Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 16:12:37 (2823)

1997-12-19 16:12:37# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, KH
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[16:12]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það líður að lokum langrar og strangrar vinnulotu við þetta stóra dæmi sem fjárlög ríkisins eru og jafnvel er farið að glytta í jólin í hugum nefndarmanna sem manni skilst að megi vænta innan fárra daga, þ.e. jólanna. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka meðnefndarmönnum mínum og starfsfólki öllu fyrir alla samvinnuna og aðstoðina við þetta mikla verk.

Það er ákaflega margt sem þurfti að fara yfir á þessum stutta tíma milli 2. og 3. umr. og hér liggur nú fyrir niðurstaða meiri hlutans og jafnframt að sjálfsögðu minni hlutans sem er, eins og sjá má á þskj. 647, í framhaldsnefndaráliti okkar, ekki mjög sáttur við allt það sem hér hefur verið tekin ákvörðun um.

Í þessu frhnál. er talsverð umfjöllun um tekjuhlið og efnahagsforsendur þessara fjárlaga og það mat okkar á tekjugrunninum sem frv. hvílir á að hann sé ekki nægilega traustur og fram kemur hvað við teljum nauðsynlegt að gera til þess að styrkja þann tekjugrunn.

[16:15]

Við bendum á það rétt einu sinni að efnahagsforsendur og spár um þjóðhagsstærðir hafa ekki reynst sérlega raunhæfar undanfarin ár. Um það vitnar fylgiskjal með nál. við 2. umr. um fjárlög þar sem við bendum á og bárum saman hvernig spár um helstu þjóðhagsstærðir hafa reynst. Við teljum í raun ástæðu til þess að íhuga hvernig á því stendur og hvað er til úrbóta í þessu efni.

Það er mat okkar að tekjuforsendur fjárlaganna séu ekki allar jafntraustar og bendum sérstaklega á að tekjur af sölu eigna hafa reynst ofmetnar á þessu ári og einnig gæti orðið svo á næsta ári miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja. Við teljum að vísu að tekjuhliðin sé ekki jafnvanmetin og hún hefur verið oft áður en engu að síður að hagvöxturinn kunni að verða heldur meiri vegna meiri einkaneyslu en Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir. Hvað sem því líður þá er ljóst að tekjugrundvöllinn þarf að treysta og ekki er líklegt að sú áætlun standist sem kemur fram í áliti meiri hlutans sem gerir ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn með lítils háttar afgangi. Hann er reyndar svo lítill að jafnvel má segja að hann sé ekki innan skekkjumarka. Það þarf því ákaflega lítið út af að bera til þess að það reynist rangt áætlað. Í ljósi þess að óviturlegt er í góðæri eins og nú ríkir að leggja ekki fyrir til mögru áranna auk þess sem við teljum að gjaldahliðin sé verulega vanmetin viljum við sýna þá ábyrgð að leggja fram tillögur um tekjuöflun. Og það gerum við á þskj. 657 þar sem við leggjum til að aflað verði rúmlega 2 milljarða kr. með hækkun tryggingagjalds um 0,5% og með því að breyta reglum um rekstrartöp fyrirtækja. Þetta skýrði hv. frsm. allt ágætlega í sínu máli áðan og ástæðulaust að ég endurtaki það.

Ég vil aðeins víkja að brtt. meiri hlutans sem fram eru komnar við 3. umr. fjárlaga. Ég get lýst því hér að ég er tiltölulega sátt við flestar þessar brtt. meiri hlutans enda tekur minni hlutinn þátt í öllum umræðum og umfjöllun um þessar breytingar en auðvitað eru þær á ábyrgð meiri hlutans og ég hef svolitlar efasemdir vegna einstakra tillagna og ætla rétt að viðra þær í örfáum orðum án þess að fara í neinn sparðatíning. Ég vil nefna t.d. tillögu um byggingaframkvæmdir á vegum Háskóla Íslands þar sem er um að ræða í raun framlag frá Happdrætti Háskóla Íslands sem fer í gegnum ríkissjóð. Þetta fé á að nota til að inna af hendi greiðslur til verktaka vegna byggingar á öðrum áfanga náttúrufræðihúss. Það er hið besta mál í sjálfu sér að það hús verði byggt. Mér er fullkunnugt um þörfina sem þar er fyrir hendi. Sú kennsla sem þangað mun flytjast er dreifð í húsnæði vítt og breitt um borgina og brýnt er að taka á þeim húsnæðisvanda sem þar er við að etja. Hins vegar finnst mér heldur verra að byggt sé á lántöku. Það er sem sé ætlast til þess að Happdrætti háskólans taki allt að 180 millj. kr. lán og það verði endurgreitt á næstu árum.

