Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 15:25:40 (2820)

1997-12-19 15:25:40# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, Frsm. minni hluta KHG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[15:25]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst óska eftir því að þrír hæstv. ráðherrar verði í salnum við ræðu mína, þ.e. hæstv. ráðherrar fjármála, heilbrigðismála og menntamála. Ég spyr forseta hvort hann sjái nokkur tormerki á því að svo geti orðið.

(Forseti (RA): Forseti hefur gert ráðstafanir til að láta þá vita af ósk hv. þm.)

Herra forseti. Að venju hefur fjárln. komið saman og fjallað um frv. milli 2. og 3. umr. og tekið fyrir tekjugrein frv., lánsfjárheimildir, heimildargreinina sem áður var 6. gr. en nú er 7. gr., svo og B- og C-hluta stofnanir auk þess að ræða áfram einstök útgjaldaverkefni. Að þessu sinni sem oftar reyndust framlög til sjúkrahúsa vera tímafrekasta málið enda fjárhagsvandinn ærinn hjá öllum þremur stóru sjúkrahúsunum í landinu eins og rakið verður síðar í nál. minni hluta fjárln.

Um það mál vil ég segja að óhjákvæmilegt er, að mínu mati, að taka upp samrekstur stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík í því skyni að draga úr tvíverknaði og tvöföldum kostnaði. Nýleg skýrsla VSÓ er í samræmi við áður fram komnar upplýsingar um talsverðan kostnað sem fylgir því að reka tvo aðskilda spítala af þessari stærð. Niðurstaða ráðgjafarinnar er að umframkostnaðurinn nemi um 1 milljarði kr. á ári og tel ég ekki ástæðu til þess að draga í efa þá niðurstöðu í meginatriðum. Þetta þýðir að fyrir sama pening væri hægt að sinna fleiri sjúklingum en nú er gert eða að sama umfang kostaði 1 milljarði kr. minna. Ríkissjóður greiðir allan kostnað annan en þann sem sjúklingar greiða af rekstri sjúkrahúsanna. Óverjandi er að halda áfram núverandi fyrirkomulagi.

Þá þykir mér afar óeðlilegt að ríkissjóður greiði kostnað en annar aðili stjórni eins og reyndin er með Sjúkrahús Reykjavíkur. Skoðun mín er sú að ríkisvaldið eigi að stjórna þeirri stofnun sem ríkissjóður greiðir. Þetta sjónarmið á að sjálfsögðu við um aðrar sjúkrastofnanir í landinu. Sveitarstjórnir skipa fjóra af fimm stjórnarmönnum en heilbrrh. aðeins einn stjórnarmann. Hér er um verkefni ríkisins að ræða og því ætti ríkið að hafa reksturinn með höndum að óbreyttum lögum um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég vil einnig víkja að skipulagi heilsugæsluþjónustu í landinu. Hér á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki tekist að innleiða til fulls sama fyrirkomulag og gildir annars staðar á landinu. Meira er stuðst við beina þjónustu sérfræðinga. Samkvæmt staðtölum Tryggingastofnunar ríkisins fyrir síðasta ár eru útgjöld fyrir sérfræðilækningar á íbúa árið 1996 langhæst í Reykjavík eða 5.440 kr. Annars staðar á höfuðborgarsvæðinu er kostnaðurinn á 5. þúsund. Á nokkrum stöðum á landinu er kostnaðurinn innan við 2.000 kr. á íbúa eða liðlega 60% lægri en þar sem hann er hæstur.

Herra forseti. Mér finnst vera heldur mikill kliður í þingsalnum.

(Forseti (RA): Forseti tekur undir þessi orð og óskar eftir að hv. þm. sé veitt hljóð.)

[15:30]

Á Ísafirði er kostnaðurinn 2.305 kr. á hvern íbúa eða 58% lægri en í Reykjavík. Væri kostnaðurinn þar sá sami og á Ísafirði lækkaði þessi kostnaðarliður um 330 millj. kr. á ári í höfuðborginni. Ég trúi því ekki að heilsufar sé svona mismunandi og tel að þessi kostnaður stafi af skipulagsástæðum, það þurfi að styrkja heilsugæslukerfið betur í Reykjavík, enda sé það skilvirkara og ódýrara. Hlutur ríkisins í þessum umframkostnaði er um 203 millj. kr. og um 126 millj. kr. er hlutur sjúklinga. Fyrir þá væri það umtalsverð kjarabót að búa við sama kostnað og Ísfirðingar gera. Ég tel að heilbrrn. eigi að kappkosta að byggja upp heilsugæslukerfið á höfuðborgarsvæðinu og að það ásamt samrekstri sjúkrahúsanna tveggja sé mikilvægasta verkefni ráðuneytisins í heilbrigðismálum.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að ég tel að ráðuneytið sé verulega undirmannað og meðan svo er tekst því trauðla --- herra, forseti. Er ég að ónáða þingmenn með ræðu minni?

