Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 21:13:20 (2716)

1997-12-18 21:13:20# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, Frsm. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[21:13]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. sem er á þskj. 609. Það er um frv. til laga um breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, en hv. þm. Vilhjálmur Egilsson var að gera grein fyrir meirihlutaáliti efh.- og viðskn.

Að áliti minni hlutans standa auk mín þeir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Baldvin Hannibalsson.

Frv. er mjög gallað að mati okkar stjórnarandstæðinga og vægt til orða tekið. Við leggjumst alfarið gegn þessu frv. Það skiptist í meginatriðum í þrjá flokka. Taxtar, dómsmálagjöld og önnur gjöld sem tengjast dómsmrn. eru hækkuð. Þau gjöld hafa ekki verið hækkuð frá árinu 1991 en samkvæmt frv. kemur í ljós að vísitala neysluverðs hefur hækkað um 13,5% á sama tíma. Þessir taxtar eru hækkaðir um 15% í frv., sumir hærra, upp í 20%, fer eftir hvernig stendur á tölum. Þetta er sá kafli frv., herra forseti, sem við gerum mestar athugasemdir við. Í II. kafla frv. eru breytingar á gjöldum fyrir leyfi veitingastaða og verðbréfafyrirtækja og í þriðja lagi er sett inn sérstök gjaldskrá fyrir birtingu reglugerðar lífeyrissjóða og staðfestingu skipulagsskráa.

[21:15]

Það sem minni hlutinn hefur einkum við þetta frv. að athuga eru hækkanir á dómsmálagjöldum. Dómsmálagjöld skiluðu í ríkissjóð á árinu 1996 660 millj. kr. Vitaskuld væri hægt að segja sem svo: Er ekki ósköp eðlilegt að ríkið leggi á gjöld til að mæta kostnaði sem tengist þessum málaflokkum?

Vissulega væri hægt að segja það en það er ekki í þessu tilviki vegna þess að ef maður tekur t.d. til samanburðar þá er kostnaður við héraðsdóm eða rekstur héraðsdómstóla um 300 millj. á ári. Þó svo að önnur embætti taki hluta af þessum verkefnum sem hér um ræðir þá er augljóst að ekki er um að ræða gjaldtöku fyrir útlögðum kostnaði ríkisins heldur um skattstofn, um skatta sem eru lagðir á almenning í landinu.

Skattlagningin, sem er sú versta í frv., birtist í 4. og 5. gr. Í 4. gr. frv. er fjallað um gjaldskrá við fjárnám en almenna reglan er sú að það er 1% gjald af þeirri fjárhæð sem fjárnáms er krafist fyrir. Þá verða menn að greiða 1% af kröfunni. Þetta gjald er alltaf tekið af þeim aðila sem fjárnám er tekið hjá og hann þarf síðan að inna það af hendi. Það sem gert er í 4. gr. frv. er að hámarks- og lágmarksgjöld eru hækkuð. Lágmarksgjaldið er hækkað úr 3.000 í 3.500 kr. og hámarksgjaldið úr 10.000 í 11.500 kr. Í áætlun sem við fengum í efh.- og viðskn. kom fram að reiknað væri með að þessi gjaldskrárhækkun mundi gefa u.þ.b. 22 millj. Það kom í ljós þegar nefndin fór að skoða þetta mál betur að hér var vitlaust reiknað. Við endurmat í fjmrn. fundu þeir út að þetta væri oftalið um a.m.k. 6 millj., þ.e. að gjaldskrárhækkunin var ofmetin um u.þ.b. einn þriðja. Þetta var nú eftir öðru varðandi það upplegg sem hæstv. fjmrh. kynnti þegar hann mælti fyrir frv.

Ég vil benda á, herra forseti, að 1996 skilaði þessi gjaldtaka, þessi fjárnámsskattur --- því að þetta er ekkert annað en skattur --- á fólk sem er í erfiðleikum 150 millj. í ríkissjóð. Það er augljóst að hér er verið að skattleggja fólk í fjárhagserfiðleikum.

