Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 21:35:45 (2721)

1997-12-18 21:35:45# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[21:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég stend að áliti minni hlutans og hv. þm. Ágúst Einarsson hefur mælt prýðilega fyrir því og skörulega þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði að halda umræðunni áfram þegar forseti er búinn að róa hæstv. fjmrh. niður og koma honum í sæti.

Það hefur verið skoðun okkar margra, og þar á meðal okkar þingmanna Alþb., að endurskoða þyrfti ofan í kjölinn tilhögun þessarar aukagjaldtöku allrar saman. Ég minni á að á síðasta kjörtímabili fluttum við ítrekað tillögur --- ég hygg að 1. flm. hafi verið hv. þm. Jóhann Ársælsson --- um að nauðsynlegt væri að taka til í þessu kerfi og sortéra upp annars vegar gjaldtöku svo sem vegna leyfisveitinga, útgáfu vottorða og annars slíks af ýmsu tagi, og raunverulegs kostnaðar sem því fylgdi að gefa út viðkomandi pappíra og það skyldu þá heita þjónustugjöld eða kostnaðargreiðslur af því tagi sem sannanlega væru á ferðinni. Hins vegar yrði að gera og ætti að gera skýran greinarmun á því ef um væri að ræða fjáröflun til ríkisins umfram það sem þyrfti til að dekka kostnaðinn af viðkomandi leyfisveitingum. En staðreyndin er auðvitað sú, og þetta frv. ber þess því miður dapurlegt vitni, að þetta er meira og minna subbuskapur sem hér er á ferðinni. Meira og minna grátt svæði þar sem saman blandast að einhverju leyti gjaldtaka vegna kostnaðar á viðkomandi sviði eða sem tengist viðkomandi málaflokki en hins vegar í raun skattstofnar fyrir ríkissjóð þar sem gjaldtakan er úr hófi fram og langt umfram það sem kostnaður af viðkomandi starfsemi fylgir. Þar má alveg sérstaklega tiltaka og gagnrýna dómsmálagjöldin. Það hefur verið leitt fram í umræðunni og verður tæpast hrakið að þar fara menn offari í gjaldtökunni og það kostar t.d. mun minna að reka þá starfsemi sem gjaldtakan er tengd en tekjunum nemur. Þetta ætti auðvitað að endurskoða og ætti að vera búið að taka til í þessu kerfi fyrir löngu, þótt það geti verið framför í sjálfu sér sem ég heyri að hæstv. fjmrh. er af og til að tala um úti í salnum, að hann hafi flutt eitthvað af þessu dóti úr reglugerð yfir í lög og það vissulega er til bóta, sérstaklega í því tilviki að menn eru nánast leynt og ljóst að afla tekna í ríkissjóð. Með öðrum orðum, þegar um hreina og klára skattheimtu er að ræða ber að sjálfsögðu að gera það með lögum eins og allir vita.

