Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 14:54:10 (2819)

1997-12-19 14:54:10# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[14:54]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (frh.):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnál. meiri hluta fjárln. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1988, sem fyrir liggur á þskj. 635.

Nefndin hefur haft fjárlagafrumvarpið til athugunar frá því að 2. umr. fór fram 12. desember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn B- og C-hluta stofnana, þ.e. Ríkisútvarpsins, Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Fulltrúar efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Þjóðhagsstofnunar komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum.

Vegna nýrrar uppsetningar fjárlagafrumvarpsins er rétt að taka fram til skýringar að ekki eru gerðar breytingartillögur við 1.--4. gr. frumvarpsins heldur breytast þær í samræmi við þær breytingar sem gerðar eru á sundurliðunum 1--4. Hins vegar eru lagðar til breytingar á 5.--7. gr. Í nefndarálitinu er fyrst gerð grein fyrir meginbreytingum sem verða á tekjuhlið frumvarpsins. Þá er gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að gerðar verði á sundurliðunum 2--4. Að lokum er gerð grein fyrir breytingum sem lagt er til að verði á 5. og 6. gr. frumvarpsins. Að lokum mun ég gera grein fyrir helstu breytingum sem lagt er til að verði á 7. gr. en þær skýringar er ekki að finna í nál.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun er ekki talið ástæða til að breyta þeirri þjóðhagsspá sem lögð var til grundvallar í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. Endurskoðuð tekjuáætlun fyrir árið 1998 endurspeglar því fyrst og fremst breytingar á tekjugrunni ársins 1997. Gert er ráð fyrir að auknar tekjur af veltusköttum árið 1997 skili sér á tekjuhlið næsta árs. Einnig er áætlað að tekjur af sölu eigna muni aukast verulega. Á móti vegur lækkun á tekjusköttum þar sem ekki er lengur gert ráð fyrir að sveitarfélögin taki þátt í kostnaði vegna lækkunar á tekjuskatti einstaklinga á næsta ári. Í heild er því gert ráð fyrir að tekjulið fjárlaga hækki um 2,3 milljarða kr. á rekstrargrunni umfram áætlun fjárlagafrumvarpsins og verði um 165,8 milljarðar kr. árið 1998. Að venju eru álit efnahags- og viðskiptanefndar á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins og áhrifum skattalagabreytinga birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu.

Tillögur meiri hluta nefndarinnar, er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs, leiða til hækkunar útgjalda um 1.106,7 millj. kr.

Samkvæmt endurskoðaðri tekjuspá fjármálaráðuneytisins stefnir nú í að tekjur ríkissjóðs muni nema um 130,8 milljörðum króna á yfirstandandi ári. Þannig hafa tekjur aukist um 5,6 milljarða frá því sem fjárlög 1997 áætluðu. Þennan mikla tekjuauka má fyrst og fremst rekja til mun hagstæðari þjóðhagsskilyrða en gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Endurskoðuð tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins fyrir næsta ár gerir ráð fyrir að tekjurnar verði um 2,3 milljörðum króna hærri en ráð var fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1998. Þar vegur þyngst um 800 milljóna króna tekjuauki vegna sölu eigna. Skýringin er annars vegar sú að sölu á hlutabréfum ríkisins í járnblendiverksmiðjunni hefur verið frestað til næsta árs. Hins vegar hefur mat á söluverðmæti hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins verið hækkað í ljósi góðar afkomu bankakerfisins á þessu ári. Um 700 milljónir króna má rekja til breytingar á tekjugrunni frumvarpsins vegna bættrar afkomu á árinu 1997.