(Forseti (RA): Ég vona ekki. Hv. þingmenn voru að kanna það hvar þeir væru á ræðulistanum. Ég vænti þess að hv. þm. fái gott hljóð.)

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að ég tel að ráðuneytið sé verulega undirmannað og meðan svo er tekst því trauðla að valda svo að vel sé verkefni sínu. Til samanburðar bendi ég á menntmrn. þar sem miklu fleiri starfa að verkefnum sem kosta aðeins hluta af kostnaði við heilbrigðismál og svo virðist að starfsmönnum þar hafi lítið fækkað þótt eitt stærsta verkefni ráðuneytisins, grunnskólinn, sé nú verkefni sveitarfélaga. Það borgar sig engan veginn fyrir skattgreiðendur að halda heilbrrn. í spennitreyju að þessu leyti. Þvert á móti er það orsök skipulagsleysis og umframkostnaðar.

Ég vil að lokum taka fram að ég er ekki að halda því fram að laun starfsmanna sjúkrahúsanna séu vandamálið, þvert á móti, vitað er að meðallaun eru ekki há. Ég nefni sem dæmi að rekstrarkostnaður á hvert stöðugildi í nýstofnuðum Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins er um 8 millj. kr. á ári og er þá átt við bæði laun og annan kostnað við rekstur stofnunarinnar en stofnkostnaður er ekki meðtalinn. Á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er sambærileg tala um 3,5 millj. kr. að meðtöldum stofnkostnaði eða um 56% lægri en hjá peningasjóðnum nýja. Það er greinilegt að vildarvinir stjórnarflokkanna komast upp með allt önnur útgjöld við rekstur peningastofnana en gildir í heilbrigðiskerfinu. Það gilda greinilega önnur lögmál um umönnun peninga en fólks og þá á þann veg að miklu mikilvægara sé að hugsa um peninga en sjúka fólkið. Þetta verður að kallast forgangsröðun sem bragð er að og ljóst er hverjir sitja í fyrirrúmi í þjóðarskútunni.

Herra forseti. Nú er komið að þeim kafla í ræðu minni þar sem ég vík að málefnum Ríkisútvarpsins og ég spyr um hæstv. menntmrh. sem ég hafði óskað eftir að væri viðstaddur ræðu mína.

(Forseti (RA): Hæstv. ráðherra mun ekki vera í húsinu en gerðar verða ráðstafanir, og hafa reyndar þegar verið gerðar, til að láta hann vita af því að óskað sé nærveru hans.)

Ég þakka forseta þau viðbrögð en verð jafnframt að segja að lítið gagn er að fjarstöddum ráðherra þannig að ef ráðherrann kemur ekki meðan ég flyt mál mitt þá tel ég tilgangslítið að vera að ónáða þann ágæta ráðherra.

Málefni Ríkisútvarpsins voru til umfjöllunar í fjárln. að minni beiðni og gáfu forráðamenn stofnunarinnar skýrslu um endurbætur á dreifikerfinu undanfarin ár. Víða um land er útsendingum bæði hljóðvarps og sjónvarps áfátt og reyndar er sums staðar svo að engin útsending næst. Löngu er komið að viðgerðum og nauðsynlegum lagfæringum jafnframt því að halda þarf áfram uppbyggingu dreifikerfisins.

Þá er rétt að geta þess að útsending frá fundum Alþingis er ekki samfelld og á stundum óviðunandi. Samkvæmt svari við skriflegri fyrirspurn minni á 118. löggjafarþingi er áætlað að það kosti um 325 millj. kr. að koma upp aukahljóðvarpsrás sem næðist um land allt. Ég tel það nauðsynlegan þátt til að skapa grundvöll fyrir lýðræðislega umfjöllun í þjóðmálum að koma upp beinum og samfelldum útsendingum frá fundum Alþingis.

