstaklingi yrðu ekki nema rúmlega 4 þús. kr. Fyrir þennan einstakling, sem greiddi 8.700 kr. í leigu, mun leigan verða 17.800 kr. þegar upp er staðið eftir að hann er búinn að fá húsaleigubæturnar sem hafa verið skattlagðar. Hann er í mínus, hann verður fyrir skerðingu upp á rúmar 9 þús. kr.

Ég gæti tekið fleiri svona dæmi. Ég hef aflað mér upplýsinga um þetta hjá Reykjavíkurborg hvernig þessi mál líta út. Að sjálfsögðu fagna ég því þegar Reykjavíkurborg lýsir því yfir að tekjulágt fólk eigi ekki að verða fyrir skerðingu. En hvað er tekjulágt fólk, með leyfi? Hvað er tekjulágt fólk á Íslandi? Samkvæmt því frv. sem hér er til umræðu er tekjuhár einstaklingur skilgreindur sá sem er með 125 þús. kr. á mánuði. Hann er svo tekjuhár að það er rétt að skerða húsaleigubæturnar. Hann er kominn með slíkar ofurtekjur þegar hann er kominn með 155 þús. kr. á mánuði að þær eru algerlega numdar á brott. Þær eru ekki til. Þetta er íslenska hátekjuþjóðin. Sama gildir um barnafólkið. Fjögurra eða fimm barna fjölskyldu sem er komin yfir 212 þús. kr. samanlagt, brúttótekjur, fær ekki neitt. Hún fær ekki nokkurn skapaðan hlut. En þeir sem kaupa stóru villurnar og fá á ári 3.300 millj. í vaxtabætur á móti 200--300 millj. sem varið er til leigjendanna eru undanskildir skatti. Þeir þurfa ekki að borga krónu í skatt. En leigjendurnir, einstæða foreldrið, sem ég var að nefna áðan með tvö og þrjú börn og með um 700 þús. kr. á ári er skattlagt. Þar eru peningarnir teknir. Nú erum við með lög sem kveða á um að húsaleigubætur komi í stað niðurgreiðslna félagslegra íbúða. Það segir í lagatextanum, í ákvæði til bráðabirgða að þær komi í stað þessa kerfis. (Gripið fram í: Er ekki þingmaðurinn að lesa skýringu ...?) Þá er von að menn spyrji --- ég er að lesa skýringu á bráðabirgðaákvæðinu. (Gripið fram í: Það er ekki lagatextinn.) Það er lögskýringargagn sem segir til um tilgang laganna á sama hátt og það er lögskýringargagn sem sagt er í þingsal af hálfu frsm. nefndarinnar og ráðherra. Það sem segir í skýringu með lagatextanum segir að sjálfsögðu nokkuð um tilgang þessara laga og ég er að tala um tilgang þessara laga.

Eftir að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir upplýsti í umræðu á fyrri stigum eða vakti sérstaka athygli á þeirri hættu sem hér væri á ferðum og Leigjendasamtökin voru með ábendingar í sömu átt, þá óskaði formaður nefndarinnar, sem hefur verkstýrt þessu máli mjög vel, eftir því að við fengjum til okkar fulltrúa frá sveitarfélögunum sem eru ábyrgir fyrir húsnæðiskerfunum þar á bæ til að gera okkur grein fyrir því hvernig þessi mál stæðu þar, hvað þau ætluðu að gera. Hæstv. félmrh. var krafinn um það hér að hann beitti sér fyrir því gagnvart sveitarfélögunum að þau væru búin að ganga frá þessum málum þannig að menn vissu að hverju þeir gengju þegar þeir væru að samþykkja þessi lög. Fulltrúar verkalýðshreyfingar og leigjendasamtaka, fulltrúar frá ASÍ, BSRB og Leigjendasamtökunum gengu einnig á fund hæstv. ráðherra og lýstu yfir áhyggjum vegna þessa máls og óskuðu eftir að hann tæki það sérstaklega upp við sveitarfélögin. Niðurstaðan varð sú í félmn. að við fengum fulltrúa sveitarfélaganna á okkar fund og fulltrúa Reykjavíkurborgar líka sérstaklega. Þar kom fram að Reykjavíkurborg hefði lýst því yfir að tekjulágt fólk yrði ekki fyrir áföllum. Það kom fram. Það hefur verið gefin út yfirlýsing þar að lútandi. Þá minni ég aftur á þetta: Hvað er tekjulágt fólk? Erum við --- ég varpa því fram til umhugsunar --- að samþykkja lagabreytingar sem fela í sér skerðingu fyrir fólk sem fellur ekki undir þessa undarlegu skilgreiningu á hátekjufólki sem ég vitnaði í áðan? Erum við að samþykkja skerðingu á það? Ég vil ekki standa að slíku. Ég mótmæli þess vegna þeim hluta laganna þótt ég styðji lagabreytingarnar í heild sinni, þá ákvörðun að festa í lög að komið verði á húsaleigubótakerfi sem nái til alls landsins. Ég styð það en ég lýsi miklum áhyggjum yfir þessu og mótmæli því að við göngum frá þeim hluta laganna fyrr en þetta liggur ljóst fyrir. Ég vil líka taka fram að frá fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga fengust engar upplýsingar, sem hægt er að kalla, um hvernig þessu máli verður fyrir komið. Þeir vissu það hreinlega ekki. Við spurðum t.d. fulltrúa í Kópavogi hvað stæði til að gera þar. Það var með öllu óljóst. Það var ekki vitað. Að þessu leyti finnst mér stórálitamál uppi.

[16:30]

Ég ítreka áhyggjur mínar hvað þetta varðar og minni á það, sem ég vakti máls á í upphafi máls míns og þannig ætla ég að ljúka máli mínu, að í 1. gr. þessara laga segir að markmið laganna sé að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda. Hvert erum við eiginlega komin? Ég vek athygli á að í 1. gr. laganna segir að það eigi að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda. Við stöndum núna í fullkominni styrjöld til að reyna að tryggja að tekjulægsta fólkið verði ekki fyrir skerðingu. Ekki að það fái bætur, heldur að það verði ekki fyrir skerðingu. Mér finnst ábyrgðarhluti af hæstv. félmrh. að vera ekki búinn að tryggja þetta áður en hann leggur fram stjórnarfrv. sem gerir ráð fyrir þessari breytingu, gerir ráð fyrir því að húsaleigubætur komi í stað niðurgreiðslna félagslegra íbúða. Mér finnst ábyrgðarhluti af hálfu hans að hafa ekki gert það og við þurfum að fá miklu haldbetri upplýsingar og ákveðnari yfirlýsingar af hálfu hans til að hann sannfæri okkur um að 1. gr. þessara laga standist um að tekjulágu fólki verði tryggðar bætur.