Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 12:41:39 (2765)

1997-12-19 12:41:39# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[12:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri góður heimur ef við gætum tryggt kjör manna og hag manna með lagasetningu. Það er hægt og það hefur ríkisstjórnin verið að gera. Hún hefur verið að færa þeim sem braska með peninga á silfurfati milljónir á milljónir ofan enda segir í ritinu Frjáls verslun: Veislan er hafin. Sú veisla sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur boðað til í landinu. Hún hefur tryggt vissum hópum, forréttindaaðli, kjarabætur upp á tugi prósentna og upp á tugi og hundruð milljóna en hér erum við að tala um afstöðu til elli- og örorkuþega og við erum að tala um afstöðu hennar til atvinnulauss fólks sem hæstv. félmrh. segir að þurfi að vera á lakari kjörum en lægstu kauptaxtar, það þarf hvatningu til að vinna. Það er þetta sem ég á við þegar ég minni hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, fyrrv. formann Vinnuveitendasambandsins, á það að svo sannarlega er rétt hjá honum að það er hægt að tryggja kjör fólks með lagasetningu og það er ríkisstjórnin svo sannarlega að gera þótt ég hefði kosið að áherslur hennar hefðu verið aðrar en þær eru í raun.