Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:32:34 (2681)

1997-12-18 16:32:34# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. meiri hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:32]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson reifaði rækilega það atriði sem er það sem ræður fyrirvara okkar flestra við frv. og snýr að því að sú breyting, sem er verið að gera, verði ekki til þess að rýra kjör þeirra leigjenda sem verst standa. Það kom fram í umfjöllun okkar að fyrir liggur yfirlýsing Reykjavíkurborgar hvað það varðar að tryggja að leigjendur borgarinnar verði ekki fyrir skerðingu. Þeir eru auðvitað tekjulágir og frv. og lögin miðast öll við tekjulágt fólk. Við hljótum að verða að treysta því að við þau fyrirheit verði staðið. Við hljótum líka að verða að gera þá kröfu til annarra sveitarfélaga á landinu að þau sjái til þess að kjör rýrni ekki og það eru auðvitað aðrir möguleikar. Flest af þessu fólki fær ýmiss konar aðstoð frá sveitarfélögum sínum og það gilda auðvitað lög um aðstoð við það fólk.

Ég ítreka að ekkert í lagatextanum segir að sveitarfélögum beri að taka upp raunleigu. Hins vegar er það hugsunin á bak við þessa breytingu og það er sú stefna sem Reykjavíkurborg hefur markað en ekkert skyldar sveitarfélögin til þess. Það er verið að breyta um form á niðurgreiðslum. Sveitarfélögin hafa verið að greiða niður leigu og það meira að segja mjög mikið í Reykjavík. Í staðinn fer þetta í gegnum annað ferli. Það fer í gegnum húsaleigubæturnar og þar leggja sveitarfélögin sitt af mörkum. Það er metið að bæturnar geti orðið allt að 600 millj. kr. á öllu landinu. Það eru ekki bara þessar 280, það bætist heilmikið þarna við.

Ég ætlaði líka að nefna það sem hv. þm. sagði um 14. gr. Mér finnst þar vera um misskilning að ræða. Ég tel að félagsmálanefndir sveitarfélaga verði að hafa lagalega heimild til að grípa inn í ef um misnotkun er að ræða.