Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 11:46:47 (2741)

1997-12-19 11:46:47# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[11:46]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók upp í andsvari og var einnig rætt af hv. þm. Svavari Gestssyni var að sjálfsögðu rætt í efh.- og viðskn. Það eru ákveðin vandkvæði á því hvernig nákvæmlega eigi að haga þessum viðmiðunum öllum eins og kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni. Það kom einnig fram hjá honum t.d. að þegar ákveðinn taxti er hafður til hliðsjónar þá getur það ýmist verið á valdi aðila vinnumarkaðarins að halda þeim taxta sérstaklega niðri eða hækka hann umfram annað. Með því er í rauninni verið að færa ákvörðunarvald um þessa hluti frá Alþingi til aðila vinnumarkaðarins sem ég held að sé ekki heppilegt.

Varðandi tillögu minni hluta heilbr.- og trn. þá er um hana að segja að á henni eru ákveðin tæknileg vandkvæði sem voru rædd í nefndinni. Minni hluti efh.- og viðskn. ákvað þess vegna að halda þeirri tillögu ekki til streitu, þ.e. að flytja hana hér.

Eins og málið stendur núna lít ég svo á að með þeirri formúlu sem er í greininni sé verið að leitast við að sjá til þess að kaupmáttur bóta lækki ekki þrátt fyrir að erfiðleikatímar komi í þjóðfélaginu. Það er að sjálfsögðu stefnt að því að hækka kaupmátt bótanna og að hækkunarferillinn endurspegli almenna launaþróun og almenna aukningu kaupmáttar í samfélaginu. Það er hins vegar mjög erfitt að finna einhverja algilda viðmiðun fyrir það, nákvæmlega eina vísitölu frekar en aðra hvernig þetta er gert en ég held að allir séu sammála um það að kjör og kaupmáttarþróun þeirra sem taka bætur þurfi að vera í almennu samhengi við það sem almennt gerist í þjóðfélaginu.