Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:14:42 (2750)

1997-12-19 12:14:42# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, EOK
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:14]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þessi umræða um almannatryggingaþátt bandormsins er athyglisverð. (Gripið fram í: Skemmtileg.) Að sumu leyti skemmtileg en að öðru leyti ekki.

Ríkisstjórn Íslands hefur gefið út yfirlýsingu sem er mjög merkileg. Það er yfirlýsing um að hún vilji standa fyrir og stuðla að því að reyna að binda það eins og hægt er, að örorkulífeyrisþegar, ellilífeyrisþegar taki ekki á sig kjaraskerðingu ef hún kann að verða. Við vitum það öll að við lifum í þjóðfélagi þar sem mikil sveifla er. Í gegnum tíðina hafa kjör manna gengið fram og til baka, það hafa oft komið margar lægðir í annars farsælan feril. En í öllum þessum tilfellum hafa ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar tekið þátt í þeirri kjaraskerðingu sem gengið hefur yfir þjóðfélagið. Slík yfirlýsing og sá vilji ríkisstjórnarinnar eru þess vegna stórmerkileg, eitthvert mesta átak og einhver mesta pólitíska viljayfirlýsing sem gefin hefur verið á seinni árum. Þess vegna veldur það miklum vonbrigðum og olli mér miklum vonbrigðum, herra forseti, þegar ég las póstinn minn í morgun og las þar bréf frá Sjálfsbjörg þar sem þessu var harðlega mótmælt og meiningar voru í bréfinu um að þarna væri verið að skerða kjör fólks og landssamband fatlaðra væri mjög á móti þeirri stefnuyfirlýsingu sem þarna kæmi fram. Mér fannst þetta mjög sorglegt vegna þess að þarna er um algeran misskilning að ræða, algeran misskilning. Þarna er öllu snúið við. Það er einmitt ástæða til að fagna vilja stjórnarinnar að þessu leyti vegna þess að það samfélag er mjög merkilegt sem treystir sér til og vill pólitískt standa fyrir því, að komi hagsveiflur niður á við, þurfi þeir sem verst standa að vígi ekki að taka þátt í því. Ég held að fá dæmi séu um viljayfirlýsingar í nágrannalöndum okkar um þetta.

[12:15]

Ræðurnar tvær sem voru fluttar í morgun og tóku undir bréf Sjálfsbjargar voru þess vegna mikil vonbrigði. Þær sýna mikinn misskilning á því sem verið er að gera og það er líka mjög rangt, herra forseti, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar ef hann heldur að það sé á færi einhvers löggjafa, Íslands eða annarra landa, að vefja það svo inn í lagatexta að hugsanlegt launaskrið eins samfélags verði mælt með því að það komi inn í allt bótakerfið. Þarna er um mjög mikinn misskilning að ræða. Þetta er ógjörningur.

Það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera er fyrst og fremst að stuðla að heilbrigðri hagstjórn og þessi heilbrigða hagstjórn á mjög stóran þátt í því að við erum á framfarabraut. Eitt af því sem hefur verið mjög mikilvægt til þess að stuðla að heilbrigðri hagstjórn er að afnema úr lögum sjálfvirknina því að ef við höfum sjálfvirkni á öllum sviðum eins og tilhneigingin var mjög til áður fyrr, að binda allt fast, minnkar það gríðarlega mikið möguleika stjórnvalda á hverjum tíma til þess að mæta efnahagslegum sveiflum. Og efnahagslegar sveiflur munu koma á Íslandi. Það er að heyra á sumum ræðumönnum að nú sé svo bjart á Íslandi að hér eftir munum við ekki ferðast nema upp á við. Hvað segið þið? Meðan við tryggjum heilbrigða hagstjórn er mjög líklegt að svo geti orðið vegna þess að hagstjórnin sjálf hefur verulega um það að segja hvort vel takist til í efnahagsmálum eður ei. Mörg dæmi eru þess að á góðærum hefur ríkisstjórn bæði þessa lands og annarra tekist að fara illa með fjárhag viðkomandi þjóða. Við Íslendingar höfum því miður mörg dæmi þannig að við vitum vel að þjóð sem byggir svo mikið á öflun sjávarfangs eins og við Íslendingar á ekki að ímynda sér að brautin sé eilíf upp á við. En ef við stöndum að þeirri pólitísku yfirlýsingu sem hér hefur verið gefin að verðum við fyrir áföllum ætlum við að reyna að standa þannig að málum að örorkulífeyrisþegar og ellilífeyrisþegar taki ekki þátt í þeirri kjaraskerðingu sem þá verður þá verðum við þjóð á farsældarbraut og ég efast ekki um að allir munu taka undir það mjög heils hugar. Því er sorglegt þegar menn reyna að snúa þessu við og telja að þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og sú viðleitni sem kemur fram í þessum lagatextum sé hin vonda, sé til þess að mótmæla eins og landssamband fatlaðra gerði með bréfi sem ég fékk í morgun. Ég held þess vegna að þingheimur allur sé mjög sammála um að hér er verið að fara inn á brautir sem verða til góðs. Fyrri skipan mála að binda þetta við einstaka texta var ákaflega frumstæð. Ég þekkti það úr margra áratuga starfi við samninga og nú erum við fyrst og fremst að fara inn á þá braut að tryggja að ef við verðum fyrir áföllum og kjör þjóðarinnar rýrna þá ætlum við að reyna að koma í veg fyrir að ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar þurfi að taka þátt í því. Við ætlum að reyna að tryggja að þegar góðærið er, þegar kjör manna eru að batna, fái þeir að fylgja því.

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar er engin ein leið, engin ein viðmiðun, engin ein formúla vegna þess að launabreytingar geta verið ákaflega breytilegar og geta verið ákaflega mismunandi milli ýmissa starfshópa. Við skulum átta okkur á því að það er ekki einfalt mál að segja við hvað á að miða. Með þessum texta eins og við göngum frá honum, eins tillögur okkar eru, er verið að reyna að tryggja að það sé sem jafnast. Það er eingöngu verið að gera það og ég treysti því, herra forseti, að allur þingheimur muni fylgja tillögunum.