Þá hækka tekjur ríkissjóðs um 600 milljónir króna m.a. vegna áforma um hækkun á sérstöku bensíngjaldi til að fjármagna auknar vegaframkvæmdir, hækkun á þungaskatti og hækkun á tryggingagjaldi til að fjármagna greiðslur vegna fæðingarorlofs feðra. Á móti þessu vegur 500 milljóna króna lækkun á tekjuskatti einstaklinga þar sem ekki er gert ráð fyrir að sveitarfélögin taki þátt í lækkun hans að svo stöddu. Þá má nefna að þar sem ríkissjóði er gert skylt að greiða fjármagnstekjuskatt hækkar tekjuhlið fjárlaga um 400 milljónir króna. Jafnframt hækka útgjöld ríkissjóðs um sömu fjárhæð þannig að þessi tekjufærsla hefur engin áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Ekki hefur verið talin ástæða til að endurskoða þá þjóðhagsspá sem fjárlagafrumvarpið byggir á. Ljóst er því að á næsta ári mun draga lítillega úr þeim mikla vexti sem einkennt hefur efnahagslífið á þessu ári. Grundvöllur þess að viðhalda þeim stöðugleika sem við búum við í dag er að ríkissjóður verði rekinn hallalaus. Meiri hlutinn telur að tekjuspáin sé byggð á traustum grunni og því óvarlegt að búast við verulegum tekjuauka umfram forsendur fjárlaga næsta árs eins og gerst hefur á síðustu tveimur árum. Því verður að gæta aðhalds á gjaldahlið þannig að ekki þurfi að koma til auknar lántökur.

Með lögum um fjárreiður ríkisins var ákveðið að setja í fjárlög heimildir fyrir lántökum ríkisins, lánveitingum, ríkisábyrgðum og til niðurfellingar skulda. Áður höfðu slíkar heimildir verið í lánsfjárlögum. Samhliða þessu varð sú breyting að fjárlaganefnd fjallar nú um þessar heimildir í stað efnahags- og viðskiptanefndar áður.

[15:00]

Fjárlaganefnd hefur lokið umfjöllun um frumvarpið og leggur til að það verði samþykkt með þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

Alls er sótt um heimild til lántöku allt að 45,3 milljarða króna vegna ríkissjóðs, ríkisfyrirtækja og sjóða í eigu ríkisins. Gert er ráð fyrir að þessir aðilar greiði 35,4 milljarða króna í afborganir eldri lána og að hrein lánsfjáröflun verði þar af leiðandi um 9,9 milljarðar króna.

Í 5. gr. frumvarpsins er ríkissjóði heimilað að taka að láni allt að 13.515 millj. kr. á árinu 1998. Ráðstöfun þessa fjár er með þeim hætti að til Byggingarsjóðs ríkisins renna allt að 4.200 millj. kr., til Lánasjóðs íslenskra námsmanna allt að 3.200 millj. kr. og til Þróunarsjóðs sjávaraútvegsins allt að 1.000 millj. kr. Einnig er þar að finna lántökuheimildir vegna Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Ríkisútvarpsins, Happdrættis Háskóla Íslands, Rafmagnsveitna ríkisins og Alþjóðaflugþjónustunnar. Samtals nemur lántökuheimild þessara síðasttöldu aðila 1.185 millj. kr.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að lántökuheimildir verði samþykktar vegna eftirtalinna ríkisfyrirtækja og sjóða: Landsvirkjunar, Byggingarsjóðs verkamanna, Húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins, Lánasjóðs landbúnaðarins en hann tekur við af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Byggðastofnunar og Ferðamálasjóðs. Lántökuheimildir þessara aðila nema samtals allt að 31,9 milljörðum króna á árinu 1998.

Lagt er til að ríkissjóður takist á hendur sjálfsskuldar\-ábyrgð vegna hafnarsjóðs Grundartangahafnar vegna framkvæmda í tengslum við nýtt álver, samtals allt að 210 millj. kr. Þá er leitað eftir heimild til yfirtöku skulda Baldurs hf. vegna kaupa á ferju til siglinga á Breiðafirði og húseignum á Brjánslæk sem tengjast þeim rekstri.

Þess skal að lokum getið að við 3. umræðu frumvarpsins eru lántökuheimildir ríkissjóðs hækkaðar um 1.015 millj. kr. Jafnframt var ákveðið að leggja til hækkun á lántökuheimild Landsvirkjunar um 800 millj. kr. en á móti vegur að 2.800 millj. kr. af lántökuheimild þessa árs verða ekki nýttar. Heimild fjármálaráðherra til útgáfu viðbótarspariskírteina í eldri flokkum, sem er að finna í 13. gr. gildandi lánsfjárlaga, er auk þess felld inn í frumvarpið við 3. umræðu þess til að taka af allan vafa um heimildina.

