Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 22:22:09 (2733)

1997-12-18 22:22:09# 122. lþ. 48.16 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[22:22]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1998. Til þess að menn viti við hvað er átt þá heitir það bandormur í daglegu máli.

Við höfum fjallað um þetta mál á venjubundinn hátt þó að tíminn hafi verið í styttra lagi til að fara ofan í saumana á því. Það tókst þó að senda fagnefndum einstaka þætti málsins til umsagnar og verður af og til vísað í þær á eftir í áliti minni hlutans, ýmist í umsagnir einstakra nefnda eða í umsögn minni hluta þegar það á við.

Herra forseti. Það vill svo til að ræðumanni hefur láðst að taka með sér sjálft þskj. með frv. ef velviljaðir menn mundu bjarga því, en ef minni mitt svíkur ekki, þá er 1. gr. um skerðingu á framlögum til endurbóta menningarbygginga. Eins og nokkur síðastliðin ár leggur hæstv. ríkisstjórn til að þessi gagnmerki tekjustofn sem var settur á til að fjármagna gjöfina sem þjóðin gaf sjálfri sér í gleðivímu á hátíðinni 1974, að byggja þjóðarbókhlöðu. Tók nokkur ár að velta því máli fyrir sér og lítið var um peninga. Þá var gripið til þess ráðs að leggja á sérstakan eignarskattsauka og hann var eyrnamerktur því verkefni að standa straum af byggingarkostnaði við þjóðarbókhlöðu. Sú bygging var býsna lengi að rísa eins og kunnugt er og nokkur hlé urðu á framkvæmdum við hana en þó var það fyrir tilstuðlan þessa tekjustofns að kraftur komst í það mál loksins á nýjan leik og byggingin var kláruð. En eins og fara vill stundum með fleiri tekjustofna eða skatta, þegar þeir eru einu sinni komnir á þá vilja þeir verða lífseigir og var ákveðið að láta nú ekki staðar numið við þessa innheimtu heldur breyta henni og taka inn heimild í lögin til að ráðstafa tekjum af þessum sérstaka eignarskatti í fleiri menningarverðmæti. Næsta stóra þrekvirki sem við tók á eftir Þjóðarbókhlöðunni var að gera byggingar á Bessastöðum fokheldar á nýjan leik og rúmlega það að vísu og er það nokkurn veginn í höfn, eins og kunnugt er, að endurreisa þann merka stað. Þá hafa menn horft til þess að næst kæmi röðin að öðrum slíkum stórbyggingum á menningarsviðinu. Þar hefur helst verið horft til Þjóðminjasafnsins hygg ég eða alla vega er það eitt af þeim brýnu verkefnum sem menn vita að bíður. Það er löngu kunn staðreynd að Þjóðminjasafnið hefur lekið og þar hefur þurft að hafa bala undir dögum oftar í vætutíð og má auðvitað ekki við svo búið standa að sjálfar þjóðminjarnar liggi undir skemmdum. En þá ber svo við að hæstv. ríkisstjórn hefur á síðustu árum og einkum nú í góðærinu gengið lengra í að skerða þann tekjustofn en áður hefur verið gert. Og nú er gert ráð fyrir því í miðju góðærinu að 200 millj. af þessum tekjustofni, sem er upp á rétt um 500 millj., renni beint í ríkissjóð samanborið við að á fjárlögum yfirstandandi árs eru þetta 150 millj. og var enn minna árið þar áður ef ég man rétt. Þetta er nokkuð athyglisvert og ber ákveðinni forgangsröðun vitni hjá hæstv. ríkisstjórn. Við skulum segja að þetta sé mælikvarði, ekkert verri en hver annar, á metnað hæstv. ríkisstjórnar í menningarmálum og þá vantar hæstv. menntmrh. hér til að standa fyrir máli sínu í þeim efnum en meðan því er ekki á móti mælt, þá leyfum við okkur að líta svo á, herra forseti, að þetta sé til marks um hnignandi metnað ríkisstjórnarinnar undir forustu hæstv. menntmrh. í menningarmálum, að í miðju góðærinu er þessi tekjustofn skorinn enn frekar niður en áður var. Reyndar er það umhugsunarefni, herra forseti, hvort landið sé orðið ríkisstjórnarlaust eða a.m.k. er þingsalurinn orðinn ríkisstjórnarlaus og það er náttúrlega mjög bagalegt að halda þannig fram umræðunni að enginn ...

(Forseti (RA): Það munu vera tveir hæstv. ráðherrar í húsinu.)

Það er ekkert annað. (Gripið fram í: Hvernig væri að fá þá í salinn?) Hvernig væri, já, að gera þeim viðvart um að umræður færu fram hér? Það er ekki búið að fresta fundi.

Herra forseti. Margir fagráðherrar eiga hér efni undir og þó að hæstv. fjmrh. hafi verið á staðnum, sem eðlilegt er og ágætt, þá er það að vísu svo að það er hæstv. forsrh. sem flytur málið, þar sem um er að ræða bandorm sem heyrir undir mörg ráðuneyti. Síðan er það þannig að efni málsins samkvæmt ættu að vera hér menntmrh., félmrh., heilbr.- og trmrh. og samgrh., svo það minnsta sé upp talið sem hér á í hlut. Hér eru reyndar mál sem tengjast fleirum eins og dómsmrh. hygg ég og landbrh. en það er kannski minni háttar atriði.

