Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 10:48:29 (2737)

1997-12-19 10:48:29# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[10:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem er árviss umræða með fjárlögum. Þetta frumvarp sem oftast gengur undir nafninu bandormur er misjafnlega skæður ormur, en hann er sko sannarlega niðurskurðarskepna. Ég ætla að hlaupa hér á nokkrum atriðum sem snúa að frv. og þá aðllega þeim þáttum sem snúa að þeim nefndum sem ég starfa í, þ.e. heilbr.- og trn. og samgn. Engu að síður mun ég gera athugasemdir við aðra þætti. Þá er fyrst að nefna grein í frv. um aukna skerðingu til viðhalds menningarbygginga sem gerir ráð fyrir að 200 millj. af 515 millj. skuli renna í ríkissjóð sem annars ættu að fara til viðhalds menningarbygginga. Þarna er verið að auka skerðingu á þessum markaða tekjustofni. Ég minni á að menningarbyggingar þurfa viðhald ekki síður en sjúkrastofnanir. Þar er sérstaklega að nefna Þjóðminjasafnið sem er í mikill niðurníðslu og því lengur sem dregið er að halda við þessum eigum okkar, þessum stofnunum því dýrara verður að gera úrbætur.

Hér hefur verið nokkur umræða um Framkvæmdasjóð fatlaðra og get ég tekið undir hvert orð þeirra þingmanna sem hafa talað hér á undan mér um þann málaflokk. Það er gjörsamlega óviðunandi þegar sífellt er skorið niður í málaflokkum sem þessum, málefnum fatlaðra, aldraðra og sjúkra til að reyna að rétta af fjárlögin. Segja má að þessir hópar greiði fjárlagahallann. Langir biðlistar eru og margir bíða eftir vist á sambýlum í Reykjavík og eins og kom fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur áðan, þá hefur ekki verið leyst úr vanda fjölda einstaklinga sem dvalið hafa á Kópavogshælinu. Þótt reisa eigi þrjú sambýli dugar það ekki til. Ég vil einnig minna á vanda einhverfra sem ég gerði að umræðuefni í umræðum um fjárlögin. Sá vandi er mikill og erfiður og þarf að leysa og þar nefni ég sérstaklega sumarúrræði fyrir börn og unglinga sem eru haldin þessari fötlun, einhverfu. Það hefði svo sannarlega mátt koma fjármagn í þann málaflokk í stað þess að láta svo stóran hluta Framkvæmdasjóðs fatlaðra renna í ríkissjóð.

Í þessu frumvarpi er fjallað um almannatryggingar og tengingu lífeyris við launaþróun. Fyrir tveimur árum voru greiðslur almannatrygginga til lífeyrisþega aftengdar launum. Hér er að nokkru leyti verið að bakka með þá ráðstöfun. Engu að síður er viðmiðuninni hér breytt og hafa stjórnarliðar sent þau skilaboð til almennings og aldraðra að hér sé verið að tengja almannatryggingagreiðslurnar, lífeyrisgreiðslurnar, við laun. Orðalagið sem lagt er til í þessu frv. er ákaflega loðið og sérkennilegt og hefur minni hluti heilbr.- og trn. gert athugasemdir við það. Þó forsrh. hafi reynt að skýra í umræðunni hvað fyrir mönnum vaki með því orðalagi sem lagt er til í frv. tel ég nauðsynlegt að það þurfi að vera mun skýrar orðað hvað menn ætla sér með þessari tengingu. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þarna sé ekki nógu skýrt kveðið á um hvernig framkvæma á þessa tengingu, bæði hvað varðar hækkun almannatryggingabótanna og sömuleiðis frítekjumarksins.

Í umræðu um þessar greinar frv. í heilbr.- og trn. kom fram hjá fulltrúum ASÍ að gliðnað hefur milli launa og bótagreiðslna almannatrygginga. Ég nefni sem dæmi að um áramótin munu fullar bætur einstaklings sem er með greiðslur úr almannatryggingakerfinu verða um 63.000 kr. búi hann einn, en lágmarkslaun í landinu eru 70.000 kr. Þarna munar um 7.000 kr. á því sem lífeyrisþeginn sem býr einn hefur og hefur ekkert annað til framfærslu en almannatryggingabæturnar, 63.000 kr, en lágmarkslaunin eru 70.000 kr.