Í öðru lagi, herra forseti, ætla ég að fagna þeim sigri í brtt. sem vannst með því að meiri hlutinn leggur til að e-liður 9. gr. falli brott. Ég gerði þennan lið sérstaklega að umtalsefni við 1. umr. málsins og mælti mjög gegn því að menn færu út í þær breytingar sem þar var verið að boða, þ.e. að stórhækka leyfi fyrir áfengisveitingastaði, fella niður á móti áfengiseftirlitsgjaldið og leggja niður áfengiseftirlitið og afla síðan að einhverju leyti í gegnum þessi leyfisgjöld tekna til að standa straum af hluta af kostnaði lögreglunnar við að yfirtaka þetta eftirlit. Ég taldi og tel enn að það væri hin mesta ófæra að fara út í slíkt. Ég mundi spyrja mig hvar það mundi eiginlega enda ef menn færu að hækka gjöld hist og her og nota það sem rökstuðning að það þyrfti að ná nokkrum aurum upp í kostnað lögreglunnar. Það sama gæti þá væntanlega gerst á öðrum sviðum, að menn færu að hækka sektir og ýmislegt slíkt og allt væri það rökstutt með því að þetta væru einhverjir aurar upp í kostnað lögreglunnar. Hvers konar frumskógur yrði það, herra forseti, ef út á þá braut yrði haldið? Ég held að þetta sé alveg kolvitlaust. Það sé miklu betra að beita almennum tekjuöflunartækjum ríkisins og hafa þessa gjaldtöku bara á einhverjum efnislegum og raunhæfum grunni og miða við það sem mönnum þykir hóflegt í viðkomandi tilvikum, auk þess sem þær breytingar sem þarna voru boðaðar eru ekki fram komnar. Nú er mér að vísu ljóst að meiri hluti ríkisstjórnarinnar hefur ákveðið að falla frá þessu um sinn, e.t.v. vegna þess að frv. sem þessu áttu að tengjast hafa lent í hremmingum. Þau hafa hugsanlega orðið úti milli þingflokksherbergja stjórnarflokkanna. Það kann að vera að þau hafi lent í einhverjum hrakningum á heiðarvegum hérna á neðri hæðinni milli þingflokksherbergjanna og harma ég það ekki. Best þykir mér þó, herra forseti, að hinn arfavitlausi rökstuðningur fyrir e-lið 9. gr. á bls. 4 í grg. með frv. er þá væntanlega einnig fallinn úr gildi með því að meiri hlutinn hefur ákveðið að leggja til að þessi breyting falli niður, að e-liðurinn falli út úr frv. Þá hljótum við að reikna með að það orðalag sem viðkomandi efnisatriði tengist, herra forseti, í grg. með frv. sé þar með dautt og ómerkt. Það held ég sé afar mikilvægt og ég veit að forseti, sem er hinn mætasti hugsjónamaður, hlýtur að vera mér sammála í hjarta sínu um að gott sé að sjá þennan ótútlega texta hverfa á vit feðra sinna, og farið hefur fé betra.

Síðan veltir maður því aðeins fyrir sér, herra forseti, af hverju hæstv. ríkisstjórn, í miðju góðærinu, er svona óskaplega smámunasöm eins og hún er á köflum, að vera að sækja sér einhverja aura með hækkun á þessum leiðindasköttum, skítasköttum, sem menn hafa með leyfi, herra forseti, stundum leyft sér að kalla þá. Er þá ekki betra eða blómlegra í búi hæstv. fjmrh. en þetta, að hann er að snapa krónur með skattahækkunum af þessu tagi? Sjálfur foringi frjálshyggjustuttbuxnaliðsins á fyrri tíð, sem var ævinlega á móti öllum skattahækkunum. Og hvernig er með hæstv. forsrh. ríkisstjórnarinnar sem svaraði krossaprófi Heimdallar fyrir alþingiskosningarnar 1991 og var svo kjarkmikill að hann merkti x við nei í hverju einasta tilviki sem spurt var um skattahækkanir og x við öll já-in þegar spurt var hvort leggja ætti niður alla skatta sem fyrri ríkisstjórn hefði lagt á? (Gripið fram í: Það var draumurinn.) Var það draumurinn? Hann hefur nú breyst í martröð því hæstv. ríkisstjórn hefur haldið hverjum einasta skatti sem hinar vondu vinstri stjórnir lögðu á og hækkað þá flesta, eins og þennan. Það er rétt að upplýsa það í leiðinni, herra forseti, að ég hef gert ítrekaðar tilraunir til að fá þetta plagg Heimdallar, krossaprófið sem lagt var fyrir hæstv. forsrh. um vorið fyrir alþingiskosningarnar 1991, en það hefur ekki tekist. Þetta krossapróf er eitthvert hið best varðveitta leyndarmál þjóðfélagsins á síðari tímum. Sennilega af skiljanlegum ástæðum. Menn eru ekki mikið fyrir að flagga því núna sem þeir lofuðu þá, að lækka og fella niður alla skatta sem lagðir höfðu verið á, þegar menn standa frammi fyrir plöggum af þessu tagi. Niðurstaðan liggur hins vegar fyrir á borðum þingmanna núna þessar mínúturnar þegar gögnin frá fjárln. um lokaafgreiðslu fjárlagafrv. eru að koma. Hvað kemur í ljós? Það sem kemur í ljós er að hæstv. fjmrh. er með allt á hælunum. Afgangurinn er gufaður upp og fjárlögin komin niður í núll. Þeim er læst saman með krækjum rétt aðeins yfir blánúllinu. Og það vita allir hvað það þýðir. Það er því auðvitað skiljanlegt þegar betur er að gáð að hæstv. fjmrh. er á snöpum eftir ómerkilegum hækkunum á leiðindasköttum af þessu tagi.

