Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:29:21 (2756)

1997-12-19 12:29:21# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:29]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Á undanförnum áratugum hefur íslenska þjóðfélagið gengið í gegnum miklar hagsveiflur. Það hafa orðið djúpar lægðir með nokkurra ára millibili. Það hafa setið ríkisstjórnir allra flokka þegar við höfum orðið fyrir þessum efnahagsáföllum gegnum tíðina. Aldrei hefur verið hægt að tryggja að þeir sem verst stæðu, örorkulífeyrisþegar og ellilífeyrisþegar, yrðu ekki að taka þátt í þeirri kjaraskerðingu sem hefur orðið hvað eftir annað á Íslandi. Í öllum tilfellum hafa þeir tekið þátt í þeirri kjaraskerðingu og enginn getað komið í veg fyrir það. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar nú er um það að tryggja að verðum við fyrir áföllum muni þessir hópar ekki þurfa að taka þátt í því. Þess vegna er yfirlýsingin mjög merkileg pólitískt, nýtt skref sem við erum að taka í ýmsum velferðarmálum.