Samkvæmt upplýsingum forráðamanna Ríkisútvarpsins hefur verið varið ákaflega litlu fé til fjárfestinga og viðhalds í dreifikerfinu síðustu árin. Frá 1987 hefur fjárhæðin verið á bilinu 14--54 millj. kr. á ári sem engan veginn dugar til þess að mæta óskum notenda og nauðsynlegri endurnýjun. Sívaxandi umkvartanir berast vegna lélegs dreifikerfis. Er skemmst að minnast umræðu um léleg skilyrði fyrir sjónvarp í Keflavík og á Snæfellsnesi. Við það má bæta að skilyrði á norðanverðum Vestfjörðum eru fullkomlega óviðunandi og á ég þar við Ísafjörð, Bolungarvík og Súðavík. Þrátt fyrir áralangar umkvartanir gerist ekkert og verð ég að segja að svör forráðamanna Ríkisútvarpsins á fundi fjárln. voru stofnuninni ekki sæmandi og hrein móðgun við notendur. Það er ekki boðlegt að tala um afleit skilyrði víða í Keflavík sem einhverjar nýjar upplýsingar og grípa til þeirra útskýringa að geislinn sé of krappur og senda þurfi hann upp á Kjalarnes. Þá er það algerlega óviðunandi að bjóða íbúum víða um land upp á óbreytt ástand næstu árin og halda því jafnvel fram að að þeirra mati séu skilyrðin bara ágæt. Það er engu líkara en að stjórendur Ríkisútvarpsins hafi ekki áttað sig á því að þeir eru þjónustustofnun sem á að mæta óskum og kröfum notenda og að löngu liðin er sú tíð að þeir skammti fólki skilyrði. Hverjum öðrum dytti í hug að bjóða fólki upp á lélega útsendingu árum saman af því að stofnunin tímir ekki að endurnýja úr sér gengna senda? Ekkert bólar á því að bjóða notendum víða um landið að njóta framfara í tækninni, svo sem steríósjónvarps sem kom á höfuðborgarborgarsvæðið fyrir um áratug. Það merkilega er að notendur geta fengið fyrirmyndarskilyrði til sjónvarpsmynda frá útlöndum hvarvetna á landinu og það í steríó með því að vera með gervihnattadisk, en ríkissjónvarpið við Laugaveginn sést illa eða jafnvel ekki.

Ef ekki verður breyting á afstöðu forráðamanna stofnunarinnar tel ég engar forsendur fyrir því að skylda alla sjónvarpseigendur til þess að greiða afnotagjald til Ríkisútvarpsins því ekki hefur staðið á því að rukka afnotagjaldið og það af nokkurri hörku.

Ég veit dæmi um sjónvarpseiganda sem er rukkaður um afnotagjald þótt bæði hljóð og mynd séu afleit og engum bjóðandi, enda hefur stofnunin ekki gert neitt til þess að koma merkjum til umrædds notanda. Það gerði hann sjálfur á eigin kostnað. Þrátt fyrir áralanga eftirleitan fæst stofnunin ekki til að bæta úr og síðasta svarið að skilyrðin væru bara nógu góð.

Nú er lagt til að heimila stofnuninni að taka lán upp á tæpan milljarð króna á næstu tveimur árum til þess að flytja sjónvarpið í Efstaleiti og endurnýja búnað þess. Ég tel þörf á þessu og mun styðja það framtak þó ég hafi efasemdir um að rétt sé að fjármagna þessar framkvæmdir allar með lánsfé.

Mér komu á óvart þær upplýsingar að með því að endurgreiða lánsféð á 15 árum þyrfti ekki verja meiru en sem svarar 1/3 af því fjármagni sem stofnunin hefur til ráðstöfunar í þessu skyni. Það þýðir að stofnuninni er ekkert að vanbúnaði að ráðast í endurnýjun og viðhald á dreifikerfi sínu á næstu 2--3 árum með lánsfé og greiða það niður á næstu 15 árum. Ég kalla eftir stuðningi ríkisstjórnarinnar til þess og minni á að það var hún sem tók ákvörðun um flutning sjónvarpsins upp í Efstaleiti og nú stendur upp á ríkisstjórnina að svara þeirri spurningu hvort hún beri hag notenda fyrir brjósti jafnt sem hag stofnunarinnar.

Minni hluti fjárln. hefur lagt fram frhnál. við frv. til fjárlaga fyrir árið 1998 á þskj. 647 sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Endurskoðuð tekjuáætlun ríkissjóðs gerir ráð fyrir að tekjurnar verði 2,3 milljörðum kr. hærri en í fjárlagafrumvarpinu. Um 900 millj. kr. má rekja til breytinga á tekjugrunni og rúmar 500 millj. kr. til aukinnar skattheimtu. Þar af eru um 400 millj. kr. vegna fjármagnstekjuskatts sem ríkið greiðir af eigin vaxtatekjum og færist því einnig til gjalda og hefur ekki áhrif á nettóafkomu ríkissjóðs. Þá eru tekjur af eignasölu áætlaðar 800 millj. kr. hærri en í frumvarpinu vegna endurskoðaðrar áætlunar um hagnað af sölu eignanna. Er það skýrt með því að sölu á hluta ríkissjóðs í Íslenska járnblendifélaginu sem átti að fara fram á þessu ári var frestað til næsta árs, svo og með hækkun á söluverðmæti hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Er sú hækkun rakin til góðrar afkomu bankakerfisins á þessu ári.

