Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 18:04:18 (2706)

1997-12-18 18:04:18# 122. lþ. 48.6 fundur 43. mál: #A almannatryggingar# (slysatrygging sjómanna) frv. 148/1997, GHelg (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[18:04]

Guðrún Helgadóttir (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég virði tilganginn með þessari lagasetningu sem er að koma í veg fyrir að íslenskir sjómenn á hentifánaskipum séu ekki lengur ótryggðir fyrir slysum. Ég harma hins vegar hversu vanhugsuð sú lagasetning er sem hér fer fram. Íslensk skip eru þau skip sem skráð eru á Íslandi og sigla undir þjóðfána Íslendinga. Skip sem skráð er erlendis og siglir undir þjóðfánum annars lands er erlent skip og hlýtur að vera rekið af erlendu fyrirtæki. Af hverju segi ég það? Vegna þess að annars væru íslensku skipafélögin að brjóta lög um lögskráningu skipa. Þar segir í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Rétt er að skrá skip hér á landi þegar íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hér á landi eða íslenskir lögaðilar, sem eiga heimili hér á landi, eiga það.``

Þessi skip hljóta því að vera rekin af erlendum fyrirtækjum og skráð sem slík og því tel ég ekki að 1. gr. frv. nái tilgangi sínum varðandi réttindi sjómanna á hentifánaskipum. Ég get ekki borið ábyrgð á slíkri lagasetningu, hversu góður sem tilgangurinn kann að vera, og greiði því ekki atkvæði.