Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:39:34 (2684)

1997-12-18 16:39:34# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þetta með hv. þm. en það verður að koma í ljós fyrr en síðar og það er á ábyrgð hæstv. félmrh. að ganga úr skugga um hvernig sveitarfélögin ætla að ganga frá þessum málum. Reykjavíkurborg hefur þegar gefið yfirlýsingu þess efnis að tekjulágt fólk eigi ekki að verða fyrir skerðingu. Ég hef hins vegar lýst miklum áhyggjum á skilgreiningu manna á tekjulágum og tekjuháum og minni á í því sambandi að ofurtekjufjölskyldan, samkvæmt þessum lagabálki, og þeim reiknireglum sem þar er að finna, er með rúmar 200 þús. kr. í brúttótekjur. Það er ekki hátekjufólk á Íslandi en það fólk fær engar húsaleigubætur. Það er með slíkar ofurtekjur. Þótt þessi yfirlýsing hafi komið frá borginni eigum við enn eftir að sjá hvar skilgreiningarmörkin liggja. Ég er því ekki búinn að fá nægileg svör frá borginni og frá öðrum aðilum koma engin svör. Frá Kópavogsbæ koma ekki nokkur einustu svör. Við vitum ekki hvort þeir ætla eitthvað að styðja leigjendur í félagslegu húsnæðiskerfi sem kunna að verða fyrir skerðingu, ef þeir fara með sinn leigukostnað upp í raunverð sem menn kalla, ef menn markaðsvæða leiguna.

Aðeins aftur að 14. gr. Ekkert í henni segir að þetta sé tímabundið. Það er rétt hjá hv. þm. að þetta getur verið tímabundið en það segir ekkert um það. Mér finnst ekki hægt að svipta fólk bótum af þessu tagi, í því felst réttindaskerðing að mínum dómi. Ég minni á að ekki er hægt að skerða þá sem njóta vaxtabóta, þá sem kaupa sér íbúðir. Þeir fá bætur sínar greiddar en sett í lög að heimilt sé að skerða bætur leigjenda.