Í öðru lagi, herra forseti, var og er í 2. gr. frv. alveg kostulegur liður. Þar ætlaði hæstv. ríkisstjórn af rausnarskap sínum að verða sér úti um 12,5 millj. kr. sem átti samkvæmt ákvörðun Alþingis og sérstökum lögum að fara í að gera átak í eflingu lífrænna og vistvænna búskaparhátta í landinu. Þetta var tímabundið og afmarkað átak með tilteknum fjárveitingum í ein fjögur ár og samkvæmt þessari áætlun áttu 25 millj. kr. að fara í það verkefni á næsta ári og þykir víst ekki mikið miðað við það sem við sjáum gerast víða í kringum okkur þar sem miklir fjármunir eru settir í að reyna að þróa atvinnuhætti og ekki síst búskaparhætti í landbúnaði í átt til umhverfisvænna og vistvænna lífrænna búskaparhátta eða hvað það nú heitir allt saman. Þess vegna vakti þetta athygli, herra forseti, svo vægt sé til orða tekið, að ríkisstjórnin væri svoleiðis á nástráinu að hún gripi til þess ráðs að skerða þennan lið. Þetta vakti harða andstöðu. Þessu mótmæltu Bændasamtökin, þessu mótmælti öll landbn. eins og hún leggur sig og örugglega margir fleiri og stjórnarandstaðan tók þetta upp strax við 1. umr. málsins. Það hefur þó borið þann ávöxt að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, formaður efh.- og viðskn., mælti fyrir þeirri stórkostlegu breytingu á frv. að 2. gr. skyldi falla niður. Það eru auðvitað tímamót í sögunni að ríkisstjórnin skuli hafa fyllst svona taumlausri rausn og gæðum (Gripið fram í: Ekki ríkisstjórnin.) Væntanlega er það í stuðningi við hana sem þetta er borið hér fram. Ekki á ég von á því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson flytji þetta að hæstv. forsrh. forspurðum.

[22:30]

Eftir stendur þá eðlilega ekkert annað en skömmin af því að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar skyldi láta sér detta í hug að leggja þetta til. Það er með þvílíkum endemum. Maður veltir því fyrir sér hvernig þetta fari fram þegar þetta leitarljós er sett á. Hvar eru einhverjir aurar sem hægt er að ná í? Svo stoppa menn allt í einu. Heyrðu, átaksverkefnið um lífræna ræktun í landbúnaði, það væri kannski hægt að kreista af því nokkrar milljónir? Og þá er það bara gert. Menn sem stóðu að því fyrir fáeinum árum og áttu aðild að einróma samþykkt Alþingis um að gera tiltekið tímabundið afmarkað og í raun hóflegt verkefni, ákaflega lítið í sniðum í raun og veru, og hreinir smáaurar sem þarna eru á ferð, láta sér ekki bregða við að koma með skerðingarfrv. af þessu tagi í miðju góðærinu og ætla að klípa helminginn af þessu í ríkissjóð. Það er mikið örlæti og mikil rausn.

Herra forseti. Þá kem ég næst að 3. og 4. gr. frv. þar sem vikið er að framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það er nú spurning hvar viðkomandi hæstv. ráðherra er á vegi staddur. Ég fór aðeins að athuga það í dag hvernig högum sjóðsins væri háttað og hvort það væri í beinu samræmi við það sem lesa mætti út úr umsóknum til sjóðsins og þörfinni á fjárveitingum þaðan, að leggja til meiri skerðingu á mörkuðum tekjum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra en nokkru sinni fyrr í sögunni. Hefur fötluðum fækkað á Íslandi? Hefur dregið úr umsóknum til sjóðsins um framkvæmdir? Svarið við hvoru tveggja er nei. Það er mat margra að nú sé verra ástand á nýjan leik hvað varðar nauðsynlegar úrbætur í málefnum fatlaðra en verið hefur um skeið. Það merkja menn m.a. af því að einungis er hægt að verða við líklega u.þ.b. þriðju hverri umsókn, eða þriðjungi af þeim beiðnum í fjárhæðum talið, sem lætur nærri að vera það sama sem til sjóðsins koma. Afleiðingin er m.a. sú að miklir biðlistar eru eftir því að komast á sambýli og komast að hjá fleiri slíkum stofnunum, sem Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur staðið fyrir að byggja og lagt til fjármagnið til að byggja. Sérstaklega er ástandið slæmt í stærri sveitarfélögum þar sem þörfin fyrir úrlausn í þessum efnum hefur verið að vaxa að einhverju leyti vegna búferlaflutninga og vegna þess að fleiri leita úrlausna á sínum málum innan stærstu sveitarfélaganna. Í Reykjavík, Reykjanesi og víðar eru langir biðlistar, mikil þörf fyrir framkvæmdafé og afar sérkennilegt að menn skuli þá, í miðju góðærinu, hjóla í þennan framkvæmdasjóð og leika hann verr en nokkru sinni fyrr.