Fram kom að Þjóðhagsstofnun telur ekki ástæðu til þess að endurskoða efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins sem gerir m.a. ráð fyrir 3,5% hagvexti á næsta ári og 5,2% aukningu á kaupmætti ráðstöfunartekna. Áfram er spáð verulegum viðskiptahalla eða um 3,4% af landsframleiðslu og að innflutningur aukist meira en útflutningur. Kemur það fram í því að erlendar skuldir þjóðarbúsins fara vaxandi. Áætlað er að þær aukist um 3,5% að raungildi á þessu ári og um 4,5% á því næsta. Að mati Þjóðhagsstofnunar er nokkuð liðið á hagsveifluna og því megi búast við því að afkoman verði nokkuð lakari á næstunni. Gerir stofnunin ráð fyrir tiltölulega háum vöxtum á næstu árum og bendir á að um þessar mundir sé nokkur þrýstingur á verðlag vegna mikilla umsvifa í þjóðfélaginu.

Minni hlutinn bendir á að efnahagsforsendur fjárlaga 1997 hafa reynst fjarri lagi. Einkaneysla er áætluð verða 5,0% í stað 3,5%, samneysla 2,2% í stað 1,5% og fjárfesting 18,6% en var spáð að yrði 5,5%. Innflutningur vex um 9,6% í stað 5,7% og þjóðartekjur munu aukast um 5,0% í stað 2,5% eins og spáð var. Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust`` --- á þessu ári --- ,,um 6,7% samanborið við 3,5% í forsendum fjárlaga. Tekjur ríkissjóðs á árinu reyndust verulega vanáætlaðar og er nú gert ráð fyrir að þær verði um 5,7 milljörðum kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Er það mjög svipað og minni hlutinn spáði í fyrra við afgreiðslu fjárlaga. Er það verulegt áhyggjuefni hversu ónákvæmar spár um helstu þjóðhagsstærðir hafa reynst síðustu ár og er ástæða til þess að athuga sérstaklega hvernig á því stendur og hvað er til úrbóta.``

Ég vil þessu til viðbótar vísa til fylgiskjals sem fylgir með nefndaráliti minni hluta fjárln. sem lagt var fram við 2. umr. fjárlaga og er samanburður á helstu þjóðhagsstærðum á árunum 1995--1997 ásamt samanburði þeirrar spár við veruleika. Þar kemur í ljós að mjög margar veigamiklar forsendur voru á þessum árum verulega vanáætlaðar eða ofáætlaðar. Þannig má nefna sem dæmi að einkaneyslan var öll þessi ár miklu meiri en spáð var og gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga. Árið 1995 var gert ráð fyrir að einkaneysla mundi aukast um 2,5% en reyndin varð 4,2% eða 68% hærri tala. Árið 1996 var gert ráð fyrir við gerð fjárlaga að einkaneyslan mundi aukast um 4,2% en reyndin varð 6,4% eða 52% hærri tala. Árið 1997, eða á þessu ári, varð spáin 3,5% en reyndin 5% eða 42% frávik. Árið 1998, á næsta ári, er spáð 5% en þar tel ég líkur standa til þess að hún verði nokkru meiri.

[15:45]

Fjárfestingarspáin hefur einnig reynst verulega frábrugðin veruleikanum á hverjum tíma. Árið 1995 var því spáð að fjárfesting mundi aukast um 5,2% en reyndin varð sú að fjárfesting dróst saman um 2,8%. Munurinn er um 153%. Árið 1996 var spáð að fjárfesting yrði 16,3% en reyndist verða 23,5% eða 44% frávik. Á þessu ári var spáð að fjárfesting yrði 5,5% en nú er talið víst að hún verði 18,6% og munurinn er 238%.

Það segir sig sjálft, þegar svona gríðarlega miklu munar í veigamiklum forsendum fjárlaga, að þá er ekki við því að búast að reynslan verði nærri því sem fjárlög gera ráð fyrir. Fleiri dæmi get ég rakið þar sem verulega ber á milli spár Þjóðhagsstofnunar og forsendna fjárlaga hverju sinni og síðan reynslunnar eða niðurstöðunnar. Þar má helst nefna launa- og verðlagsforsendur en gert var ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann ykist minna öll árin en reynslan varð. Þannig var því spáð 1995 að kaupmátturinn mundi aukast um 1% en reynslan varð 3,9%. Munurinn er 290%. Árið 1997 var spáð að kaupmáttur ráðstöfunartekna mundi aukast um 1,5% en reyndin varð 4,7% og munurinn er 213%. Vísa ég að öðru leyti til þessa fylgiskjals með því nefndaráliti sem ég gat um áðan og vík nú aftur að frhnál. minni hluta fjárln.

