Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 11:51:15 (2743)

1997-12-19 11:51:15# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[11:51]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé sameiginlegt áhugamál mitt og hv. þm. Svavars Gestssonar að kaupmáttur bótaþega þróist í samræmi við getu þjóðfélagsins og í samræmi við launaþróun almennt. Ég held að við hljótum ekkert að deila um það en útfærslan á þessu hvernig sem hún nákvæmlega verður má ekki vera með þeim hætti að menn læsist inni í einhverri ákveðinni formúlu sem nær ekki tilgangi sínum, geri annaðhvort að verkum að endurskoða þurfi hana einhvern tíma seinna, búa til væntingar sem þjóðfélagið getur ekki staðið undir eða slíkt. Ég held að þess vegna sé ástæða til að taka undir það sem hv. þm. sagði að rétt væri að leyfa þessari formúlu að virka ákveðinn tíma, sjá til hvernig hún reynist og hvort hún verður ekki örugglega til þess að kaupmáttur bóta almannatrygginga þróist eðlilega í samræmi við launaþróun og kaupmáttarþróun almennt í þjóðfélaginu og getu þjóðfélagsins til þess að standa undir þeim bótum.