Það mun vera svo, er það ekki, að þessi sjóður er á verksviði hæstv. félmrh.? Og það mun vera svo að hæstv. félmrh. sé ráðherra málefna sveitarfélaganna? Og það mun vera svo að þetta sé málaflokkur sem ætlunin er að færa yfir til sveitarfélaganna, er það ekki? Það skyldi nú ekki vera. Þá vil ég leyfa mér að spyrja, herra forseti, á hvað vísar það að árið áður eða kannski á síðustu árum, alla vega áður en þessi málaflokkur færist til sveitarfélaganna, hjólar ríkisstjórnin í Framkvæmdasjóð fatlaðra og skerðir tekjur hans meira en nokkru sinni fyrr? Og hvað mun þá gerast? Hvort tveggja mun gerast að meiri uppsöfnuð þörf verður fyrir framkvæmdir á þessu sviði þegar málaflokknum verður velt yfir á sveitarfélögin. Það gerist líka annað. Viðmiðunin um útgjöldin sem ríkið hefur borið af þeim málaflokki árin á undan verður lækkuð. Og menn segja: Ja, það voru ekki nema 185 millj. kr. sem fóru í þetta af ríkistekjum og sveitarfélögin þurfa þá ekki að reikna með nema svipuðu þegar þau taka við pinklinum. Þekkjum við ekki þetta módel, herra forseti? Jú, ætli það ekki. Þetta er nákvæmlega módelið með grunnskólann upp á nýjan leik. Hvernig stóðu menn að því að undirbúa yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna? Með því að skera niður framlögin. Með því að fresta öllum umbótum þannig að þegar verkefninu var svo velt yfir á sveitarfélögin beið gífurleg uppsöfnuð þörf í framkvæmdum við að einsetja grunnskólann og ekki síst í væntingum kennara um launahækkanir. Og hvað hefur komið á daginn? Það hefur allt gengið eftir sem varað var við í sambandi við það að sveitarfélögin keyptu í raun köttinn í sekknum, kannski ekki gráa köttinn, en alla vega þennan venjulega kött í sekknum. Ætla menn að gera það á nýjan leik með þessu móti? Ég spái nei. Ég spái því að sveitarfélögin muni verða betur á verði. Ég vona a.m.k. að þau verði það.

Mér finnst þetta ekki vita á gott og ég vil leyfa mér að spyrja, herra forseti: Eru einhverjar líkur á því að hæstv. félmrh. geti komið til fundar áður en við ljúkum þessari umræðu og helst áður en ég lýk máli mínu, þannig að ég geti þá komið að þessu máli aftur áður en svo verður? Mér finnst það satt best að segja alveg ástæðulaust, herra forseti, að ég sé að standa hér og halda ræður þegar enginn einasti hæstv. ráðherra nennir að vera í salnum til að fylgjast með umræðum. (Fjmrh.: Það er hlustað á hv. ræðumann. Hann þarf ekki að hafa áhyggjur af því.) Bara alls engar áhyggjur? (Fjmrh.: Nei.) Það er aldeilis öldin önnur. Er það kannski starfandi hæstv. félmrh. sem er svona kokhraustur hérna í salnum? (Fjmrh.: Nei.) Nei. En hann er alla vega með fallegt bindi, þessi ráðherra, það má hann eiga.

Herra forseti. Ég fer vinsamlegast fram á að þessi umræða geti farið eðlilega fram. Hér er um að ræða bandorm sem er fluttur af hæstv. forsrh. sem reyndar hefur ekki sést hér mikið, og síðan á hver fagráðherrann af öðrum mál sem eru þannig faglegs eðlis að eðlilegt er að óska eftir nærveru þeirra, fullkomlega eðlilegt. Ég virði að sjálfsögðu viðveru hæstv. fjmrh. sem mér er ljóst að er á vissan hátt yfirráðherra í öllum fagráðuneytunum, eins og margoft hefur komið fram, enda hegðar hann sér sem slíkur. Hér er greinilega ástæðulaust að vera að óska eftir hæstv. félmrh. meðan hæstv. yfirfélmrh., Friðrik Sophusson, er viðstaddur. En ég hefði samt gjarnan viljað heyra svör hæstv. félmrh. við þeim þáttum sem lúta að þeirri svakalegu útreið sem Framkvæmdasjóður fatlaðra og málefni fatlaðra eru að fá í ljósi væntanlegrar yfirtöku sveitarfélaganna á málaflokknum. Því það teiknar allt til þess, herra forseti, að það eigi að leika sama leikinn upp á nýtt eins og gert var með grunnskólann. Skera málaflokkinn niður, spara ríkissjóði útgjöld eða öllu heldur láta ríkissjóð njóta í formi aukinnar skerðingar á mörkuðum tekjum málaflokksins árin áður en hann færist yfir til sveitarfélaganna, láta þar með þörfina hlaðast upp óleysta, biðlistana eftir sambýlunum lengjast og svo verður þessu hent í sveitarfélögin og þá verður til viðbótar sagt, af því það fór svona lítið til málaflokksins árin á undan, þetta er ekki dýrara en þetta. En ég held að hæstv. ríkisstjórn muni ekki geta leikið þennan leik, alla vega ekki oft. Menn verða ekki það bláeygir að þeir láti bjóða sér þetta oft.

Burt séð frá þessu, sem er að vísu hið alvarlegasta mál, þá er þörfin í málaflokknum slík að ekki er hægt að fallast á að hún verði afgreidd á þennan hátt og það mitt í sjálfu góðærinu. Það góðæri er alla vega ekki þarna, það er ekki hjá Framkvæmdasjóði fatlaðra eða fötluðum yfirleitt og má svo sem einu gilda hvort þá er rætt um framkvæmdaflokkinn, það sem til rekstrar fer á þessu sviði eða þau kjör sem þessi hópur býr við. Ég hygg það hallist ekki á hvað aumast er í þeim efnum.