Mig langar, herra forseti, til að lesa hér minnisblað frá hagdeild ASÍ sem barst hæstv. heilbr.- og trn. vegna þessa máls. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Bandormurinn og breytt viðmiðun bóta almannatrygginga hefur verið mikið til umræðu í fjölmiðlum. Í umræðunni hefur breytingunni margsinnis verið lýst þannig að bætur almannatrygginga verði frá og með áramótum tengdar launavísitölu, þó þannig að bætur hækki aldrei minna en vísitala neysluverðs. Í texta frv. er launavísitala hins vegar hvergi nefnd og virðist því um oftúlkun að ræða. Þetta hefur hvergi verið leiðrétt í opinberri umræðu. Í texta frv. er viðmiðunin nokkuð óljós. Árlegar breytingar skulu taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Það er mikilvægur áfangi að kaupmáttur bóta skuli tryggður með lágmarksviðmiðun við vísitölu neysluverðs en telja verður ólíklegt að þessi trygging verði innleyst á næstu árum. Kostnaður ríkissjóðs af lágmarksviðmiðuninni verður því væntanlega ekki neinn á næstu árum. Sá texti sem nú er í frv. virðist því ekki tryggja annað en það sem fram kemur í 6. tölulið ákvæðis til bráðabirgða við gildandi lög, sbr. 34. gr. laga nr. 144/1995. Þar stendur: ,,Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 59. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Til hliðsjónar við ákvörðun bóta skal hafa þróun launa, verðlags og efnahagsmála.``

Launavísitala Hagstofu Íslands mælir bæði umsamdar hækkanir launa og launaskrið á íslenskum vinnumarkaði. Ef breytingar bóta eiga að taka mið af raunverulegri launaþróun er eðlilegt að vísa í launavísitölu í texta frv. þannig að vafi leiki ekki á um framkvæmd.``

Þetta er álit hagfræðings ASÍ á þessari breytingu á lögunum. Einnig hafa bæði aldraðir og fatlaðir lýst áhyggjum sínum yfir hinu loðna og óljósa orðalagi á þessari breytingu og hefur Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, sent frá sér athugasemd til allra alþingismanna sem ég vil lesa hér, með leyfi forseta:

,,Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, lýsir yfir þungum áhyggjum ef 9. gr. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum nær fram að ganga óbreytt. Sjálfsbjörg hefur lagt á það áherslu að bætur almannatrygginga skuli fylgja almennri launaþróun í landinu. Ekki verður séð að sú áhersla náist með samþykkt 9. gr. frv. Í frv. kemur einungis fram að lífeyrir skuli taka mið af almennri launaþróun þegar árétta þarf að lífeyrir skuli fylgja almennri launaþróun í landinu.

Við bendum á þá geigvænlegu þróun sem verið hefur á launakjörum örorkulífeyrisþega að undanförnu. Sú gjá sem hefur myndast á milli hæstu bóta almannatrygginga og lægstu launa í landinu stækkar og stækkar. Við bendum einnig á að með því að tengja kjör lífeyris við vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu mun fjárhagslegur ávinningur góðæris að engu verða fyrir þennan hóp landsmanna. Það mun því verða áframhald á geðþóttaákvörðunum ríkisstjórnar hvort okkar fólki hlotnist að lifa með þeirri virðingu og reisn sem öðrum þegnum þessa lands, að fá búið við efnahagslegt öryggi í stað þess að vera dregið í niðurlægingu fátæktar.

[11:00]

Í framhaldi af ofangreindu er væntanlegum breytingum á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, í þá átt að fella brott 2. mgr. 18. gr. laganna harðlega mótmælt, að fella þannig á brott þau réttindi lífeyrisþega sem þeir hafa haft til leiðréttingar á kjörum sínum í samræmi við almennar hækkanir bóta og annarra tekna milli ára.``

Undir þetta ritar Guðríður Ólafsdóttir, formaður Sjálfsbjargar.

Það er ekki að ástæðulausu að Sjálfsbjörg, fatlaðir og aldraðir hafi áhyggjur af orðalagi þeirra greina sem fjalla um breytingar á almannatryggingalögunum því þarna þyrfti vissulega að kveða mun fastar að orði um hvað menn ætla sér með þessu ákvæði.

