Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:35:01 (2682)

1997-12-18 16:35:01# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að ekkert í lögunum segir að sveitarfélög þurfi að taka upp raunleigu sem kölluð er en hv. þm. bætti því við að það væri hugsunin á bak við breytingarnar. (Gripið fram í: Það er óeðlilegt að vera með tvöfalt kerfi.) Að það sé óeðlilegt að vera með tvöfalt kerfi? Menn eru orðnir svo miklir hreintrúarmenn í öllum kerfum sínum og bókhaldskúnstum. Hið óeðlilega er að fólk geti ekki framfleytt sér. Í öllum lagabreytingum okkar hljótum við að vera að reyna að tryggja jafnari og betri lífskjör í landinu. Alveg sama hvað bókhaldið verður flott ef okkur tekst ekki að gera það og við klúðrum lífskjörum fólks með lagasetningu er það slæm lagasetning. Ég er að segja það að þessi lög gera ráð fyrir breytingum. Andi laganna er sá, hugsunin á bak við þau er sú, að taka upp breytt stuðningskerfi við leigjendur. Ef raunin verður sú að það verður tekjuskerðing, auknar álögur á þetta fólk, minni ráðstöfunartekjur, þá hefði betur verið heima setið. Það er það sem ég er að segja. Þess vegna minni ég hæstv. félmrh. á ábyrgð sína. Jafnvel þótt þessar breytingar eigi sér stað vil ég reyna að tryggja að þær verði á þann hátt að fólk verði ekki fyrir kjaraskerðingu. Út á það gengur málflutningur minn og varðandi 14. gr. er enginn misskilningur af minni hálfu. Í 14. grein segir, og síðan brtt. sem hafa komið fram við 14. gr. frá meiri hlutanum, að það eigi að vera heimilt að svipta einstaklinginn þessum bótum og mér finnst það ekki ganga upp. Mér finnst þetta vera réttur hans.