Herra forseti. Þá vík ég næst að málefnum Atvinnuleysistryggingasjóðs, og þar er sömuleiðis ástæða til að lýsa eftir hæstv. ráðherra. Við höfum áður komið inn á það sem frv. felur í sér að skerða tekjur sjóðsins eða henda í hann verkefnum upp á 100 millj. kr. sem er auðvitað afar vond aðferðafræði, að blanda þessum sjóði inn í rekstrarþætti af þessu tagi. Þetta er sjóður sem er fjármagnaður af atvinnulífinu til að byggja upp inneignir eða að eiga fyrir greiðslum þegar atvinnuleysi herjar á í landinu, sem hefur því miður gert um nokkurt árabil í talsverðum mæli. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að í þessum efnum eins og mörgum fleirum eigi menn að reyna að sýna búhyggindi og leggja fyrir þegar betur árar. Á tímum minnkandi atvinnuleysis eða óverulegs atvinnuleysis eigi að byggja sjóðinn upp, a.m.k. til að hjálpa til við að mæta áfallinu og jafna sveifluna þegar atvinnuleysi vex á nýjan leik. Við verðum því miður að reikna með að það geti gerst hér hjá okkur aftur eins og hefur gerst að tímabundin erfiðleikaár komi í öllu falli, jafnvel viðvarandi atvinnuleysistímabil, sem við vonum að komi ekki, þá væri gott að eiga eitthvað í þeim sjóði. Þar af leiðandi er ég ekkert sérstaklega hrifinn af þeirri breytingu frv. í 12. gr. að lækka endilega strax og eitthvað dregur úr atvinnuleysinu alveg til jafns við spár um inngreiðslur í sjóðinn, vegna þess ég sæi ekkert eftir því þótt hann braggaðist eitthvað á nýjan leik. Það kom sér t.d. ágætlega að hann var ekki alveg á kúpunni þegar atvinnuleysið rauk af stað á árunum eftir 1991. (Fjmrh.: Hann var nú alveg á kúpunni þá.) Hann var nú ekki alveg á kúpunni, herra forseti, ef ég man rétt, hæstv. ráðherra. Annars getum við farið yfir það.

En hitt er, herra forseti, það alvarlega, að þeirrar tilhneigingar hefur gætt hjá hæstv. ríkisstjórn, og hún heldur áfram hér, að hengja bagga á þennan sjóð, verkefni sem áður voru greidd úr ríkissjóði og engin sérstök rök mæla svo sem með að Atvinnuleysistryggingasjóður borgi, þó að ýmislegt megi tengja við hann með góðum vilja. Það má svo sem segja að öll vandamál sem geta hugsanlega tengst atvinnuleysi séu í sjálfu sér að einhverju leyti um leið vandamál Atvinnuleysistryggingasjóðs. En hve langt ætlar hæstv. fjmrh. að ganga í þeim efnum? Ég hygg að miklu hyggilegra sé að hafa hreint borð. Hafa sjóðinn hreinan Atvinnuleysistryggingasjóð og láta ríkissjóð bera það sem hann hefur áður borið í einhverjum skyldum verkefnum.

En það er, herra forseti, einnig ástæða til að óska eftir nærveru hæstv. félmrh. út af ýmsum öðrum þáttum sem stöðu atvinnuleysisbótanna tengjast. Hér var á dagskrá fyrir skömmu, ég hygg í gær, fyrirspurn þar sem spurst var fyrir um frammistöðu hæstv. ráðherra í þessum málum og svörin sem þar komu, ef svör skyldi kalla, og öll frammistaða hæstv. ráðherra er náttúrlega þannig að tæpast er hægt að sleppa hæstv. ráðherra við það að standa betur fyrir máli sínu en þar var gert. Það kom sem sagt á daginn að hæstv. ráðherra smyglar í gegn lögum, breytingum, án þess að láta nokkurn mann vita af því að í þeim felist eða að í framhaldi af þeim komi aðgerðir sem verði til þess að skerða verulega atvinnuleysisbætur hjá stórum hópi fólks sem ekki nær, samkvæmt nýrri skilgreiningu hæstv. ráðherra, að fullnægja skilyrðum um að hafa verið í fullu starfi. Og þegar þessi ósköp uppgötvast þá á að vísu að heita svo að leiðrétta eigi mistökin en þá er það gert svo óhönduglega að ekkert kemur út úr því og við það situr. Þetta er svo yfirgengileg frammistaða, herra forseti, hjá hæstv. félmrh. í málefnum atvinnulausra að engu tali tekur. Og kórónan á hneykslinu er náttúrlega sú sem tengist málefni þessa frv. beint, að verið er að leggja til breytingar þar sem að nokkru leyti gengur til baka sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að afnema tengingu lífeyrisbóta og atvinnuleysisbóta við laun sem var nú lausnarorðið hjá hæstv. ríkisstjórn í desember 1995. Þá var það voðalega fínt og móðins og flott að afnema svona sjálfvirkni. Það hét það. Svona skaðleg sjálfvirkni. Orðið sjálfvirkni var orðið vandamál í huga ríkisstjórnarinnar. Það varð að hverfa út, þurrkast út af prenti alls staðar. Það mátti ekki lengur hafa þær reglur að lífeyrisþegar, ellilífeyrisþegar, atvinnulausir og þeir sem bóta njóta eða stuðnings úr velferðarkerfinu, nytu sambærilegra kjarabóta með tryggum hætti og aðrir í þjóðfélaginu. Það hét sjálfvirkni og var stórhættulegt, skammarorð. Í framhaldinu reis auðvitað upp mikil óánægjubylgja og ég kem betur að því síðar, herra forseti, þegar ég kem að 9.--11. gr. frv. en þar er þó verið að bakka með þau áform og setja þau aftur a.m.k. á tiltekinn hátt í samband við launaþróunina í landinu en atvinnuleysisbæturnar ekki.

