Aukatekjur ríkissjóðs

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 14:28:06 (2806)

1997-12-19 14:28:06# 122. lþ. 49.9 fundur 304. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (dómsmálagjöld o.fl.) frv. 143/1997, fjmrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:28]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Hér er eingöngu verið að hækka gjöld eðlilega miðað við þá verðlagsþróun sem hefur orðið á síðustu árum. Á sínum tíma var talið að dómstólar landsins væru misnotaðir þegar kröfuhafi væri að eltast við skuldunauta og því voru þessi gjöld hækkuð. Það skal tekið fram að ef skuldunautar reynast ekki borgunarmenn lendir krafan að sjálfsögðu á þeim sem gerir kröfuna og hann verður að greiða gjöldin.

Gjöldin voru sett með reglugerð 1990 en lögfest á árinu 1991. Ég tek undir það sem sagt var í umræðunni af hálfu eins hv. þm. Alþfl. að eðlilegra hefði verið að hækka gjöldin fyrr og gera það tíðar til þess að stökkið sé ekki eins stórt og kemur fram í frv.