Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:32:14 (2759)

1997-12-19 12:32:14# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:32]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það verði að minna á meginatriðið í málinu sem er að ríkisstjórnin hefur kúvent. Hún hefur gersamlega breytt um stefnu. Fyrir tveimur árum afnam hún tengingu bóta almannatryggingakerfisins við viðmiðanir. Það hefur tekið eldri borgara og stjórnarandstöðunnar tvö ár að knýja ríkisstjórnina til uppgjafar. Þeir ætluðu sér að hækka bætur almannatrygginga eftir geðþótta og þeir hafa varið þá stefnu í atkvæðagreiðslum, þar á meðal hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson í nafnakalli á hinu háa Alþingi. Nú er verið að gefast upp í málinu og búið er að útfæra málið með þeim hætti eins og segir í lagatextanum að það eigi að tengja bætur almannatrygginga þannig að þær taki mið af launaþróun, þó ekki lægra en nemur hækkunum verðlagsvísitölu. Það ber, herra forseti, að skilja orðin ,,að taka mið af launaþróun`` að það fylgi launavísitölu. Það er sá skilningur sem er réttur í málinu því að það á ekki að nýta þetta aðeins loðna orðalag á þann máta að reyna að klekkja enn og aftur á eldri borgurum.

Ég vil benda á, herra forseti, að ef hin eldri viðmiðun hefði verið tekin upp hefðu bætur hækkað mun meira en þær gera því að þessir taxtar hækkuðu um 23% við síðustu kjarasamninga en bætur munu hækka um 13%. Það breytir því þó ekki að verið sé að reyna að ganga frá góðri tengingu á bótum úr almannatryggingakerfinu. Við erum því fullvissir um að túlkun okkar og skilningur, orð forsrh. og það sem við lesum út úr orðum hv. formanns efh.- og viðskn. dugi vonandi til að þessi mál verði í réttum farvegi. Meginatriðið í þessu er þó að hér er að nást fram vilji okkar í stjórnarandstöðunni svo og eldri borgara hvað þetta mál varðar.