[22:45]

Það eru engin sambærileg ákvæði í 5. eða 6. gr. um atvinnuleysistryggingar sem ættu að vera í bandormsfrv. ef hæstv. félmrh. hefði haft sambærilegan árangur í málinu og hæstv. heilbr.- og trmrh. Þá er ekki annað eftir en það að annaðhvort er hæstv. félmrh. svona linur, svona slappur eða mönnum svona illa við hann í ríkisstjórninni að farið er verr með hann en hæstv. heilbr.- og trmrh. eða þá að hæstv. félmrh. er á móti því að hafa þetta sama fyrirkomulag, þannig að umbjóðendur hans, í þessu tilviki atvinnulausir, eigi að sitja eftir og fá ekki sambærilega tengingu, hvað sem menn svo vilja segja um útfærsluna á því, eins og þó er verið að setja í samband á nýjan leik fyrir lífeyrisþegana. Hvaða rök standa til þess að atvinnulausir eigi að vera verr tryggðir í þessu efni en lífeyrisþegar? Ég hef ekki heyrt þau nema þau séu þessi, að félmrh. sjálfum eða ríkisstjórninni sé verr við atvinnulausa en aldraða og telji að síður sé ástæða til að rétta þeirra hlut á nýjan leik. Ef til vill er það vegna þess að atvinnulausir hafa ekki átt jafnöfluga málsvara og ekki náð að mynda jafnkraftmikinn þrýstihóp úti í þjóðfélaginu og öldruðum er þó að takast, og það er vel, því að að einhverju leyti eru þeir að uppskera samtakamátt sinn nú, í gegnum það að hæstv. ríkisstjórn er hrakin á flótta hvað varðar málefni þeirra, en atvinnulausir liggja óbættir hjá garði. Þetta er þá sem sagt hópurinn sem hæstv. ríkisstjórn telur sér sæma að fara svona með. Það er auðvitað reginhneyksli, að mínu mati, herra forseti, að þeir skuli ekki fá sambærilega meðferð og lífeyrisþegar í almannatryggingakerfinu. Þeir hópar hafa jafnan fylgst að. Orðalagið um tengingu þeirra bóta við launaþróun hefur verið sambærilegt, gott ef ekki var að einhverju leyti tekið mið af sömu viðmiðunarhópum. Þar af leiðandi er algjörlega brotið í blað þegar klofið er upp á milli þessara hópa og atvinnulausir skildir eftir úti í kuldanum. Það er stórmannlegt eða hitt þó heldur, herra forseti.

Þá kem ég næst að 8.--11. gr. frv. þar sem fjallað er um breytingar á lögum um almannatryggingar, en þar kemur að því, herra forseti, eins og ég áður kom inn á og drap á, að hæstv. ríkisstjórn er þó að bakka að verulegu leyti með þá ákvörðun sem hún tók undir í lok ársins 1995 og gekk í gildi á árinu 1996, að afnema tengingu bóta almannatrygginga við vikukaup í almennri verkamannavinnu. Ríkisstjórnin er þarna á flótta undan þeirri miklu og almennu óánægju sem breiðst hefur út í þjóðfélaginu meðal elli- og örorkulífeyrisþega með þessa ráðstöfun, sem stjórnarandstaðan hefur frá upphafi gagnrýnt mjög harðlega og barist gegn. Það verður að vísu að segjast, herra forseti, að því miður er sú leið valin í frv. að ganga frá málinu með nokkuð óljósu orðalagi eða ekki eins skýru og við hefðum kosið en í 9. gr. segir: ,,Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 59. gr. og fjárhæðir skv. 17. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.``

Í umræðum um þetta mál skýrðist að vísu nokkuð í svörum forsrh. hvað fyrir mönnum vakir í þessum efnum og var það vissulega til bóta. Við erum eftir sem áður þeirrar skoðunar í minni hlutanum að æskilegast hefði verið að ganga frá þeirri tengingu við launaþróun eða launavísitöluna, sem væri eðlilegur mælikvarði, með skýrum hætti og tökum þar undir álit minni hluta heilbr.- og trn., sbr. fskj. IV með þessu nál. Það er einnig rétt, herra forseti, að vekja athygli á því að með breytingunum á 59. gr. og fjárhæðum 17. gr. er verið að afnema þá tryggingu sem í þeim greinum hefur falist og var látin í friði 1995. Á hinn bóginn skulu þessar upphæðir tengjast launaþróun á sama hátt og almennir bótaliðir, sbr. 9. gr. frv. Yfirlýsingar hæstv. forsrh. í umræðum við 1. umr. er þó tæpast hægt að túlka öðruvísi en þannig að í reynd skuli þessar upphæðir fylgja launaþróun, fylgja beinlínis launaþróun og launavísitölu. Í trausti þess að við þetta verði staðið og í ljósi þess að fyrirhugaðar breytingar eru þó til bóta frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar 1995 --- það er verið að bakka með hana að verulegu leyti, þá ákvörðun að taka bótagreiðslur alveg úr sambandi --- þá leggjumst við í minni hlutanum ekki gegn þeim. Við minnum hins vegar á þá skoðun okkar eftir sem áður að réttast væri að tryggja beint og ótvírætt að lífeyrisþegar njóti að sínu leyti launahækkana og bættra kjara almennt í þjóðfélaginu. Það hefur verið dálítið rætt um það, herra forseti, hvar sá hópur er á vegi staddur, borið saman við launamenn eða aðra hópa í þjóðfélaginu. Því miður er kannski ekki til að dreifa nýjum eða vönduðum samanburðargögnum í þeim efnum. Ég fór þó í skýrslu sem dreift var á síðasta þingi. Það er skýrsla hæstv. forsrh. um þróun launa og lífskjara á Íslandi á árunum 1991--1996, samkvæmt beiðni sem við þingmenn Alþýðubandalagsins og óháðra lögðum fram. Í þeirri skýrslu eru nýlegar og reyndar nýjustu upplýsingar sem ég hef undir höndum um nákvæman samanburð á stöðu þessa hóps við þróun launavísitölu eða neysluverðsvísitölu. Þar er reyndar bæði að finna upplýsingar um stöðu atvinnulausra og kaupmátt þeirra og einnig útkomuna fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Ljóst er að á þessu árabili og miðað við stöðuna í lok árs 1996 hafa þessir hópar dregist aftur úr. Sérstaklega á það við elli- og örorkulífeyrisþegana. Ef tekinn er t.d. ellilífeyrir með tekjutryggingu og heimilisuppbótum og hafi hann verið 100 á árinu 1990, þá er hann 97,1 í árslok 1996. Inn í þá mynd vantar algerlega þær breytingar sem gerðar voru á árunum á undan, öldruðum í óhag, hvað varðar til að mynda lyfjakostnað, komugjöld á heilbrigðisstofnanir og fleira af því taginu. Það er því enginn vafi á því að kjör hópsins hafa rýrnað meira en fram kemur í þessum tölum og það er í reynd óumdeilt. Það eru því síður en svo rök að sækja í þróun kaupmáttar bóta þessa hóps undanfarin ár fyrir því að láta hlut þeirra vera lakari en annarra nú þegar heldur betur árar í þjóðarbúskapnum. Það er sannarlega ekki svo, herra forseti.