Gerðar eru nokkrar breytingar á 5. gr. frumvarpsins sem fjallar um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir á næsta ári. Lántökuheimild ríkissjóðs hækkar um 150 millj. kr. frá fjárlagafrumvarpi. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður verji rúmlega 4,8 milljörðum króna til að lækka skuldir sínar, í stað 5 milljarða króna samkvæmt fjárlagfrumvarpi. Í öðru lagi er lögð til 1.015 millj. kr. hækkun á heimild ríkissjóðs til að endurlána stofnunum og sjóðum í B- og C-hluta fjárlaga. Þannig er gert ráð fyrir nýjum lánveitingum til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Ríkisútvarpsins, Happdrættis Háskóla Íslands og Rafmagnsveitna ríkisins, samtals að fjárhæð 1.115 millj. kr. til að fjármagna framkvæmdir á þeirra vegum á næsta ári. Á móti lækkar lánsfjárþörf Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 100 millj. kr. til samræmis við endurskoðaða rekstraráætlun sjóðsins. Í þriðja lagi er lagt til að lánsfjárheimild Landsvirkjunar á árinu 1998 verði hækkuð um 800 millj. kr. vegna frestunar framkvæmda milli ára, en Landsvirkjun mun ekki nýta 2.800 millj. kr. af lántökuheimild yfirstandandi árs.

Loks er gert ráð fyrir því að heimild Húsnæðisstofnunar ríkisins til útgáfu húsbréfa á árinu 1998 verði hækkuð um 500 millj. kr. og nemi samtals 16.500 millj. kr. miðað við markaðsverð. Sú heimild er í samræmi við endurskoðaða áætlun Húsnæðisstofnunar um útgáfu húsbréfa.

Við 6. gr. fjárlagafrumvarps eru gerðar þrjár breytingartillögur. Sú fyrsta er um að fella niður 2. tölulið greinarinnar. Horfið hefur verið frá því að skerða lögbundið framlag til átaksverkefnis um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða. Í annan stað er lagt til að framlag í ríkissjóð af mörkuðum tekjum til vegamála hækki um 100 millj. kr. og verði 1.164 millj. kr. á næsta ári. Áætlað er að tekjustofnar sem markaðir eru til vegamála verði 271 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Af þessari hækkun fara 151 millj. kr. til nýframkvæmda, 20 millj. kr. fara í styrki til sérleyfishafa og 100 millj. kr. renna í ríkissjóð. Loks er gerð tillaga um að 7. liður greinarinnar falli niður. Horfið hefur verið frá því að hluti tekna Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli renni í ríkissjóð.

Við 7. gr. frumvarpsins eru lagðar fram breytingartillögur í 18 liðum. Flestar er hefðbundnar, svo sem niðurfellingar stimpilgjalda vegna leigu á flugvélum og heimildir til sölu fasteigna í eigu ríkissjóðs. Enn fremur er nokkuð um að óskað sé breytinga á greinum þannig að söluandvirði fasteigna og hlutabréfa sé nýtt í þágu þeirra stofnana eða málaflokka sem hið selda tengist. Má þar nefna heimildir til að láta söluandvirði eignarhluta ríkissjóðs í fasteignum grunnskóla, félagsheimilum og fasteignum framhalds- og sérskóla renna til viðhalds skólamannvirkja og heimildir til að láta söluandvirði hlutabréfa í Hólalaxi hf. renna til Bændaskólans á Hólum. Ekki er ástæða til að rekja þessar heimildir frekar hér þar sem þær skýra sig sjálfar.

Í 18. lið breytingartillagnanna eru viðbætur við ýmsar heimildir 7. gr. Þar er fyrst að nefna tvo liði í fjárlögum þessa árs. Annars vegar er heimild til að ráðstafa allt að 80 millj. kr. til verkefna á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar í atvinnulífinu, sérstaklega á þeim landsvæðum sem ekki njóta góðs af atvinnustarfsemi sem tengist uppbyggingu á orku- og stóriðjusviði. Hins vegar er þar heimild til að stofna eignarhaldsfélög um eignarhlut ríkissjóðs í einstökum félögum sem tilheyra starfssviði iðnaðarráðuneytisins.

Enn fremur eru hér á ferð fjórir nýir liði sem rétt er að fjalla lítillega um. Í 7. gr. laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins er kveðið á um að ríkissjóður skuli greiða sem stofnfjárframlag til sjóðsins 1.000 millj. kr. af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Hins vegar er ekki tilgreint með hvaða hætti skuli inna þessa greiðslu af hendi en áform eru uppi um að selja allt að 49% hlut ríkisins í bankanum á næsta ári. Því er óskað heimildar til að semja við sjóðinn um þessa stofnfjárgreiðslu en gert er ráð fyrir að hún geti orðið allt að 350 millj. kr. á árinu 1998. Jafnframt er lagt til að stofnfjárframlag í 2. gr. frumvarps til fjárlaga verði hækkað um 150 millj. kr. til að rúma greiðsluna.

