Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:34:17 (2760)

1997-12-19 12:34:17# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:34]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að mótmæla svo ósvífinni ræðu. Á þessu ári hafa kjör ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega hækkað meira en almennra verkamanna. Það er ósvífni að halda því fram að kjör almennra verkamanna á Íslandi hafi hækkað um 23%. Það er bara ósvífni. Kjör almennra verkamanna hafa hækkað um 6--9% og að miða það við einstaka taxta fiskvinnslufólks eins og hv. síðasti þm. var að gera er bara fölsun gegn betri vitund hans. Hann veit að fiskvinnslufólk fórnaði heilmiklu af öðrum kjörum til að hækka taxtana. Kjör þess bötnuðu um 7--8% minna en örorkulífeyrisþega þannig að það er ósvífni að segja svona. Við vitum vel að ríkisstjórnin hefur staðið að því. Hún hefur hækkað þessa taxta, hún hefur hækkað laun ellilífeyrisþega á þessu ári meira en almennt verkafólk hefur fengið út úr kjarasamningum sínum.