Lánasjóður ísl. námsmanna er lækkaður um 43 millj. kr. og skýrt með því að það sé í samræmi við endurskoðaða áætlun sjóðsins. Ég dreg þá áætlun í sjálfu sér ekki í efa. Hún er byggð á þróuninni á þessu ári. Hins vegar óskaði ég eftir upplýsingum um hvernig málin hefðu gengið eftir að breytt var reglum um lánveitingar úr sjóðnum. Ég óskaði eftir ýmsum upplýsingum um t.d. hvaða breytingar kynnu að hafa orðið á samsetningu hóps lántaka hjá sjóðnum en þær upplýsingar höfðu ekki borist fyrr í dag þegar ég kannaði það. Forsvarsmenn sjóðsins létu þá skoðun í ljós á fundi með fjárln. að samsetningin mundi ekki hafa breyst mikið en þeir gátu ekki stutt það með tölum eða rökum þannig að ég harma það að vera ekki með þær tölur hjá mér. Það komu fram mjög miklar áhyggjur um að breyttar reglur lánasjóðsins kynnu að hafa þau áhrif og hefðu haft þau áhrif að tekjuminna fólk, einstæðir foreldrar með lágar tekjur og tekjulágt fólk utan af landi hefði orðið fyrir skakkaföllum í þessu efni en við gátum sem sagt ekki fengið upplýsingar um þetta á fundi sem við áttum með fulltrúum lánasjóðsins. Þeir sögðu hins vegar að almenna sýnin væri sú að þetta hefði ekki breyst mikið eins og ég skrifaði eftir þeim. Hins vegar höfðu þeir ýmsar upplýsingar á hraðbergi svo sem að námsmönnum hefði fjölgað verulega í lánshæfu námi en lánþegum hefði ekki fjölgað jafnmikið. Það er þess vegna sem maður spyr um samsetningu þess hóps sem lánþegarnir mynda til að reyna að komast að raun um hvort þetta hafi haft áhrif á þann hóp fólks sem maður helst hefði talið að þyrfti á aðstoð að halda við námið. Upplýst var að innan við 50% þeirra sem er í lánshæfu námi sækja um námslán. Til upplýsingar spurði ég um meðaltalsupphæð þeirra sem skulda sjóðnum og upplýst var að um 70% lánþega skuldaði innan við 1,5 millj. að loknu námi. Hæsta skuld við sjóðinn næmi 16 millj. kr. og um 1% lántakenda sem lokið hefðu námi skuldaði meira en 6 millj. Í heildina skuldaði þessi hópur samtals 2 milljarða, sem er um 5% af útlánum sjóðsins. Þetta er allt skrifað niður í flýtinum sem stundum er þegar gestir eru á fundi hjá fjárln. En það er vonandi að þessi upphæð reynist rétt og þær reglur sem nú eru við sjóðinn valdi því ekki að neinn þurfi að hverfa frá námi eða treysti sér ekki til að hefja það.

Ég vil nefna brtt. meiri hlutans sem gengur út á það að hætt er við að lækka framlag ríkissjóðs vegna átaksverkefnisins um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna afurða. Meiningin var að lækka þá fjárhæð eða skera hana niður um helming frá því sem lög kveða á um þannig að aðeins yrði um 12,5 millj. kr. að ræða á næsta ári. Ég fagna því í sjálfu sér að hætt var við þennan niðurskurð vegna þess að tilgangurinn með því verkefni er allrar athygli og virðingar verður. Ég hef að vísu efasemdir um hvernig þessum fjármunum hefur verið ráðstafað. Það hefur ekki að öllu leyti verið í samræmi við góðan tilgang lagasetningarinnar en það hefur reyndar ekki að öllu leyti verið stjórninni að kenna. Ég held að þetta verkefni sé á mjög góðri leið og það hefði verið slys að setja fótinn fyrir þá þróun sem þar er í gangi.

