Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 17:36:43 (2696)

1997-12-18 17:36:43# 122. lþ. 48.7 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. minni hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[17:36]

Frsm. minni hluta félmn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Þetta hefur verið mikil umræða og að mörgu leyti góð en einnig gætir ansi mikils misskilnings. Ég ætla ekki að endurtaka öll þau rök sem ég flutti í upphafi málsins en ég vil geta um nokkur dæmi.

Herra forseti. Í umræðunni í gær sagði formaður félmn. að ég færi með rangfærslur í nál. mínu. Ég reikna með að hv. þm. hafi átt við að við værum ekki sömu skoðunar en þar er töluverður munur á þannig að ég ætla ekki að fyrtast við þótt ég sé sagður hafa farið með rangfærslur en ég hef ekki enn þá séð neitt hrakið þannig að um beinar rangfærslur sé að ræða. Mér þætti mjög miður ef eitthvað af því sem ég er að skrifa í nál. er rangfærsla.

Herra forseti. Fólki hefur orðið mjög tíðrætt um núlltekjufólk, þ.e. fólk sem hefur engar tekjur og það mun víst fá húsaleigubætur, og fólk með mjög lágar tekjur. Ég ætla að taka dæmi af slíku. Ég ætla að taka dæmi um einstæða móður sem stundar nám í háskólanum með tvö börn undir sjö ára aldri. Hún fær samkvæmt reglum lánasjóðsins óskert 106.780 kr. í lán á mánuði til framfærslu. Síðan fær hún óskert 15 þús. kr. í húsaleigubætur. Þá fær hún samkvæmt skattalögum 33.872 kr. í barnabætur á mánuði með börnum sínum sem eru undir sjö ára. Svo fær hún 23 þús. kr. frá föður barnanna í meðlag. Þessi kona er samtals með 178 þús. kr. á mánuði. Þessi núlltekjumanneskja er með 178 þús. kr. á mánuði, hún hefur engar tekjur og menn eru að tala um að hún eigi voðalega bágt.

Nú er það þannig að lánið er veitt í níu mánuði þannig að það er ósanngjarnt að segja að þetta sé yfir allt árið. En ef við gefum okkur að hún hafi 15 þús. kr. á mánuði að meðaltali. Hún má hafa 180 þús. kr. á ári án þess að lán frá lánasjóðnum skerðist og ef við tökum mæðralaunin inn í sem eru 3.400 krónur er hún samt sem áður með um 170 þús. kr. á mánuði til framfærslu og hún borgar engan skatt. (Gripið fram í: Hún borgar lánið.) Hún þarf að borga lánið seinna en á meðan hún er í námi hefur hún þessa framfærslu, 170 þús. kr. mánuði. (Gripið fram í: Hvað um námskostnaðinn?) Þetta hefur hún til framfærslu á námstímanum, það verður ekkert hrakið.

