Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:38:08 (2763)

1997-12-19 12:38:08# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir að þessar lagabreytingar snúist um að verja elli- og örorkuþega áföllum, að tryggja að þeir verði ekki fyrir kjaraskerðingu þegar kaupmáttur kauptaxta hrapar. Þetta er gott. Þetta er til framfara og þessu er ég sammála. En við í stjórnarandstöðu og við í samtökum launafólks höfum tekið undir með Sjálfsbjörg og öðrum almannasamtökum sem vilja verja kjör aldraðra og örorkuþega, við vildum ganga lengra og tryggja að þessir hópar nytu uppsveiflunnar. Vandinn er sá að menn ræða um þessa hluti á almennum nótum, meðaltölum og prósentum, en bent hefur verið á að um næstu áramót má ætla að lægstu kauptaxtar sem þessir hópar tóku áður mið af verði komnir í 70 þús. kr. á meðan hinir verða í 63 þús. kr. Þarna munar 7 þús. kr. Það er alveg sama hvað við notum mörg meðaltöl og hvað við beitum okkur hart í prósentureikningi, þá breytum við ekki þessu.

Hins vegar er ekkert í lögunum sem bannar að kjör þessara hópa verði bætt til jafns við það sem lægstu kauptaxtar koma til með að þróast. Mér heyrist þingmaðurinn vera að segja, og hér hefur verið vitnað í hæstv. forsrh. líka, að þeir ætli að beita sér fyrir þessu. Ég held að við í stjórnarandstöðunni, við í samtökum launafólks og samtök á borð við Sjálfsbjörg og önnur alþjóðasamtök getum allvel við unað að þessi viðhorf skuli nú uppi í stjórnarherbúðunum og ég fagna því.