Einnig er gerð tillaga um 7 millj. kr. viðbótarframlag til reksturs skólaskips á grundvelli niðurstöðu nefndar skipaðrar af sjútvrh. Þar er um hið besta verkefni að ræða í sjálfu sér og áformað er að leigja hafrannsóknaskipið Dröfn RE 35 til þessa verkefnis. En það sem veldur því að ég leyfi mér að fjalla um þessa sérstöku tillögu er að ég tel að hugsanlega muni þetta verða til þess að verkefni sem hefur reynst mjög vel einmitt af svipuðum toga fái ekki styrk til sinnar starfsemi. Hér er um að ræða rekstur skipsins Haftindur sem Karel Karelsson hefur stjórnað. Hann hefur stjórnað því verkefni sem þar hefur verið á ferðinni. Hann hefur haft nemendur í skipsrúmi og kennt þeim það sem þar er að kenna og gert það víða um land. Þetta verkefni hefur fengið mjög góðar umsagnir og ég teldi það mjög slæmt ef hann verður að hætta því ágæta starfi. Ég hef ekki getað aflað mér nákvæmra upplýsinga um það en ég vildi nefna þetta hér til þess að það komi fram að ef svo yrði að hann yrði að hætta sínu starfi þá er það mjög miður.

Það er einnig tillaga um að veita 3 millj. kr. til kynningarstarfsemi erlendis á sjónarmiðum Íslendinga varðandi veiðar og nýtingu á auðlindum hafsins. Þessi tillaga kom fram alsíðasta daginn og fylgdu í rauninni engar uppýsingar um það hvernig ætti að verja þessu fé. Ég sakna þess að hafa ekki fengið þær upplýsingar en það gerist nú stundum í lokin á strangri vinnutörn að ýmislegt kemur upp á sem mann skortir nauðsynlegar upplýsingar um. Ég tel engu að síður nauðsynlegt að fara út í slíka kynningarstarfsemi og vona að vel verði að henni staðið. En því koma þessar hugleiðingar mínar fram að mér hefur fundist bera á því að þegar menn eru að tala um nauðsyn kynningarstarfsemi, þá sé því í raun og veru beint að því sem menn kalla ,,svokölluð`` umhverfisverndarsamtök og er nú vonandi að ekki komi þá á móti eitthvað sem maður gæti kallað svokallaða kynningarstarfsemi. Þetta verður að vera á málefnalegum grunni.

[16:30]

Ég tel sérstaka ástæðu til að fagna brtt. við liðinn Ýmis verkefni, undir ráðuneyti dómsmála, þar sem lagt er til að veittar verði 2,4 millj. kr. tímabundið til rannsóknar á viðurlögum við afbrotum og þróun þeirra. Rannsóknin á að beinast að dómum vegna líkamsmeiðinga, kynferðisbrota og fíkniefnabrota og tekur til dóma Hæstaréttar, en einnig er fyrirhugað að dómaframkvæmd hér á landi verði borin saman við rétt annarra landa sem búa við svipaða réttarskipan og kemur þar helst til greina Danmörk og Noregur. Þetta tel ég mjög þarft og gott verkefni sem geti stutt okkur í því að bæta dómaframkvæmd hér á landi sem að mínu mati er ekki með öllu eins og hún á að vera.

Þá vil ég aðeins nefna tillögu um 20 millj. kr. til nýrra meðferðarúrræða vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Í sjálfu sér er gott að þarna kemur fram viðurkenning á því sem alltaf var haldið fram við setningu þessara laga að þau mundu óhjákvæmilega hafa í för með sér fjárútlát. En í fjárlagafrv. virtist það ekki hafa verið haft í huga. Þessar 20 millj. kr. eru hins vegar of lítil upphæð. Að mati Barnaverndarstofu vantar þarna um það bil 90 millj. kr. til þess að koma til móts við ýmis þau útgjaldatilefni sem skapast við þessa breytingu á sjálfræðisaldri. Ég reikna með að betur muni koma fram á næsta ári hver þörfin verður og mun að sjálfsögðu styðja þessa tillögu í trausti þess að síðan verði gætt að og fylgst með hvernig málin þróast og það komi e.t.v. fram þá við afgreiðslu fjáraukalaga þegar meira fjár verður þörf.

