Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:35:16 (2695)

1997-12-18 17:35:16# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. meiri hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:35]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að æskilegt er að fá greinargerð um það svo fljótt sem auðið verður hvernig sveitarfélögin muni haga þessu. Það er alveg greinilegt að það mun taka þau nokkurn tíma að finna það form sem þeim hentar og taka ákvarðanir um upphæð bóta. Það er auðvitað í ljósi þess sem það gólf, sem ég vil kalla, eða þær lágmarksupphæðir sem nú eru í gildi eru í reglugerð og munu gilda áfram á árinu 1998. Svo getum við deilt um hvort þær upphæðir eru nægilega háar og um skerðingarmörkin og allt það. En það sem er kannski mergurinn málsins er að á þessari stundu liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um hvernig hin einstöku sveitarfélög munu bregðast við fyrir utan að Reykjavíkurborg hefur lýst því yfir að hún muni sjá til þess að tekjulágir leigjendur í húsnæði hennar verði ekki fyrir skerðingu.