Herra forseti. Ég vík því næst að 13. gr. frv. þar sem fjallað er um breytingar á lögum um fjáröflun til vegagerðar. Í frv. er lagt til eins og það stendur nú, skv. 13. gr. að litlar 1.064 millj. kr. af innheimtumörkuðum tekjum til vegamála skuli renna í ríkissjóð á árinu 1998. Með þessu er gengið lengra í skerðingu á mörkuðu vegafé en nokkru sinni fyrr í sögunni. Hæstv. samgrh. Halldór Blöndal, sem hét það a.m.k. síðast þegar ég vissi til, slær ótvírætt Íslandsmet í því að skerða vegafé og það einmitt og þrátt fyrir að tekjuaukinn sé mikill vegna aukinna tekna af umferð. Þessi skerðing upp á 1.064 millj. borin saman við 804 í fyrra, og þótti mönnum þó nóg um, er rúmlega 250 millj. kr. meiri, og borið saman við tæpar 650 millj., einhvers staðar þar á bilinu, sem áætlaðar voru samkvæmt fyrirliggjandi vegáætlun á árinu 1998, er auðvitað ótrúleg útreið á þessum málaflokki. Og þeim mun ótrúlegri þar sem ljóst er að nú stendur til að leggja fram vegáætlun, bæði skammtímavegáætlun og langtímavegáætlun. Þessi útkoma er þeim mun ótrúlegri og óskiljanlegri sem það er ljóst að aukin umferð, aukinn bílainnflutningur, aukin bensínsala skilar ríkissjóði gífurlega auknum tekjum þannig að ríkissjóður ætti að geta vel við unað, þó að Vegasjóður fengi að halda sínu. Græðgin í hæstv. fjmrh. er náttúrlega alveg yfirgengileg að geta ekki séð tekjuauka Vegasjóðs í friði og sætt sig við að fá þann búhnykk sem auknir umferðarskattar sem sjálfkrafa renna til ríkisins í formi allra aðflutningsgjalda, í formi stórs hluta af bensín- og þungasköttum, og fleiri sköttum af umferðinni, bifreiðagjöldunum, fastagjöldunum og öllu því. Það er svo komið að skattar af umferð í landinu eru komnir hátt á þriðja tug milljarða, í 24--25 milljarða kr. Af því hefur Vegasjóður ekki nema mikinn minni hluta, milli 7 og 8 milljarða, eða hvað það nú er. Það er ekki sami Vegasjóður og áður var vegna þess að yfir á hann er búið að velta nýjum verkefnum í stórum stíl t.d. öllum ferjurekstri í landinu sem áður var greiddur beint úr ríkissjóði. Þegar öll kurl koma til grafar er skerðingin á hinu almenna vegafé alveg fantaleg. Það er von að illa gangi og von að menn séu að verða vitlausir út um allt land og einnig í Reykjavík vegna þess að það gengur ekki neitt að koma upp nauðsynlegum samgöngumannvirkjum. Hvers vegna fær ríkissjóður auknar tekjur? Er það ekki vegna þess að bílunum fjölgar og menn keyra meira? Þess vegna selst meira bensín. Og hvað ætti það að vísa, herra forseti, hæstv. fjmrh. á? Það ætti að vísa öllum hugsandi mönnum á að leggja þarf meira í samgöngurnar og vegina vegna hinnar auknu umferðar. Það segir sig sjálft. Þetta getur því ekki endað nema með ósköpum ef ríkissjóður hirðir til sín allan tekjuaukann og rúmlega það og skilur Vegasjóð eftir á köldum klaka eða möl, sem væri kannski nær að orða það þessa dagana miðað við hlýindin. Malarvegirnir styttast því lítið við þessar aðstæður.