Ef hún væri að vinna úti á vinnumarkaði þyrfti hún að hafa 200 þús. kr. á mánuði til að hafa sömu ráðstöfunartekjur. Hún þyrfti að hafa þingmannslaun til að hafa sömu ráðstöfunartekjur og hún hefur meðan hún stundar nám við háskólann. Ef hún ætlar að giftast manni og við þekkjum það að fólk giftist manni (Gripið fram í: Eða konu.) Eða konu, konur giftast manni. Vegna þess að hún er með tvö börn borgar sig ekki fyrir hana að fara að vinna. Sú staða er mjög víða. Barnaheimili eru mjög dýr fyrir þá sem ekki eru í námi og svo frv. Barnaheimiliskostnaður er mjög hár. Konan yrði væntanlega heima og maðurinn yrði að skaffa einn. Hvaða tekjur skyldi nú maðurinn þurfa að hafa til að hafa sömu ráðstöfunartekjur? (Gripið fram í.) Þetta er raunveruleikinn. Það gæti alveg eins verið að maðurinn væri heima, það skiptir ekki máli, við skulum bara snúa þessu við. Segjum að þessi kona ætlaði að fara að vinna, hún giftist og maðurinn væri heima yfir börnunum af því það borgaði sig ekki fyrir hann að fara að vinna út af barnaheimiliskostnaði og fleiru. (Gripið fram í: Hann gæti verið með fjármagnstekjur.) Hugsanlega, já. En það skiptir ekki máli. Þá þyrfti hún að hafa 300 þús. kr. á mánuði til að hafa sömu ráðstöfunartekjur og hún hafði þegar hún var í námi. 300 þús. kr. á mánuði þyrfti þessi manneskja að hafa til að hafa sömu ráðstöfunartekjur og hún hafði í skóla. Það sem er að kerfinu og ég hef margoft bent á, það er í fyrsta lagi að lánasjóðurinn er að lána vegna barna, skattkerfið er að bæta vegna barna. Það kemur tvöfalt. Hún fær bæði um 50 þús. kr. frá lánasjóðnum út af börnunum og hún fær 30 þús. kr. á mánuði frá skattkerfinu. Það er verið að bæta sama hlutinn tvisvar og síðan fær hún frá lánasjóðnum vegna húsnæðis. Inni í þeim lánum er gert ráð fyrir húsnæði. En hún fær það jafnframt í húsaleigubótunum.

Þetta kerfi er vægast sagt mjög vitlaust. Það fólk sem vinnur úti á markaðnum og stendur undir öllum þessum ósköpum er alveg hlessa á þessu. Í kosningabaráttunni fyrir alþingskosningarnar hitti ég mann uppi í Breiðholti og það var dálítið sláandi. Ég var í fyrirtækjaheimsókn og allir voru voða kátir og töluðu mikið nema einn. Hann sat úti í horni. Það var verkstjórinn. Hann sagðist vinna dag og nótt. Hann var með háar tekjur, 270 þús. kr. á mánuði. Hann er með þrjú börn og konan hans er heima, vegna þess það borgar sig ekki fyrir hana að vinna. Hann sagði að þau hefðu ekki efni á að fara í bíó. Þetta er hátekjufólkið sem stendur undir þessu. Ég held það sé mjög brýnt að taka öll þessi bótakerfi til endurskoðunar. Það er fólk sem virkilega fellur milli þilja í kerfinu og fær ekki neitt. Það er mjög illa statt, það fær ekki neitt. Ég nefndi áðan að ógæfufólk sem býr í herbergi og hefur stopular tekjur, við þekkjum þetta velflest, það er því miður allt of mikið af slíku fólki, það hefur ekki efni á að leigja sér mannsæmandi íbúð eins og kallað er, og þess vegna fær það ekki húsaleigubætur. Það fær ekki húsaleigubætur af því það á svo bágt. Hvers lags kerfi er þetta eiginlega? Hvers lags félagslegt réttlæti er þetta? Svo þykjast menn vera voðalega góðir og ætla að þvinga manninn inn í fína íbúð sem hann hefur ekki efni á. Ég gat ekki skrifað upp á það frv. Ég get það ekki og gat það ekki. Ég flyt brtt. sem gera ráð fyrir að laga þetta kerfi, reyna að gera tilraun til að laga það. En auðvitað lagar það ekki nema hluta vegna þess að þetta mál tekur ekkert á lánasjóðnum, þetta mál tekur ekkert á skattkerfinu þannig að það er ekki nema lítið brot af þessu. En það er mjög mikilvægt þegar menn eru að hanna félagsleg kerfi til að bæta stöðu þeirra lægst launuðu og þeirra sem eiga bágt í þjóðfélaginu að þau séu þannig hönnuð að þeir sem eiga bágt fái eitthvað út úr því en ekki sé verið að bæta öðrum sem eiga ekki bágt eða verið að oftryggja. Það er mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt að þeir sem standa undir öllum þessum ósköpum, þ.e. vinnandi fólkið í landinu sem greiðir gífurlega skatta, sé ekki lestað svo mikið að það sé alveg undir drep. Menn standi undir því að bæta til fólks sem hefur það í reynd miklu betra.