Að lokum, herra forseti, og það tengist aftur umræðunni um dómsmálagjöldin sérstaklega og hina harkalegu og ósanngjörnu hækkun á þeim, þá var ég að velta því fyrir mér hver hefði átt að standa fyrir máli Framsfl. hér í kvöld. Það er óhægt um vik fyrir forseta þar sem hann situr í forsetastóli, og við söknum þess auðvitað að þessi merki flokkur skuli ekki eiga neinn fulltrúa við umræðurnar í kvöld og það skuli ekki vera neinn málsvari fyrir fólkið, ,,fólkið í fyrirrúmi`` vegna þess að fróðlegt hefði verið að fara aðeins yfir það hvernig hækkanir á dómsmálagjöldunum, á fjárnámsbeiðnum og nauðungarsölum og öðru slíku hjá fólki í erfiðleikum falla að kosningastefnuskrá Framsfl. um ,,fólk í fyrirrúmi``.

[21:45]

Þó að ég sé orðinn býsna vel að mér um þessa kosningastefnuskrá, og hafi hana gjarnan við höndina í skjalatösku minni, þá segi ég nú ekki að ég sé enn þá svo útlærður í henni að ég sé best til þess fallinn að útskýra hana, alla vega ekki þegar kemur að framkvæmdaatriðum af þessu tagi þó ég kunni textann. Þess vegna sakna ég þess mjög að hér skuli ekki vera einhver, þó ekki væri nema einn --- það er víst ekki kostur á að fá hálfan framsóknarmann --- en þó það væri þá einn framsóknarmaður sem væri hérna til staðar sem útskýrði fyrir okkur m.a. stefnu Framsfl. í þessu sambandi. Ég veit að forseti gæti vel átt það til að gera ræðumanni þann greiða að kanna það hvort húsið sé tómt af framsóknarmönnum. Það er að vísu gott loft hér og á því kunna að vera einhverjar slíkar skýringar. Mér finnst líka alveg ástæða til að Framsfl. sýni þessari umræðu þann sóma að eiga einhverja fulltrúa hér í kvöld.