,,Minni hlutinn telur að þessu sinni að nokkuð sé vanmetinn hagvöxturinn á næsta ári einkum vegna líklegrar meiri einkaneyslu en Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir. Gera má því ráð fyrir heldur meiri tekjum ríkissjóðs sem því nemur eða 1--1,5 milljörðum kr. Fyrirsjáanlegt er að draga muni úr fjárfestingum þegar líður á árið, en enn meira árið l999. Að öðru leyti verður að telja efnahagsforsendur fjárlaganna líklegar. Undanfarin ár hafa tekjur ríkissjóðs verið verulega vanmetnar, eins og áður segir, en margt bendir til þess að svo sé ekki nú umfram það sem áður er hér bent á og kemur þar til að hagsveiflan virðist hafa náð hámarki. Þvert á móti ber nú á að tekjuforsendur fjárlaganna virðast ekki allar vera traustar. Þar má nefna tekjur af sölu eigna sem hafa reynst ofmetnar á þessu ári og svo gæti einnig hæglega orðið á næsta ári. Þá telur minni hlutinn að verulegir veikleikar séu á gjaldahlið frumvarpsins. Háar fjárhæðir vantar til reksturs sjúkrahúsa landsins og undanfarin ár hefur verið kerfisbundið vanmat á útgjöldum almannatrygginga. Varlega áætlað gæti verið um liðlega 2 milljarða kr. vanmat á þessum útgjöldum að ræða. Að öllu samanlögðu verður að telja að yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög hvíli á afar veikum grunni og að umtalsverður halli verði á ríkissjóði þegar upp er staðið.

Ríkisstjórnin treystir sér augljóslega ekki í niðurskurð á útgjöldum og því blasir við að auka verður tekjur ríkissjóðs. Minni hlutinn hefur bent á að auka megi tekjur ríkissjóðs um milljarða kr. með auknu skatteftirliti og sérstökum aðgerðum gegn skattsvikum, svo og betri innheimtu útistandandi krafna ríkissjóðs. Þá bendir minni hlutinn á að í góðæri er eðlilegt að sækja aukið fé til sameiginlegra þarfa til atvinnurekstrar með auknum sköttum og breyttum lagaákvæðum um frádrátt einstakra útgjalda frá tekjum. Þegar verr áraði fyrir nokkrum árum var sköttum létt af fyrirtækjum og skattbyrðin flutt yfir á almenning. Var þar um að ræða um 4 milljarða kr. Nú árar betur og hefur gert um skeið og er þá sjálfsagt að flytja hluta af skattbyrðinni til baka. Ákveðið hefur verið að lækka skatta á almenning og telja verður eðlilegt að atvinnulífið beri þá skattalækkun að nokkru leyti. Hefur minni hlutinn bent á að hækka megi tryggingagjald um 0,5% og afla þannig um 1,2 milljarða kr. Einnig má telja eðlilegt að skatthlutfall hagnaðar af rekstri fyrirtækja verði það sama og á launatekjur eða 39% í stað 33% eins og nú er. Slík hækkun mundi skila um einum milljarði kr. í ríkissjóð. Þá vill minni hlutinn benda á að reglur um ónotað rekstrartap til frádráttar hagnaði eru nokkuð rúmar. Talið er að ónotuð rekstrartöp séu um 78 milljarðar kr. eða liðlega fjórum sinnum hærri fjárhæð en samanlagður tekjuskattstofn allra fyrirtækja. Í einum landsfjórðungnum eru ónotuð rekstrartöp 25 sinnum hærri en tekjuskattsstofninn en það þýðir engar skattgreiðslur í 25 ár. Í öðru skattumdæmi duga ónotuð rekstrartöp fyrirtækja í 42 ár og þar sem ónotuð rekstrartöp eru lægst sem hlutfall af tekjuskattsstofni eru þau þó þrisvar sinnum hærri en tekjuskattsstofninn. Eðlilegt er að huga að því að setja þrengri tímamörk en nú gilda um nýtingu rekstrartaps. Enn má benda á möguleika á að skattleggja sérstaklega söluhagnað aflaheimilda í sjávarútvegi við þær aðstæður að fjármagn væri fært út úr atvinnugreininni.

