Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 14:41:18 (2812)

1997-12-19 14:41:18# 122. lþ. 49.10 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv. 130/1997, ÁE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:41]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Verið er að greiða atkvæði um með hvaða hætti bætur úr almannatryggingakerfinu verði tengdar við verðlags- og launaþróun. Ákvæði frv. og yfirlýsingar hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. og hv. formanns efh.- og viðskn. í umræðunni gefa til kynna að nægjanlega tryggt sé gengið frá málum. Í minnihlutaáliti okkar bendum við á að við lítum svo á að orðalagið ,,að miða við launaþróun`` beri að skilja að taki við af launavísitölu. Við bendum hins vegar mjög skýrt á það að hér er ríkisstjórnin að snúa algerlega við blaðinu. Hún afnam tenginguna fyrir tveimur árum, hún var knúin til uppgjafar og það er verið að knýja hana til uppgjafar með afgreiðslunni í dag og tengja aftur bætur úr almannatryggingakerfinu við eðlilega þróun og láta ekki eldri borgara vera háðir geðþóttaákvörðun ríkisvalds hverju sinni. Það ber að fagna uppgjöf og undanhaldi ríkisstjórnarinnar sem fyrst og fremst hefur komið til vegna baráttu stjórnarandstöðunnar og eldra fólks í landinu.