Staðreyndin er auðvitað sú að þetta er mjög merkileg tekjuöflun hjá hæstv. ríkisstjórn. Ofan í fyrirheitin um að reyna heldur að létta af því fólki byrðarnar sem hefði lent í erfiðleikum af þessu tagi og sætti því að eigur þess væru komnar í nauðungarsölu eða gert í þeim fjárnám, þá er þetta orðinn sérstakur tekjustofn hjá hæstv. ríkisstjórn, þ.e. að hækka þessi gjöld sérstaklega. Ekki eins og það skili neinum ósköpum fyrir ríkissjóð, það munar kannski ekki um einn kepp í sláturtíðinni eins og sagt var, en það munar miklu fyrir þetta fólk, mjög miklu. Hver einasta króna er dýr fyrir þá sem eru að berjast fyrir lífi sínu í þeim skilningi að þeir eru við það að verða undir í baráttunni um að hafa stjórn á fjármálum sínum. Það gefur auga leið. Við teljum því þessa hækkun gagnrýniverða og styðjum það m.a. þeim rökum að þörf er á að endurskoða þessa gjaldtöku og breyta henni í grundvallaratriðum og jafnvel breyta henni þá í hina áttina hvað varðar upphæðir. Það eru í sjálfu sér engin sérstök rök að þessi gjöld hafi ekki hækkað um einhvern tiltekinn tíma. Menn eiga að taka efnislega afstöðu til þess í sjálfu sér eftir sem áður hversu há þeir vilja hafa þau. Þetta er alla vega hækkun og hún er jafnmikil hvort sem rökin fyrir henni eru þau að þetta hafi ekki hækkað síðan 1992 eða sautján hundruð og súrkál. Það sem fólkið finnur fyrir, sem er að borga þetta, eru auðvitað upphæðirnar og útgjöldin sem þarna eru á ferðinni. Og ég leyfi mér að fullyrða að þetta eru umtalsverðar upphæðir sem taka í.

Á hinn bóginn er þetta ekki sá póstur fyrir hina almennu tekjuöflun ríkissjóðs, sem er komin talsvert á annað hundrað tuga milljarða, eins og kunnugt er, að það sé eitthvað sem þyrfti að vefjast fyrir mönnum að jafna þann tekjuauka með öðrum hætti. Ég veit ekki hvað þetta væru mörg prómill af einhverjum af stóru tekjustofnunum. Þau eru ekki mörg. Ef farið væri í vaskinn eða tekjuskattinn eða einhverja slíka almenna tekjuöflunarleið þá efast ég um að það kæmi fram fyrr en í öðrum eða þriðja aukastaf.

Herra forseti. Þetta er heldur dapurlegur hluti af hinni metnaðarlitlu skatta- og fjármálastefnu hæstv. ríkisstjórnar sem er auðvitað meira og minna á flótta undan sínum glæstu loforðum og hástemmdu yfirlýsingum á hinu góða ástandi, góðærinu, ábyrgu fjármálastjórninni og öllu þessu. Það hlýtur að vera erfitt fyrir hæstv. fjmrh. að horfast nú í augu við að áform hans um hallalausan rekstur ríkissjóðs hafa ekki enn náð fram að ganga og hefur þó hæstv. ráðherra haft sex tækifæri til að reyna að reka ríkissjóð án halla. Ekkert þeirra hefur heppnast. Og nú á að læsa saman fjárlögunum einu sinni enn út á að ýmsu leyti hæpnar forsendur og með stóru gati, sem öll þjóðin veit um, í heilbrigðismálunum rétt hinum megin við núllið. Þannig að út af fyrir sig skilur maður í því ljósi smámunasemi hæstv. fjmrh., jafnvel hvað varðar gjaldtöku af þessu tagi þó leiðinleg sé. Hitt er auðvitað dapurlegt af því nú kann svo að vera að farið sé að halla að kvöldi á starfsævi hæstv. núv. fjmrh. í því embætti. Það kann að vera. Í sjálfu sér væri það ekki furða því að hæstv. ráðherra hefur setið manna lengst, eins og kunnugt er, óslitið í þessu embætti. En hann hefur líka afrekað það í leiðinni að verða ókrýndur eða krýndur hallakóngur rekstrar ríkissjóðs í Íslandssögunni. Það er alveg ljóst að samanlagður uppsafnaður halli á rekstri ríkissjóðs hefur aldrei í sögunni, í tíð eins fjármálaráðherra, farið í þær himinhæðir sem hann hefur nú þegar gert í tíð hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar. Því miður, herra forseti, virðist ævikvöldið í embætti fjmrh. ekki ætla að verða eins sólríkt og menn höfðu búist við, samanber það sem ég hef farið yfir, að hæstv. ráðherra er nauðbeygður til að gerast svona smámunasamur í tekjuöflun.