Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:43:44 (2686)

1997-12-18 16:43:44# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ógæfufólk sem ekki greiðir húsaleigu, drykkjumenn, en fær húsaleigubætur. Ég held að leiðin sé ekki sú að svipta viðkomandi rétti sínum til húsaleigubóta. Leiðin er að aðstoða viðkomandi með öðrum hætti. Ég er að mótmæla því, ef hv. þm. hefði hlustað á málflutning minn, að viðkomandi sé sviptur rétti sínum.

Varðandi undirskrift mína á nefndarálitið þá styð ég lagabreytingarnar í heild sinni. Ég geri það. Ég set alvarlega fyrirvara við einstaka þætti frv. Ég hef alla tíð verið fylgjandi húsaleigubótum og vil koma þeim á en ég hef sett þarna ákveðna fyrirvara. Ég sagði líka að ég teldi að samræmi ætti að vera í skattgreiðslum á húsaleigubótum annars vegar og vaxtabótum hins vegar. Ég sagði jafnframt að ég væri ekki endilega viss um að allar þessar greiðslur ættu að vera undanþegnar skatti og ég vildi alveg íhuga að skoða nýtt kerfi, bæði í barnabótum og öllu þessu bótakerfi, þar sem greiðslurnar yrðu jafnaðar en tekjujöfnunin væri síðan tekin í gegnum tekjuskattskerfið. Mér finnst alveg koma til álita að skoða róttæka breytingu á öllu þessu samspili.