Einnig er óskað heimildar til að semja við stjórn Skallagríms hf. um yfirtöku Ms. Akraborgar upp í skuldir félagsins við Vegagerðina. Þær skuldir eru þannig til komnar að Vegagerðin hefur undanfarin ár séð um að greiða af skuldabréfum vegna Akraborgar en í bókum Skallagríms hf. hefur á móti verið færð skuld við Vegagerðina. Yfirtaka þessi tengist annarri heimild sem óskað er eftir, en það er heimild til að selja eða afhenda Ms. Akraborg. Að baki þessara heimilda liggur sú hugmynd að þegar rekstri Akraborgar lýkur um mitt næsta ár við opnun Hvalfjarðarganga verði hún afhent Slysavarnafélagi Íslands til notkunar fyrir Slysavarnaskóla sjómanna, en ástand skips skólans, Sæbjargar, er orðið mjög bágborið. Meðal annars er önnur aðalvél skipsins ónýt, skrúfubúnaður er mjög slitinn og þilför, tankar og yfirbygging skipsins eru víða tærð.

Lagt er til að heimilað verði að ríkissjóður verði þátttakandi í stofnun hlutafélags til að efla þróunarstarf og stuðla að útflutningi á íslenskri þekkingu á sviði upplýsingatækni um veður og sjólag til sjófarenda. Hér er um að ræða tækni sem gerir sjófarendum fært að sjá á veraldarvefnum upplýsingar frá öldumælinga- og veðurduflum.

Að lokum er óskað eftir heimild til að semja um smíði nýrrar Hríseyjarferju. Hér er um að ræða skip sem mun taka allt að 130 manns, þar af 80--100 innan dyra. Aðstaða verður til vöruflutninga, m.a. með þilfarskrana og festingum fyrir vörugáma, fólksbíla og aðra þungavöru. Hríseyjarferjan Sævar, sem nú sinnir ferðum milli Árskógssands og Hríseyjar, er komin nokkuð til ára sinna og á henni eru verulegir vankantar. Þar má nefna að aðgengi fyrir fatlaða er ófullnægjandi, ekki er hægt að flytja með henni venjulegar sjúkrabörur nema að koma þeim fyrir í stýrishúsi, skipið tekur aðeins 45 farþega auk þess sem heilbrigðiseftirlitið hefur gert ítrekaðar athugasemdir vegna hávaða bæði í farþegarými og stýrishúsi. Áætlað er að smíði skipsins kosti um 115 millj. kr.

Fluttar eru 42 breytingartillögur við sundurliðun 2 og er heildarfjárhæð þeirra 1106,7 millj. kr. Tillögurnar eru skýrðar í nefndaráliti og ekki ástæða til að fjölyrða nánar um flestar þeirra. Þó vil ég skýra nokkra þætti betur.

Lagt er til að framlag til Háskóla Íslands hækki um 180 millj. kr. til að fjármagna greiðslur til verktaka vegna byggingar á öðrum áfanga Náttúrufræðihúss. Í breytingartillögum við 5. gr. er gert ráð fyrir að Happdrætti Háskóla Íslands taki allt að 180 millj. kr. lán og greiði Háskóla Íslands lánsfjárhæðina sem fyrirframgreiddan arð. Í samræmi við nýja framsetningu fjárlaga er framlag happdrættisins skráð sem tekjur ríkissjóðs og framlag ríkissjóðs til háskólans.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að veita sérstaka fjárveitingu til kynningarstarfs erlendis þar sem gerð verður grein fyrir hagsmunum Íslands vegna nýtingar á auðlindum hafsins.

Lagt er til að veittar verði 20 millj. kr. til nýrra meðferðarúrræða barna og ungmenna vegna hækkunar á sjálfræðisaldri úr 16 í 18 ár. Þetta er talið nauðsynlegt þar sem tveir nýir árgangar bætast við skjólstæðingahóp meðferðarheimila. Miklum vandkvæðum er bundið að áætla þá viðbót í meðferðarþörf sem í breytingunni felst en talið er að með þessu megi bæta úr brýnustu þörfum. Gert er ráð fyrir því að framlagið fari annars vegar til reksturs nýs meðferðarheimilis í Skagafirði og hins vegar til eflingar á neyðavistun í bráðatilvikum.