Í 5. gr. frv. er fjallað um gjaldtöku við nauðungarsölu. Það er ekki nóg, herra forseti, að taka gjald þegar krafist er fjárnáms. Það er líka tekið gjald þegar krafist er nauðungarsölu. Þá verða menn að greiða 1% af þeirri upphæð sem krafan hljóðar upp á og eru hámarks- og lágmarksupphæðir. Lágmarksupphæðin er hækkuð úr 9.000 kr. í 10.300 og hámarksfjárhæð úr 30.000 í 35.000 kr., þ.e. í hvert skipti sem beðið er um nauðungaruppboð á einhverri eign í eigu fólks sem lent hefur í vanskilum er gerð krafa um gjald upp á a.m.k. 10.300 kr., sem menn verða að bera og er tekið strax af andvirði eignarinnar þegar búið er að selja hana á nauðungaruppboði.

Þetta er satt best að segja, herra forseti, ein ómerkilegasta skattlagningaraðferð sem ég man eftir. Það er hægt að skattleggja ýmislegt í þjóðfélaginu en það er ekki hægt, að mati okkar stjórnarandstæðinga, að skattleggja fjárhagslega neyð almennings með þessum hætti eins og hér er gert. Vegna þess að ekki er um það að ræða að tekið sé gjald til að standa undir kostnaði við nauðungaruppboð eða fjárnám, það er ekki. Þetta er skattstofn nákvæmlega eins og tekjur eða eignir fólks eða hvað annað sem ríkisvaldið notar til að leggja á sín gjöld.

Meiri hluti efh.- og viðskn. var ekki tilbúinn að fjalla um málið efnislega og skoða hvort ekki væri rétt að geyma hækkanir á þessum sérstöku liðum. Þetta eru ekki það stórar upphæðir sem hækkanirnar hefðu skilað. 4. gr. hefði skilað um 18 millj. kr. og það sama kom reyndar í ljós varðandi 5. gr. að þar hafði fjmrn. misreiknað sig um helming. Þeir reiknuðu með að gjaldskrárhækkunin mundi gefa 24 millj. en við sáum fljótt að þarna var nú eitthvað skrýtið reiknað. Eftir endurmat embættismanna fjmrn. lækkuðu þeir þessa tölu niður í 12 millj. kr.

Í þessum tveimur greinum er verið að leggja skatta á fjárhagserfiðleika sem eiga að skila viðbótartekjum í ríkissjóð upp á 30 millj. Nú þegar hefur ríkissjóður tekjur af fjárhagserfiðleikum, þ.e. tekjur vegna fjárnáms og nauðungarsölu, upp á 300 millj. Ríkissjóður, hæstv. fjmrh., er að taka inn 300 millj. af fjárhagslegri nauð fólks. Og honum dugar það ekki, herra forseti. Honum dugar ekki að taka þær 300 millj. heldur vill bæta í og taka 30 millj. í viðbót. Þetta lýsir e.t.v. betur en margt annað á hvers konar slóð þessi stjórnarstefna er. Fólk er ekki látið í friði þegar það er í erfiðleikum með sín fjármál. Benda má á að jafnvel þó að nauðungarsalan klárist ekki og fjárnámið nái ekki allt fram að ganga að allan þennan kostnað verða þeir að bera sem þessu er stefnt gegn. Þetta eru ekki slíkar upphæðir, herra forseti, að menn hefðu vafalítið getað fundið sér annan tekjustofn og af því að ein helsta röksemdin fyrir þessu er að þeir liðir hafi ekki verið hækkaðir í nokkur ár. Þeim mun meiri ástæða hefði verið til, herra forseti, að endurmeta slíka skattlagningu.

Það hefur oft verið sagt af hálfu talsmanna þessarar ríkisstjórnar að fella þurfi niður gjaldtökur tengdar fyrirtækjum og stuðla þannig að örvun hagvaxtar, og vissulega hefur ríkisstjórnin gengið mjög langt í þeim efnum á undanförnum missirum og að mörgu leyti of langt. Látum það nú vera. En ríkisstjórnarflokkarnir gengu hér fram fyrir kosningar, sérstaklega Framsfl., og tóku fjármál heimilanna sem sérstakt umræðuefni og töldu sig vera sérstaka málsvara fyrir fjármál almennings í landinu.