Það er flestu öðru mikilvægara fyrir heimilin og atvinnulífið að ríkisfjármálin séu tekin föstum tökum og ekki teflt á tvær hættur í einu mesta efnahagslegu góðæri undanfarinna áratuga. Vitað er að góðærið rennur sitt skeið og því munu tekjur ríkissjóðs dragast nokkuð saman að óbreyttum tekjustofnum. Litlu sem engu af ábata undanfarinna ára hefur verið varið til þess að greiða niður skuldir eða byggja upp tekjuskapandi starfsemi sem styrkir íslenskt efnahagslíf. Útgjöld íslenska ríkisins hafa vaxið nokkuð í takt við auknar tekjur og það mun reynast þrautin þyngri að draga úr þeim þegar tekjurnar minnka. Því er óhjákvæmilegt að styrkja tekjugrundvöll hins opinbera.

Það er ekki til marks um styrka og ábyrga fjármálastjórn þegar framkvæmdir hins opinbera fyrir milljarða kr. eru fjármagnaðar að mestu leyti og í sumum tilfellum eingöngu með lánsfé. Þar skulu fyrst nefndar virkjanaframkvæmdir upp á tugi milljarða kr., þar af á þessu ári liðlega 10 milljarða kr. Auk þess er í breytingartillögum meiri hlutans við 5. gr. frumvarpsins lagt til að hleypa af stokkunum dýrum framkvæmdum fyrir lánsfé. Áformað er að verja allt að 475 millj. kr. til að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga stækkunar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er áætlað að kosti 1.100 millj. kr. Annar og þriðji áfangi munu kosta um 1.700 millj. kr. hvor. Samtals eru þetta framkvæmdir fyrir hálfan fimmta milljarð kr. Önnur framkvæmd er við hús Ríkisútvarpsins að Efstaleiti 1 sem mun kosta um 960 millj. kr. Ráðgert er að fjármagna þá framkvæmd að fullu með lánsfé, þar af allt að 300 millj. kr. á næsta ári. Þriðja stórframkvæmdin, sem reyndar er þegar hafin, er bygging náttúrufræðihúss sem áætlað er að kosti liðlega 1 milljarð kr. Lagt er til að afla lánsfjár til þess á næsta ári um 180 millj. kr. og 70 millj. kr. á árinu 1999. Samtals kosta þessi mannvirki um 6,5 milljarða kr. Þar af er ráðgert að fjárfesta fyrir um 1 milljarð kr. á næsta ári sem að mestu leyti er staðið undir með lánsfé. Það skýtur skökku við í góðærinu við nokkur þenslumerki að auka stórframkvæmdir ekki hvað síst þegar öðrum framkvæmdum hefur verið slegið á frest að undanförnu af þeim sökum. Má minna á tveggja milljarða kr. niðurskurð á fé til vegaframkvæmda á þessu ári og því næsta og spyrja hvort þensluáhrif verði ekki af framkvæmdum fjármögnuðum með lánsfé.

Við 7. gr. frumvarpsins er gerð athugasemd við lið 8.7. Telur minni hlutinn eðlilegt að fjármagna markaðsátak erlendis o.fl. til þess að lengja ferðamannatímabilið á Íslandi með beinum fjárveitingum í stað þess að draga fjármagnið frá einstökum stofnunum samgönguráðuneytisins, einkum Vegagerð ríkisins. Þá telur minni hlutinn rétt að setja samræmdar reglur um það hvenær fella skuli niður stimpilgjöld og vísar þar til reglubundinna ákvæða um heimild til þess að fella niður þau gjöld af flugvélum.

Minni hlutinn telur rétt að vekja athygli á rekstrarkostnaði nýstofnaðs Nýsköpunarsjóðs, en þar er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður nemi um 8 millj. kr. á hvert stöðugildi að viðbættum stofnkostnaði. Það er meira en tvöfalt hærra en sambærilegur kostnaður á stöðugildi við sjúkrastofnanir landsins.

Meiri hlutinn gerir ekki tillögu um breytingu á fjárhag Byggingarsjóðs verkamanna. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að tap af rekstri sjóðsins á næsta ári nemi 800 millj. kr. Stafar það fyrst og fremst af því að framlag ríkissjóðs nemur aðeins 275 millj. kr. í stað 1.308 millj. kr. ef staðið væri við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá l992. Þá voru vextir af útlánum sjóðsins hækkaðir og ákveðið að miða við 500 ný framkvæmdalán á ári og til þess að ekki yrði gengið á eigið fé sjóðsins yrði ríkisframlagið sem næmi 1.308 millj. kr. á ári. Skemmst er frá því að segja að framlag ríkissjóðs hefur síðan verið skert ár hvert. Það hefur leitt af sér fækkun framkvæmdalána og stöðugan hallarekstur sjóðsins. Er nú svo komið að einungis 170 framkvæmdalán verða veitt á næsta ári eða aðeins 1/3 af því sem upphaflega var áætlað. Á þessu tímabili, l993--1998, verður skerðingin á framlagi ríkisins samtals 3.977 millj. kr. eða 50,7% af því sem það hefði átt að vera. Framlögin hafa verið 3.871 millj. kr. í stað 7.848 millj. kr. Langstærstur hluti skerðingarinnar, eða 2.909 millj. kr., hefur verið ákveðinn við fjárlagagerð þriggja síðustu ára. Er svo komið að byggingarsjóðurinn stefnir hraðbyri í gjaldþrot og ef hann hefði verið gerður upp um síðustu áramót hefði vantað 6 milljarða kr. til þess að endar næðu saman. Félagsleg útlánastefna á sér greinilega fáa málsvara í röðum stjórnarliða.

