Aukatekjur ríkissjóðs

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 22:12:52 (2728)

1997-12-18 22:12:52# 122. lþ. 48.15 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[22:12]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef áhuga á að spyrja hv. þm. eftir skýringum á þessum gjöldum vegna þess að eins og fram hefur komið oftar en einu sinni við umræðuna voru þessi gjöld erfðagóss fyrrv. ríkisstjórnar, frá fjármálaráðherratíð þáv. hæstv. fjmrh., Ólafs Ragnars Grímssonar, sem sat í skjóli hv. þm. sem þá, að mig minnir var ráðherra ef minni mitt brestur ekki, og var þá einnig sérstakur ráðherra greiðsluerfiðleikamála og stórs kröfuhafa einmitt á hendur fólks í greiðsluerfiðleikum. Þá voru þessi gjöld hækkuð í þær hæðir sem þau eru nú. Þetta er þess vegna ákveðið erfðagóss frá þeim tíma að hv. þm. bar ábyrgð á að leggja slík gjöld á allt þetta skulduga fólk. Það væri fróðlegt fyrir þingheim að fá að vita rökin fyrir því að gjöldin voru hækkuð í þær hæðir á þeim tíma þegar hv. þm. bar ábyrgð á þessu.