Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 16:46:37 (2687)

1997-12-18 16:46:37# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, KPál
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[16:46]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það frv. um húsaleigubætur sem liggur fyrir er lagt fram með samþykki mínu en þó með fyrirvara sem snýr að einu atriði og varðar 3. mgr. 6. gr. sem hljóðar svo:

,,Húsaleigubætur greiðast ekki vegna leigu á einstaklingsherbergjum eða ef eldhús eða snyrting er sameiginleg fleirum.``

Þegar húsaleigubótakerfið var sett á á sínum tíma var valkvætt af hálfu sveitarfélaganna hvort þau tækju upp húsaleigubætur eða ekki. Að sjálfsögðu voru til lög sem stuðst var við við greiðslu húsaleigubóta en eigi að síður var það þó svo að félagslegt húsnæði var ekki partur af því húsaleigubótakerfi sem verið er að setja á laggirnar. Nú er búið að opna þetta kerfi fyrir nánast alla nema einstaklinga sem eiga hvað erfiðast og búa við lökust og minnst kjörin. Mér fannst óeðlilegt að ekki væri tekið sérstaklega tillit til þessa í þessu sérstaka dæmi og bað þá um að sveitarfélögin yrðu fengin til að útskýra hvers vegna væri ekki hægt að taka alla þætti húsnæðis inn í húsaleigubótakerfið og þar með loka þessum hring sem ég tel að þurfi að vera svo að við getum sagt að kerfið sé að öllu leyti sanngjarnt. Af hálfu sveitarfélaganna kom Þórður Skúlason til skrafs og ráðagerðar og að hans mati mundi ekki geta gengið að sveitarfélögin tækju á sig þessa viðbót miðað við þá samninga sem búið var að gera við ríkisstjórnina án þess að samningurinn hryndi. Það var því ákveðið af hálfu sveitarfélaganna og ríkisstjórnarinnar að þessi hópur fólks væri það stór og tæki það mikla peninga út úr kerfinu að það þyrfti að ganga í samningana alfarið upp á nýtt. Í mínum huga er slæmur kostur að það skuli þurfa að breyta kerfinu eða skilja eftir hluta utan kerfisins eingöngu vegna þessa að það er of stór biti fyrir sveitarfélögin að kyngja því í einu. Ég hef sagt í nefndinni að ég muni ekki láta þetta verða til þess að ég felli eða greiði ekki atkvæði með lagasetningunni einfaldlega vegna þess að ég get út af fyrir sig fallist á að þeir sem fá fyrirgreiðslu eigi rétt á því en það breytir ekki þeirri skoðun minni að fleiri áttu rétt á þessu og þeir sem áttu kannski einna helstan rétt á þessu eru utan kerfisins. Á þeirri forsendu taldi ég ekki hægt að leggja atkvæði mitt við þetta öðruvísi en að þar kæmi fram athugasemd af minni hálfu.

Fram hefur komið að þeir sem búa við lökust kjörin og eru í herbergjum fái hvort eð er aðstoð félagsmálastofnana með einum eða öðrum hætti þannig að staða þeirra sé tryggð hvað það varðar en það má segja um alla þá sem njóta einhverra sérkjara af hálfu ríkisins annaðhvort í þessu formi eða öðrum að þeir hafi einhvers konar tryggingu. Mér finnst að þeir sem búa í einstaklingsíbúðum eigi ekki síður að geta borið höfuðið hátt hvað þetta varðar eins og aðrir. Þeir eiga ekki að þurfa að koma á hnjánum eftir sérstakri aðstoð frá félagsmálastofnun til að geta borgað leiguna frekar en aðrir. Mér finnst enn að þetta sé stílbrot á annars þokkalega góðu frv. og ég mun beita mér fyrir því á þessu þingi eða því næsta að settar verði inn breytingar í lögin um húsaleigubætur sem geri ráð fyrir því að allar tegundir húsnæðis falli undir húsaleigubætur óháð stærð svo fremi sem viðkomandi húsnæði fellur að reglum um hollustuhætti og um öryggi sem þarf að fylgja í öllu sem fær opinberar bætur.

Fram kom þegar Reykjavíkurborg var beðin að gefa upplýsingar um fjölda þeirra sem þæðu bætur að þar er að langmestu leyti um einstaklinga að ræða. Ef við lítum á þann hóp sem þiggur húsaleigubætur samkvæmt lista frá Reykjavíkurborg þar sem um er að ræða þetta ár og það síðasta þá eru tæplega 80% af þeim sem þiggja bætur af hálfu borgarinnar einstæðir foreldrar, einhleypir karlar eða einhleypar konur. Nær 80% þeirra sem þiggja bætur eru úr þessum þjóðfélagshópi. Það gefur mjög eindregið til kynna að það sé einmitt sá hópur sem þarf að hugsa fyrst og fremst um, þeir sem lifa knappast og eiga erfiðasta stöðu í þjóðfélaginu. Þegar staða bótaþega er skoðuð kemur í ljós að þetta eru atvinnuleysingjar, ellilífeyrisþegar, nemar og öryrkjar. Þeir eru um 80% af þeim hópi sem við erum að tala um. Þetta eru þeir sem taka langmest, samanber þetta bréf sem ég er með frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Þetta er sá hópur sem þarf á aðstoðinni að halda og því held ég við ættum ekki að skera niður þá kosti sem þarna þurfa að vera til staðar hvað varðar húsnæði. Ég hefði álitið að frekar ætti að vera þak á húsnæðisstærðinni.

Ég mun greiða atkvæði með þessu en beita mér jafnframt fyrir því að það sem ég hef lýst hér sem fyrirvara mínum verði sett síðar inn í lögin.