Gerð er tillaga um 25 millj. kr. framlag á árinu 1998 til að kosta starf á vegum fyrirhugaðs stýrihóps um vanda sjúkrahúsanna og áframhaldandi athugun á aukinni samvinnu eða sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Við 2. umr. fjárlaga 1998 var að tillögu meiri hluta fjárlaganefndar fallist á að veita 300 millj. kr. til að auðvelda lausn á vanda sjúkrahúsanna í landinu. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að unnið verði áfram að frekari skoðun á hagkvæmni þess að auka samvinnu eða sameiningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Það verk verður unnið á grundvelli skýrslu VSÓ ráðgjafar um úttekt á skipulagi og samvinnu sjúkrahúsanna í Reykjavík og fjögurra sjúkrahúsa í nágrenni Reykjavíkur.

Heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið munu í byrjun næsta árs útfæra nánar framangreinda vinnu og ákveða nánar um ráðstöfun á þessa framlags.

Lagt er til fjárheimild liðarins Launa- og verðlagsmál undir fjármálaráðuneyti verði hækkuð um 250 millj. kr. Heimildin er ætluð til þess að mæta útgjöldum vegna kjarasamninga og kjaranefndarúrskurða sem ekki eru að fullu frágengnir eða sem eftir er að leggja kostnaðarmat á fyrir einstakar stofnanir. Mest munar þar um kjarasamning við sjúkrahúslækna en einnig á kjaranefnd eftir að úrskurða um laun heilsugæslulækna og háskólaprófessora.

Lagt er til að framlög til stofnana og viðfangsefna í A-hluta fjárlaga hækki samtals um 2.200 millj. kr. vegna þess að þeim er ætlað að greiða til A- og B-deilda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga iðgjald sem nemur 11,5% af öllum launum í stað 6% í gjalds af dagvinnulaunum. Sundurliðun fjárhæðarinnar á stofnanir og verkefni er sýnd á sérstöku yfirliti sem fylgir tillögunni

Útgjöld stofnana og verkefna í A-hluta fjárlagafrumvarps miðast við að iðgjald launagreiðanda til LSR og LH sé 6% af dagvinnulaunum. Samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga er launagreiðanda hins vegar ætlað að greiða iðgjald sem nemur 11,5% af öllum launum vegna þeirra sem eru í A-deildum sjóðanna. Þar með er launagreiðendum gert kleift að gera upp skuldbindingar sínar vegna A-deildar sjóðsfélaga með fullnaðargreiðslum ár hvert. Nú liggur fyrir frumvarp til laga um breytingar á þessum lögum sem verður afgreitt fyrir jól og felur m.a. í sér að stofnunum er gert kleift að greiða einnig 11,5% af öllum launum þeirra sem eru í eldra réttindakerfi í stað 6% af dagvinnulaunum eins og tíðkast nú. Með þessu verður aðild að A- og B-deildum lífeyrissjóðanna hlutlaus að því er varðar greiðslur og greiðsluáætlanir vegna launa og launatengdra gjalda.

[15:15]

Fjármögnun þessara útgjalda er með þeim hætti að á fjárlagalið 09-989 190 Launa- og verðlagsmál er í fjárlagafrumvarpi áætlað fyrir 900 millj. kr. til að mæta hækkun á iðgjaldagreiðslu stofnana vegna þeirra sem verða í A-deildum sjóðanna. Þá er samkvæmt ákvæði frumvarps til laga um breyting á lögum um LSR og LH gert ráð fyrir að hækkun á iðgjaldsgreiðslu stofnana vegna þeirra sem verða í B-deildum sjóðanna komi til lækkunar á lífeyrisskuldbindingum og verðbótum á lífeyri sem áætlaður er á fjárlagalið 381 Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun undir fjármálaráðuneyti. Stofnanir sem eru alfarið fjármagnaðar af mörkuðum tekjustofnum fá ekki hækkun samkvæmt þessari tillögu. Gera má ráð fyrir að í einhverjum tilvikum þurfi að leiðrétta framlag til stofnana og þá sérstöku sundurliðun sem fylgir þessari tillögu. Þær breytingar geta verið bæði til hækkunar eða lækkunar í ljósi raunverulegra útgjalda. Á fjárlagaliðum 381 Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun og 989 Launa- og verðlagsbætur, er gert ráð fyrir fjárhæðum til að mæta slíkum leiðréttingum. Fjárlaganefnd Alþingis mun verða gerð grein fyrir hugsanlegum breytingum.