Sé útreiðin sem hæstv. félmrh. fær í því formi að hann er settur skör lægra og fær verri úrlausn sinna mála eða öllu heldur pínir hæstv. fjmrh. hann meira en hæstv. heilbr.- og trmrh. að vissu leyti, er útreiðin sem hæstv. samgrh. fær náttúrlega langverst. Það eru þvílík ósköp sem hæstv. samgrh. fær á sig í þessum efnum að ég held að leitun sé á öðru eins, alla vega við sambærilegar aðstæður, að ráðherra, sem hefur yfir framkvæmdamálaflokki af þessu tagi að segja þegar líður á síðari hluta kjörtímabils og kosningar nálgast í bullandi góðæri og með mikinn tekjuauka, skuli þurfa að sætta sig við að vera skorinn gjörsamlega niður við trog. Meira ár frá ári og maður spyr sig hvar í ósköpunum þetta endi. Ef sambúð og samskipti hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. verða áfram með þessum hætti er auðvelt að framreikna hvenær tekjur Vegasjóðs verða komnar niður í núll. Það er bara í upphafi næstu aldar sennilega, sem hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson yrði þá búinn að hirða allar tekjurnar ef hann fær að hrammsa svona meira og meira til sín ár frá ári. Þetta getur auðvitað ekki gengið svona. Það er alveg ljóst. Og eins og það séu nú ekki búin að vera nóg skakkaföllin á árinu hjá hæstv. samgrh. í sambandi við Póst og síma og fleiri mál þótt þessi ósköp þurfi ekki að bætast við.

[23:00]

Herra forseti. Einhverjar tilraunir voru einnig gerðar til að fá hæstv. samgrh. hingað við 1. umr. málsins. Þær báru lítinn árangur ef ég man rétt. Sama á við um hæstv. félmrh. og hæstv. menntmrh., en ég hygg að hæstv. heilbr.- og trmrh. hafi reyndar verið hér og jafnvel tekið þátt í umræðum við 1. umr. málsins, og ber að virða það. Ég held þessu til haga og leyfi mér að fara fram á að af hálfu forystu þingsins verði séð til þess að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en þeir hæstv. ráðherrar sem hér voru taldir upp hafa látið sjá sig við umræðuna og staðið fyrir máli sínu. Til að greiða fyrir þingstörfunum ætla ég ekki að krefjast þess að þeir verði dregnir hingað núna úr því svona djúpt er á þeim eins og raun ber vitni, að ítrekaðar óskir um að fá einhverja af þeim hingað bera ekki árangur. Það mætti hugsanlega grípa til þess ráðs að auglýsa í útvarpinu eftir ríkisstjórninni, að hennar sé óskað í Alþingishúsinu. Til dæmis mætti koma því að núna í ellefufréttunum. Fyrir mitt leyti mundi ég sætta mig við að séð yrði til þess að þeir hæstv. fagráðherrar sem eiga stærstu málin undir í frv. yrðu viðstaddir umræðuna áður en henni lýkur í kvöld eða á morgun.

Herra forseti. Svipaða sögu er að segja af flugmálunum sem 14. gr. frv. fjallar um þótt skerðingin þar sé e.t.v. ekki jafntilfinnanleg alla vega ekki fyrir jafnmarga og skerðingin í vegamálunum. Það er þó þannig að martröðin er öll að ganga eftir, því miður, sem spáð var þegar fyrst var fyrir þremur árum eða svo byrjað að skerða flugmálaáætlunina. Þá kom fram tillaga um að skerða framkvæmdafé flugvalla um 75 millj. eða svo vegna rekstrar Flugmálastjórnar. Eftir hörð átök í þinginu var það lamið niður í 45 millj., ef ég man rétt, og það var eyrnamerkt því að það færi til snjómoksturs og einhverra slíkra afmarkaðra, skilgreindra verkefna á vegum Flugmálastjórnar. Því er ég að rifja þetta upp, herra forseti, að nú er hins vegar svo komið að verja á 190 millj., ef ég man rétt, til rekstrar Flugmálastjórnar og 60 millj. til viðbótar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þá er nú fokinn drjúgur hluti af framkvæmdafé flugmálaáætlunarinnar og þó eru þar fram undan mörg og stór verkefni og nánast grettistök eins og þau að fara í framkvæmdirnar á Reykjavíkurflugvelli. Þær hljóta að sjálfsögðu að tefjast og blæða og líða fyrir þetta sem þessu nemur. Þá hrottalegu skerðingu sem hefur vaxið úr nánast engu og upp í hátt á þriðja hundrað millj. á um þremur árum er náttúrlega óhjákvæmilegt að gagnrýna. Þetta er skólabókardæmi um það hvernig lagt er af stað með lítið og menn fengnir til að kyngja minni háttar skerðingu í fyrstu umferð, á fyrsta árinu. Síðan vex hún ár frá ári og áður en við er litið er obbi teknanna horfinn úr málaflokknum og orðinn að hreinum skattstofni fyrir ríkið. Auðvitað þarf ríkissjóður sitt og allt það. Það vitum við. Málið snýst ekki endilega um það hvort ágreiningur sé um þörfina fyrir tekjuöflunina heldur hitt hvort á ferðinni sé málaflokkur annars vegar sem megi missa þessar tekjur og hins vegar hvort í hlut eigi skynsamlegur skattstofn. Hvað er flugvallargjaldið, herra forseti? Það er ekkert annað en álögur á flugfarþegana, þar á meðal flugfarþega í innanlandsflugi, bæði farþegaskatturinn og skatturinn á flugrekendur. Þá hefur nákvæmlega það gerst á þremur árum sem maður óttaðist og spáði að hinn harkalegi ósanngjarni skattstofn er orðinn að fjáröflunartæki í höndum ríkisins. Skattur ofan á flugfargjöld innan lands sem hafa verið allt of há og þótt þau hafi tímabundið lækkað vegna samkeppni sem reyndar eru að því er virðist teikn á lofti um að engar forsendur séu fyrir og þau muni hækka á nýjan leik, þá breytir það ekki því að t.d. á þeim flugleiðum þar sem ekki er um neina samkeppni að ræða eru þessi fargjöld mjög há. Þau eru mjög íþyngjandi fyrir þá sem ekki eiga annan kost en nota flugið t.d. þegar þeir þurfa að leita sér sérhæfðrar læknisþjónustu milli landshluta. Álögur af þessu tagi sem eru orðnar að skattstofni fyrir ríkið eru ekki sanngjarnar, herra forseti.