Minni hlutinn hefur við þessa fjárlagagerð lagt höfuðáherslu á raunhæfar aðgerðir til lausnar á vanda sjúkrahúsanna. Niðurskurður síðustu ára og síendurteknar kröfur um aðhald og sparnað, langt umfram eðlilega sanngirni, hafa hneppt sjúkrahúsin í fjötra hallareksturs, sem er gjörsamlega að sliga þau og farin að bitna illa á sjúklingum og starfsfólki. Tillögur meiri hlutans duga hvergi nærri til varanlegrar lausnar á vanda sjúkrahúsanna.

Uppsafnaður rekstrarhalli allra sjúkrahúsanna er nú í árslok u.þ.b. 1 milljarður kr. eftir hallarekstur síðustu ára, en því til viðbótar nemur augljós fjárvöntun til rekstrar sjúkrahúsanna á næsta ári nær hálfum öðrum milljarði, þannig að samtals er rekstrarvandi sjúkrahúsanna í landinu nær 2,5 milljarðar kr.

Á fjáraukalögum þessa árs er 200 millj. kr. óskipt fjárhæð, sem ætluð er til að mæta halla sjúkrahúsanna utan Reykjavíkur, en stóru sjúkrahúsin í Reykjavík eru skilin eftir með samtals um 700 millj. kr. halla. Þar af er talið að þau gætu búið við um 300 millj. kr. halla, Ríkisspítalarnir 200 millj. kr. og Sjúkrahús Reykjavíkur 100 millj. kr. Þannig er brýn fjárvöntun vegna uppsafnaðs halla þessara tveggja sjúkrahúsa samtals 400 millj. kr.

[16:00]

Að viðbættum þessum uppsafnaða rekstrarhalla er fjárvöntun Ríkisspítalanna til sambærilegs rekstrar á næsta ári áætluð 487 millj. kr. og Sjúkrahúss Reykjavíkur 465 millj. kr., eða samtals 952 millj. kr. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri telur sig vanta 150 millj. kr. til viðbótar við frumvarpstölur, og flest hin sjúkrahúsin þurfa aukið fjármagn til þess að halda uppi svipaðri þjónustu og hingað til. Fjárvöntun allra sjúkrahúsanna á næsta ári nemur þannig nær hálfum öðrum milljarði og er deginum ljósara að 300 millj. kr. óskiptur liður á fjárlögum dugir hvergi nærri til að taka á þessum gríðarlega vanda.

Sjúkrahúsin geta ekki búið við þessar aðstæður öllu lengur og í raun blasir því ekkert annað við en stórlega skert þjónusta þessara mikilvægu stofnana samfélagsins. Minni hlutinn hefur ítrekað flutt tillögur um aukin framlög til sjúkrahúsanna og kynnt hugmyndir um tekjuöflun á móti, en meiri hlutinn hefur ekki fallist á þær. Hann hlýtur þá að axla ábyrgðina af þessu ófremdarástandi, sem og af frumvarpinu í heild.``

Undir þetta nefndarálit rita auk mín Gísli S. Einarsson, Sigríður Jóhannesdóttir og Kristín Halldórsdóttir.

Ég vil þá, herra forseti, leyfa mér að mæla fyrir breytingartillögum sem minni hlutinn flytur við fjárlagafrv. nú við 3. umr. þess. Það er brtt. við tekjuhlið frv. þar sem lagðar eru fram tvær tillögur til þess að auka tekjur fjárlagafrv. og vísast þar til þess sem fram kom í nefndaráliti um líklega fjárvöntun í fjárlögum, vanáætlun á útgjöldum og ótraustar forsendur undir sumum tekjustofnum. Minni hlutinn leggur til annars vegar að tekjuskattur fyrirtækja verði hækkaður um 1.000 millj. kr., úr 6.956 millj. í 7.956. Það verði gert með því að breyta reglum um frádráttarbærni ónotaðra rekstrartapa.