Í lok umfjöllunar minnar um breytingartillögur við útgjaldahlið fjárlaga er rétt að benda á leiðréttingu sem gerð var á fjárlagalið RALA. Eins og greint er frá í nefndaráliti var gerð breyting við 2. umr. fjárlaga en sökum mistaka þarf að flytja tillöguna aftur og að auki leiðrétta fyrri færslu.

Fjárlaganefnd fór yfir áætlanir B-hluta fyrirtækja og lánastofnana í C-hluta og fékk á fund sinn fulltrúa nokkurra þeirra. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um breytingar á sex áætlunum í B-hluta og fimm áætlunum í C-hluta.

Þar er fyrst að nefna að fjárreiður fimm fyrirtækja og lánasjóða breytast vegna breytinga á lántökum sem gerð er grein fyrir í umfjöllun um breytingartillögur við 5. gr. Þær stofnanir og fyrirtæki sem hér um ræðir eru Happdrætti Háskóla Íslands, Ríkisútvarpið, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Rafmagnsveitur ríkisins og Byggingarsjóður ríkisins, húsbréfadeild.

Í öðru lagi breytast áætlanir tveggja aðila í B- og C-hluta vegna ákvarðana um aukin framlög í A-hluta fjárlaga. Annars vegar áætlun Byggðastofnunar vegna atvinnuráðgjafa á landsbyggðinni og hins vegar áætlun Sinfóníuhljómsveitar Íslands vegna hækkunar á rekstrargjöldum.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á áætlunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og Lánasjóðs íslenskra námsmanna á grundvelli endurskoðaðra rekstraráætlana. Í nýrri áætlun Áfengisverslunar er gert ráð fyrir auknum rekstrartekjum og auknum hagnaði vegna verðbreytinga, en nokkrum samdrætti í sölumagni. Áætlað er að arðgreiðsla í ríkissjóð hækki um 241 millj. kr. og verði 2.908 millj. kr. Í nýrri áætlun vegna Lánasjóðs íslenskra námsmanna er gert ráð minni fjölgun lánþega og að útlán minnki um 30 millj. kr. Áætlað er að afborganir af teknum lánum verði 70 millj. kr. lægri og að innheimt námslán verði 40 millj. kr. hærri en frumvarpið gerir ráð fyrir. Þörf á lántökum minnkar um 100 millj. kr. Lagt er til að önnur rekstrargjöld verði hækkuð um 1 millj. kr. vegna lögfræðiþjónustu og um 5 millj. kr. vegna kostnaðar við málskotsnefnd. Í nýrri áætlun er gengið út frá því að framlag ríkissjóðs nemi 55% útlána, auk 55 millj. kr. vaxtastyrks sem áætlað er fyrir meðal annarra rekstrargjalda og 5 millj. kr. vegna málskostnefndar sem áður var getið. Framlag ríkisins lækkar samkvæmt þessum forsendum um 43 millj. kr. og verður 1.727 millj. kr.

Loks eru gerðar leiðréttingar á áætlunum Byggingarsjóðs ríkisins og Þróunarsjóðs sjávarútvegsins sem eru nánar skýrðar í nefndaráliti.

Inn á fjárlagalið 09-999 119 Ýmsar endurgreiðslur, er óráðstafað 5 millj. kr. frá fyrri árum vegna endurgreiðslu er nemur virðisaukaskatti af björgunarbúningum fyrir sjómenn.