Að lokum í sambandi við samgöngumálin vil ég vitna í álit samgn., þ.e. álit samgn. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1998. Það er athyglisvert að eins og í landbn. þar sem mótmælt var skerðingunni á framlögum til lífrænna búskaparhátta þá mótmælir samgn. eins og hún leggur sig í heild sinni, stjórn og stjórnarandstæðingar, þessari miklu skerðingu til samgöngumála. Bent er á það í álitinu að skerðingin var 18--19% í fyrra og nú á að bæta mörgum prósentum við, a.m.k. eins og mál standa enn þá samkvæmt frv. Mér er að vísu kunnugt um að einhverjar æfingar standi yfir í bakherbergjum að reyna að skrúfa upp tekjuáætlun Vegasjóðs til að hægt sé a.m.k. á prenti að sýna minni niðurskurð. Einnig mun víst hæstv. fjmrh. ætla sér að hirða obbann af þeim viðbótartekjuauka til sín eins og við mátti búast. Ef hæstv. samgrh. sér einhvers staðar glytta í krónu er hæstv. fjmrh. óðara kominn með pokann og tekur 3/4 af henni. Þannig er þetta orðið. Þessi sambúð er auðvitað með miklum endemum, herra forseti.

Ég hef þá lokið við að fara í gegnum megingreinar frv. Ég hef hlaupið yfir nokkrar tímans vegna, þær sem ég sé ekki ástæðu til að hafa um mörg orð, svo sem 12. gr., 15. gr. og fleiri. Það sem ég vil að lokum segja, herra forseti, um þetta mál er að það er í dálítið merkilegri mótsögn við allt góðærisblaðrið í hæstv. ríkisstjórn að hér skuli koma bandormur um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem felur í sér hluti af því tagi sem ég hef verið að fara yfir þar sem innihaldið er eins og raun ber vitni. Hvernig stendur á því að það skuli þurfa að þjarma alveg sérstaklega, og meira en nokkru sinni fyrr, að nokkrum mikilvægum velferðarmálaflokkum, að menningarmálum og samgöngumálum nú í miðju góðærinu? Ef þetta er svona mikið góðæri eins og hæstv. ríkisstjórn vill vera láta. Í hvaða samræmi er þetta, herra forseti, við montfundinn, sjálfshólsfundinn sem ríkisstjórnin hélt í ráðherrabústaðnum um daginn þegar hún dreifði skýrslunni um árangurinn? Það var einhver mesta æfing í sjálfshóli sem lengi hefur sést í landinu, þegar þeir komu hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. og hældu sjálfum sér og hvor öðrum og ríkisstjórninni og góðærinu þannig að menn hafa ekki heyrt eða séð annað eins. Hvernig stendur þá á því að frv. af þessu tagi skuli svo allt í einu koma? Þar sem Framkvæmdasjóður fatlaðra er bara skorinn niður við trog? Hann er skertur meira en nokkru sinni fyrr. Þar sem dregið er úr brýnum framkvæmdum til að bjarga menningarbyggingum og menningarverðmætum frá skemmdum? Og þar sem framlög til samgöngumála eru skorin meira niður en nokkru sinni fyrr í sögunni með tekjuskerðingu í ríkissjóð? Það er von að maður spyrji. Auðvitað er uppskeran ósköp rýr.

Eins og ég minntist á í ræðu fyrr í kvöld, er annað frv. var á dagskrá, stendur hæstv. fjmrh. frammi fyrir því að allar gleiðgosalegu yfirlýsingarnar um hinn glæsta rekstur á ríkissjóði eru runnar út í sandinn. Ríkissjóður var gerður upp með halla í fyrra og verður gerður upp með halla á þessu ári og hann verður sjálfsagt gerður upp með halla á næsta ári þegar búið verður að sulla út aukafjárveitingunum sem óhjákvæmilegt er að gera vegna sjúkrahúsanna og fleiri mála sem ríkisstjórnin vísvitandi vanáætlar útgjöld til á næsta ári. Og svo kemur bandormurinn, ráðstafanirnar í ríkisfjármálunum, og þá er hann svona í miðju góðærinu. Maður spyr sig að því hvernig bandormar þessarar hæstv. ríkisstjórnar yrðu á komandi árum ef sú ógæfa ætti yfir þjóð og land að ganga að sitja uppi með hana áfram og það harðnaði á dalnum. Hvað fengi Framkvæmdasjóður fatlaðra þá? Ef yrði nú þröngt í búi á nýjan leik, svona virkilega. Það er von að spurt sé.

Við, herra forseti, í minni hlutanum getum ekki fallist á þá forgangsröðun verkefna sem hér birtist og getum ekki fallist á þessar áherslur, og munum eftir atvikum greiða atkvæði gegn þeim sem við erum andvíg eða sitja hjá eftir atvikum við einstaka þætti frv. Það er fjarri öllu lagi að við getum stutt stjórnarstefnu af þessu tagi. Undir þetta nál rita, ásamt frsm., hv. þm. Ágúst Einarsson og Jón Baldvin Hannibalsson. Kristín Ástgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi sat fundi nefndarinnar og er samþykk þessu áliti.