Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:27:47 (2755)

1997-12-19 12:27:47# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:27]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. talar um að ekki sé um neinn misskilning að ræða en það er alveg greinilegt að annaðhvort hefur hann ekki lesið bréfið frá Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra, eða þá hann hefur misskilið það hrapallega því það er ekki verið að mótmæla því að það sé gólf í almannatryggingabótunum. Hann segir að það sé verið að mótmæla því að bótaþegar taki ekki á sig kjaraskerðingu ef hún yrði. Það er ekki verið að mótmæla því. Það er verið að mótmæla því að það skuli ekki vera tekið skýrt á því að lífeyrir skuli fylgja launaþróun samkvæmt vísitölu. Það er verið að mótmæla að það eigi að taka mið af launaþróuninni eins og sagt er í textanum. Það er verið að gera kröfu um það að þetta verði skýrt. Ég get ekki séð að lífeyrisþegar geti tekið á sig nokkra kjaraskerðingu miðað við þá hungurlús sem þeim er æltuð eins og kom fram í ræðu minni í morgun. Um áramótin munu lífeyrisþegar sem fá fullar greiðslur, búa einir og uppfylla öll skilyrði sem hægt er að uppfylla í almannatryggingabótunum þá munu þeir sem mest geta fengið fá 63 þús. kr. meðan lágmarkslaun í landinu verða 70 þús. kr. Er af einhverju að taka þarna, hv. 3. þm. Vestf.? Það er greinilega einhver misskilningur á ferðinni hjá hv. þm.