Meiri hlutinn leggur til að liðnum verði ráðstafað í tengslum við ráðstöfun þeirra fjárveitinga 1998 sem fela í sér endurgreiðslur vegna björgunarmála.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir breytingum meiri hluta fjárlaganefndar á fjárlagafrumvarpinu við 3. umr. Niðurstaðan liggur fyrir. Fjárlög hafa í annað sinn verið afgreidd hallalaus og sá áfangi náðst að ná hallalausri afgreiðslu með hinni nýju uppsetningu á rekstrargrunni. Þetta er hagstæðari niðurstaða en á fyrra ári. Ef allt gengur eftir sem áformað er munu þau þáttaskil verða á næsta ári að skuldir ríkissjóðs verði greiddar niður um allt að 5 milljörðum króna og lánsfjárþörfin fari lækkandi. Það væri jákvætt innlegg í efnahagsþróunina, lækkar vaxtabyrði ríkissjóðs og losar um fjármagn til annarra hluta.

Ég tel rétt að gera grein fyrir einni brtt. sem gerð var milli 2. og 3. umr., tillögu um að hækka framlag til viðhalds Sjúkrahúss Reykjavíkur um 100 millj. kr. Þetta er gert í því skyni að auðvelda væntanlegum stýrihópi og forsvarsmönnum sjúkrahússins að setja niður áætlun um viðhald sjúkrahússins.

Undirstaða þess árangurs sem náðst hefur er sú að hjól atvinnulífsins snúast nú hraðar en áður. Veltuaukning í þjóðfélaginu er mikil með vaxandi kaupmætti. Tekjur einstaklinga hafa aukist. Þegar afkoman er skoðuð verður að taka tillit til þess að skattalækkanir hafa tekið gildi og launaútgjöld og tilfærslur í formi bótagreiðslna hafa hækkað.

Ljóst er að halda verður vel á málum á næsta ári til þess að tryggja árangur ríkisfjármála í sessi og varlegt er að búast við viðlíka tekjuaukningu fram yfir áætlanir á næsta ári eins og reyndin hefur verið á árinu l997. Um það eru sérfræðingar sammála. Æskilegt væri að sá tekjuauki sem hugsanlegur er nýttist til þess að styrkja afkomu ríkissjóðs enn betur. Þegar vel árar er nauðsyn að vera á verði gagnvart auknum útgjöldum og styrkja afkomuna svo hægt sé að mæta því þegar verr gengur. Fjárlaganefnd hefur í vinnu sinni reynt að stilla útgjaldatillögum í hóf, enda eru brtt. nefndarinnar óverulegar miðað við heildarumfang ríkisfjármálanna.

Mörgum góðum málum hefur ekki verið sinnt eða þau hafa verið tekin til greina að hluta. Vandinn er að velja og hafna. Verkefnin sem krefjast útgjalda blasa við alls staðar.

Til þess að tryggja velferðarkerfið í sessi án þess að hækka skattheimtu á almenning og fyrirtækin í landinu er nauðsynlegt að hafa aðhald í opinberum rekstri. Það á við um öll svið opinberrar þjónustu. Gott skipulag og stjórnun og skilgreining á þeirri þjónustu sem á að veita er grundvöllur fyrir árangri í þessum efnum. Fólki sem hefur unnið störf sín vel þykir oft kröfur um aðhald ósanngjarnar, ekki síst ef um viðkvæma þjónustu er að ræða. Til dæmis á þetta við um heilbrigðisþjónustuna sem hefur mikinn fjölda af mjög hæfu fólki innan sinna vébanda, fólki sem afkastar miklu verki. Gott skipulag, stjórnun og skýr verkaskiping er sá rammi sem þarf að mynda um þessa mikilvægu þjónustu og aðra opinbera þjónustu. Það er hagkvæmast fyrir alla aðila málsins.

Herra forseti. Ég vil nú í lok máls míns þakka meðnefndarmönnum mínum í meiri og minni hluta fjárlaganefndar samstarfið og góðan starfsanda, þrátt fyrir mismundandi sjónarmið til ýmissa hluta. Ég endurtek þakkir sem ég flutti við 2. umr. fjárlaga til starfsfólks Alþingis, ráðuneyta og Ríkisendurskoðunar sem veitt hafa margháttaða aðstoð við vinnu og ekki síður við frágang á frumvarpinu, nefndarálitum og breytingartillögum. Síðast en ekki síst vil ég senda kveðju öllum þeim sem hafa átt samskipti við nefndina í viðtölum eða með erindum sínum. Sumum þeirra hefur verið sinnt, öðrum hefur orðið að hafna eða taka til greina að hluta en þessir aðilar eru fjölmargir og nefndin er reynslunni ríkari eftir viðtöl við þá eða yfirferð yfir erindi þeirra.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.