Þetta frv. hefur ekkert með fólk í fyrirrúmi að gera. Þetta frv. hefur ekkert með það að gera að menn séu að reyna að koma til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum. Þvert á móti, herra forseti, er verið að nýta skattstofn af fullum þunga gagnvart fólki sem er í fjárhagserfiðleikum. Ekki er einungis um alvarleg kosningasvik af hálfu stjórnarflokkanna að ræða, einkum Framsfl. --- Sjálfstfl. lofaði nú ekki miklu fyrir kosningar eins og menn muna --- heldur er um að ræða stefnumörkun sem að mati okkar í minni hlutanum er einstaklega ógeðfelld. Það hefði verið nær að gera eins og við lögðum til í hv. efh.- og viðskn., að skoða þá prósentu sem þarna er lögð til grundvallar og vita hvort ekki mætti lækka hana og færa þetta þá til samræmis við þann kostnað sem er við framkvæmd þessara aðgerðar sem hér rætt um, þ.e. fjárnám og nauðungarsölu. Meiri hluti efh.- og viðskn, vildi ekki líta á slíka útfærslu. Og eins og ég nefndi áðan námu tekjur vegna þessa máls yfir 300 millj. kr. árinu 1997.

Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að minna á að við í stjórnarandstöðunni höfum á undanförnum missirum lagt fram fjölmargar tillögur til að draga úr skattlagningu hins opinbera vegna skulda einstaklinga og draga úr gjaldtöku gagnvart almenningi sem á við slíka tímabundna erfiðleika að etja. Frv. gengur þvert á þá stefnu. Við áteljum harðlega, herra forseti, að þegar upplýst er í efh.- og viðskn. hvað þetta eru miklir fjármunir, hvað þetta er mikill skattstofn fyrir ríkið, að þá ætti vitaskuld ekki að hækka þann skattstofn heldur að kanna leiðir með hvaða hætti sú gjaldtaka sem hér er til umræðu yrði lækkuð.

Nei, þvert á móti, herra forseti, er farin sú leið í frv. að hækka blint alla þá gjaldstofna sem fyrirfundust. Í III. kafla frv. er bætt við að leggja sérstaka gjaldtöku á birtingu reglugerðar lífeyrissjóða og staðfestingu skipulagsskráa og finnst okkur þetta vera dæmi um ansi mikla smámunasemi þótt vafalítið megi tína til einhver útgjöld vegna þeirra smámála.

Augljóst var, herra forseti, að frv. er lagt upp með því markmiði að ná inn 100 millj. kr. í viðbót í ríkissjóð. Endurreikningar fjmrn. gerðir að kröfu okkar í stjórnarandstöðunni leiddu til þess að hér verði ekki um að ræða 100 heldur 80 millj. kr. Þær bætast þá við hinar 660 millj. sem voru í tekjum ársins 1996. Og þess má geta að okkur gekk hálfilla í hv. efh.- og viðskn. að fá upplýsingar um hvar allir þessir tekjupóstar voru faldir í frv. til fjárlaga.

Herra forseti. Á árinu 1995 voru tæplega 700 einstaklingar úrskurðaðir gjaldþrota. Í frv. er lagt til að hækka gjöld vegna nauðungarsölu og aðfarargerðar. Samþykkt frv. eins og ríkisstjórnin og meiri hluti nefndarinnar leggur til mun því knýja á um enn fleiri gjaldþrot. Og þannig, herra forseti, birtist stefna þessarar ríkisstjórnar í reynd gagnvart almenningi í landinu. Þetta er stefna, herra forseti, sem við í stjórnarandstöðunni erum algjörlega andvíg og munum reyna eins og við getum að koma með lýðræðislegum hætti í veg fyrir að þetta frv. nái fram að ganga.