Í öðru lagi leggur minni hlutinn til að tryggingagjald almennt verði hækkað um 0,5% og það muni skila um 1.200 millj kr. eða hækka úr 12.140 millj. í 13.340 millj. kr. Samtals nema tekjuöflunartillögur minni hluta fjárln. 2.200 millj. kr. til hækkunar á tekjum fjárlagafrv. frá því sem ráð er fyrir gert í tillögum meiri hlutans. Það er óvenjulegt, herra forseti, að minni hlutinn leggi fram tillögur til frekari tekjuöflunar, en eins og við höfum rökstutt ítarlega í tveimur nefndarálitum þá er full þörf á þessu að okkar mati til að treysta stöðu ríkissjóðs og ná því markmiði að fjárlög næsta árs verði hallalaus.

Þá vil ég leyfa mér, herra forseti, að mæla fyrir tveimur tillögum sem ég er flutningsmaður að. Fyrri tillagan fjallar um dreifikerfi Ríkisútvarpsins sem ég gat um í ræðu minni í upphafi. Þar legg ég til að Ríkisútvarpinu verði heimilt að taka lán á næsta ári allt að 300 millj. kr. til þess að ráðast í nauðsynlega endurnýjun og endurbætur á dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Ég vitna til þingskjals 338 frá 118. löggjafarþingi sem var svar við skriflegri fyrirspurn minni um dreifikerfi Ríkisútvarpsins þar sem fram kemur hvað áætlað er að þurfi að gera á næstu árum og fjárhæðir áætlaðar vegna þess. Hér er um nokkuð háar fjárhæðir að ræða ef ráðast ætti í allar framkvæmdirnar, en því er til að svara að þegar hefur verið ráðist í sumt af því eins og byggingu langbylgjustöðva og önnur fjárfrek verkefni geri ég ráð fyrir að verði látin bíða eins og fjallastöðvar til fiskimiða sem eru langdýrustu áformuðu framkvæmdirnar en lögð verði helst áhersla á að bæta og styrkja dreifikerfið innan lands þannig að góð skilyrði verði bæði í útvarpi og sjónvarpi til allra þéttbýlisstaða og til að bæta úr í sveitum landsins.

Þá hef ég einnig gert ráð fyrir því að tekið verði til athugunar að ráðast í að koma upp aukahljóðvarpsrás fyrir Ríkisútvarpið, hljóðvarp til þess að nota við útsendingar frá Alþingi.

Hin tillagan sem ég vil leyfa mér að mæla fyrir, herra forseti, er um aukið fjármagn til niðurgreiðslu á rafhitun upp á 26 millj. kr. sem ég flyt ásamt hv. þm. Svavari Gestssyni. Þar er lagt til að niðurgreiðsla á rafhitun hækki úr 30 þús. kwst. á ári upp í 35 þús. kwst. Sá kostnaður gæti numið um 26 millj. kr. miðað við heilt ár enda sé gert ráð fyrir að Landsvirkjun bæti við niðurgreiðsluna af sinni hálfu við þessar viðbótarkílóvattstundir. eins og Landsvirkjun gerir nú þegar í þeim 30 þús. sem greiddar eru niður af hálfu ríkissjóðs.

Þá vil ég að lokum, herra forseti, minna á að við 2. umr. fjárlaga flutti ég tillögu um hækkun á fjárveitingum til Ríkisspítala um 5,2 millj. kr. til þess að unnt væri að kaupa fjarfundabúnað til að koma á fjarlækningum milli Landspítalans annars vegar og Sjúkrahúss Suðurlands hins vegar vegna ómskoðunar. Í það verkefni eiga að fara 3 millj. og 2,2 millj. í annað verkefni sem er fjarfundabúnaður í Sjúkrahúsi á Patreksfirði og Sjúkrahúsið á Seyðisfirði til þess að unnt verði að hefja geðlækningar eða veita ráðgjöf um það á þessum stöðum. Tillaga þessi var felld við 2. umr. málsins en nú hefur meiri hluti fjárln. tekið upp hluta af þessari tillögu og gert hana að sinni, þ.e. 2 millj. kr. til fjarfundabúnaðar til geðlækninga og ég vil fagna því að meiri hluti fjárln. hafi séð sig um hönd í þessu efni.

Ég vil að lokum, herra forseti, færa fjárlaganefndarmönnum þakkir fyrir samstarfið á þessu hausti og þakkir frá minni hluta fjárln. til þeirra meirihlutamanna svo og starfsmanna Alþingis og ráðuneyta sem hafa starfað með okkur á þessu tímabili og starfsmanna Ríkisendurskoðunar.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að mæla fyrir nefndaráliti og brtt. minni hlutans, svo og þeim brtt. sem ég er flm. að að öðru leyti.