Ég vil einnig geta þess sem oft hefur komið fram í máli fulltrúa aldraðra, og ég tek heils hugar undir, að samráð þurfi að hafa við þessa hópa þegar verið er að breyta kjörum þeirra. Í nágrannalöndunum eru samráðsnefndir um slíka hópa og má nefna að í Noregi er hópur sem í eru fulltrúar verkalýðsfélaga, eldri borgara og ríkisstjórnar sem fjalla um mál sem þessi. Væri vissulega til bóta að koma á slíkri nefnd hérlendis þegar verið er að taka ákvarðanir um kjör aldraðra og fatlaðra. Því lýsi ég yfir áhyggjum mínum vegna orðalags í þessari grein og tel í raun ástæðu til að menn skoði nánar hvort ekki þurfi að breyta þarna eða hvort aðrar viðmiðanir væru ekki líklegri til betri árangurs og bendi í því tilliti á álit minni hluta heilbr.- og trn. Í niðurlagi álitsins segir, eftir að minni hlutinn hefur lagt til ákveðna orðalagsbreytingu á þeirri lagagrein sem er verið að breyta, með leyfi forseta:

,,Jafnframt vekur minni hlutinn athygli efnahags- og viðskiptanefndar á frumvarpi stjórnarandstöðunnar um að bætur almannatrygginga verði færðar í fyrra horf, þ.e. miðaðar við breytingar á launatöxtum verkamanna. Minni hlutinn hvetur nefndina til að kanna hvort ekki sé betra að haga ákvæðum frumvarpsins í þá veru enda hefði það skilað eldri borgurum mun meiri hækkun bótagreiðslna í kjölfar síðustu kjarasamninga.``

Ég læt lokið umfjöllun minni um þær greinar sem snúa að tryggingamálunum en vil aðeins koma að samgöngumálunum áður en ég lýk máli mínu. Þar er því miður verið að skera verulega niður fé til vegamála. Á annan milljarð af mörkuðum tekjustofnum á að setja í ríkissjóð á næsta ári. Þetta er mun meiri niðurskurður en nokkurn tíma hefur verið í sögu niðurskurðar af vegafé. Ég minni á að í síðustu kosningabaráttu var það, að því er mig minnir, eina loforð Sjálfstfl. að ekki yrði skorið niður til vegamála en þarna eru 1.064 millj. teknar og settar í ríkissjóð.

Ég minni á að mjög mikil þörf er fyrir bættar samgöngur víða um landið. Ég minni á að aðeins á hringveginum eru 116 einbreiðar brýr sem eru miklar slysagildrur og hafa valdið hörmulegum slysum bara nú á síðustu mánuðum. Það eru enn fleiri einbreiðar brýr á vegum sem liggja að hringveginum. Í höfuðborginni er ástand víða mjög slæmt í umferðarmálum. Það þyrfti vissulega og verulega að taka á. Erfitt er að komast inn í borgina og út úr henni á annatímum vegna umferðar\-álags og hefði þurft að vera búið að taka á vegaframkvæmdum t.d. í gegnum Mosfellsbæinn. Það hefði þurft að vera búið að breikka Gullinbrú þannig að greiðari umferð væri inn í Grafarvoginn og úr honum. Sömuleiðis hefði þurft að vera búið að hefja framkvæmdir við Sundabraut til að leysa ástandið, að ég minnist nú ekki á tvöföldun Reykjanesbrautar. En þrátt fyrir þetta allt saman í góðærinu er tekinn rúmur milljarður aftur af hinum mörkuðu tekjustofnum inn í ríkissjóð og á ég mjög erfitt með að sætta mig við þau vinnubrögð.

Að síðustu vil ég nefna flugmálin því að í frv. er gert ráð fyrir að 60 millj. kr. fé til framkvæmda á flugvöllum fari ekki til slíkra framkvæmda heldur verði notað til að greiða niður skuldir Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Slíkur niðurskurður á fé til framkvæmda á flugvöllum bitnar auðvitað mest á Reykjavíkurflugvelli. Þar er ástandið hvað verst af öllum flugvöllum eins og menn þekkja. Þetta er stærsti flugvöllurinn okkar með mesta umferð og hann er hættulegur við ákveðnar aðstæður. Þess vegna get ég alls ekki sætt mig við að verið sé að taka þaðan fé til að greiða niður skuldir Leifsstöðvar meðan ástandið á Reykjavíkurflugvelli er eins og það er. Ég geri ekki ráð fyrir að meiri hlutanum í þinginu verði nokkuð hnikað í þeim efnum, því miður. Það eru vissulega mörg mál sem mætti nefna í umfjöllun um þennan bandorm en ég mun koma að þeim málum í umræðum um fjárlög sem verða líklega síðar í dag.