Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 11:48:57 (2742)

1997-12-19 11:48:57# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[11:48]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja, þó að ég sé að svara hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, að ég var sammála hverju einasta orði sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan varðandi þessa hluti. Ég vil síðan segja í framhaldi af orðum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar þetta: Ég lít þannig á að niðurstaðan sem orðið hefur m.a. hjá hv. efh.- og viðskn. þýði það að nefndin líti þannig á að viðhorf minni hluta heilbr.- og trn. standi að öðru leyti en því að tæknileg vandkvæði séu á því að framkvæma þetta eins og þar er gert ráð fyrir. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sagði tæknileg vandkvæði, formleg vandkvæði. Hann sagði ekki efnisleg vandkvæði að öðru leyti heldur er vandinn, að því er ég skildi hann, fyrst og fremst fólginn í því að erfitt sé að finna hina eðlilegu viðmiðun. Út af fyrir sig get ég alveg tekið undir að það er ekkert einfalt mál. Þess vegna vil ég segja að ég lít þannig á sem þingmaður hér og atkvæðagreiðandi þegar þar að kemur, að niðurstaðan sé sú að í rauninni verði fylgt einhverju sem er í líkingu við launavísitölu, þó þannig að bæturnar hækki aldrei minna en nemur verðlagi á hverjum tíma sem í raun þýðir að verið er að setja gólf í kaupmáttarþróunina að því er varðar þessa hluti og að kaupmáttur elli- og örorkulífeyris þessara bóta fari aldrei niður fyrir þróun launakaupmáttarins í landinu, en hann gæti orðið meiri. Af hverju segi ég þetta? Ég segi það vegna þess að hér stendur að bæturnar eigi þó aldrei að hækka minna en nemur verðlagi sem þýðir auðvitað ekkert annað en það að verið er að segja: Kaupmátturinn fer ekki niður fyrir það sem hann er í dag. Það er það sem verið er að segja og það er auðvitað mjög mikilvægt atriði.