Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 11:52:36 (2744)

1997-12-19 11:52:36# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[11:52]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara ítreka að ég skil þetta þannig að þó svo kaupmáttur kauptaxta færi niður, þá lækkar kaupmáttur almannatryggingabótanna ekki. Þannig skil ég þetta, að menn séu í raun að setja gólf í þessa þróun og ég tel það mjög mikilvægt.

Ég skil það hins vegar þannig að ef svo gerðist að kaupmáttur kauptaxtanna færi síðan upp aftur og jafnvel upp fyrir bætur almannatrygginga, þá séu menn að áskilja sér rétt með þessum formúlum að láta þá kaupmáttarhækkun ekki endilega koma á sama hátt til skjalanna að því er varðar bætur almannatrygginga og þess vegna vilji menn ekki orðið launavísitala. Ég segi aftur á móti: Ég vil að þetta gólf sé alveg skýrt, að kaupmáttur bóta almannatrygginga fari ekki niður fyrir þetta og ég segi líka: Ég vil áskilja mér a.m.k. rétt til að líta þannig á að menn vilji og við viljum alla vega í stjórnarandstöðunni að kaupmáttur bóta almannatrygginga fylgi launaþróuninni líka þegar hún færi upp aftur eftir einhvern slaka.