Ég vil benda á að á þskj. 643 er komin fram brtt. frá minni hluta félmn. en í nefndaráliti sínu til fjárln. benti minni hluti félmn. einmitt á þetta atriði, að það mundi þurfa að setja fé í og efna til nýrra meðferðarúrræða vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Minni hluti félmn. leggur fram brtt. um 50 millj. kr. í þetta verkefni og það held ég að sé nær lagi en þær 20 sem hér eru lagðar til.

Hér er ágæt tillaga um 2 millj. kr. til Ríkisspítalanna, til myndfundabúnaðar. Þó að það sé lítil upphæð miðað við þann gríðarlega vanda sem er í rekstri ríkisspítalanna, þá er hér um talsvert merkilegt framfaramál að ræða því að þarna er ráðgert að hefja samstarf við sjúkrahúsin á Patreksfirði og Seyðisfirði um ráðgjöf vegna geðlækninga og í því skyni verður notaður fjarfundabúnaður. Þetta er sem sagt upphæð sem er ætluð til að standa undir því verkefni og ég fagna því að komin er viðurkenning á því hversu mikilvægt er að taka tæknina í þjónustu lækninga og umönnun þeirra sem sjúkir eru og sárir. Margt fleira væri hægt að gera í því efni og ég reikna með að á næstu árum komi fleira slíkt upp og við þurfum að taka á því að hvort tveggja er að það getur sparað fólki fé og fyrirhöfn og tæknin nýtist betur og þekking þeirra sem hana geta látið í té.

Lagt er til að veitt verði 20 millj. kr. af vegafé til stuðnings við starfsemi sérleyfishafa. Þessar reglur um endurgreiðslur á þungaskatti til sérleyfishafa voru þrengdar talsvert á árinu 1997. Ekki er ljóst reyndar eftir hverju verður farið við úthlutun fjármuna en mér skildist að m.a. yrði hafður í huga breyttur grundvöllur sérleyfishafa vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á rekstri og þjónustu Pósts og síma. Það má vera okkur umhugsunarefni hvernig breytt rekstrarfyrirkomulag Pósts og síma kemur við ýmsa liði í þjónustu samfélagsins. M.a. hefur það komið fram í flutningum pósts til ýmissa staða úti á landi sem áður var greitt fyrir og munaði talsvert miklu í rekstri flugsamgangna til afskekktra staða og rekstri sérleyfisbíla.

Einnig er tillaga um 4 millj. kr. fjárveitingu til almenns rekstrar Ferðamálaráðs sem er merktur því ágæta verkefni að styrkja upplýsingaþjónustu í Leifsstöð og ég fagna þeirri tillögu. Það er mjög mikilvægt að efla þá upplýsingaþjónustu og skjóta stoðum undir það starf. Fegin hefði ég viljað sjá meiri fjárveitingar til Ferðamálaráðs, ekki síst til að gera enn betur við fjölsótta ferðamannastaði. En það skal viðurkennt að fé til þeirra verkefna hefur verið aukið á undanförnum árum og má segja kannski að sæmilega hafi verið gert.

Þá vil ég einnig nefna að ég hefði viljað sjá aukin framlög til umhverfisverkefna af ýmsu tagi eins og ég ræddi við 2. umr. fjárlaga og ég minni á það sem ég sagði þá, að ég held að ekki verði hjá því komist að taka á rekstrarvanda Hollustuverndar og þeim vanda sem er fólginn í því að Hollustuverndin hefur ekki bolmagn til þess að sinna öllum þeim fjölmörgu verkefnum sem henni er ætlað að sinna.

Fram hafa komið fjölmargar tillögur við þessa umræðu frá ýmsum þingmönnum. Ég vil minna á tillögu á þskj. 648 sem er brtt. frá þeirri sem hér stendur og hv. þingkonu Guðnýju Guðbjörnsdóttur. Við lögðum fram við 2. umr. tillögu um 9 millj. kr. framlag til Félags einstæðra foreldra sem félagið gæti notað sem styrk við endurbætur á húsnæði. Ég mælti fyrir þeirri tillögu og lýsti þeim vanda sem þar er við að fást. Félagið hefur unnið ómetanlegt starf þau ár sem það hefur starfað og sérstaka áherslu lagt á að hafa til reiðu húsnæði fyrir einstæða foreldra meðan þeir eru að koma undir sig fótunum. Þar eru rúmlega 20 íbúðir til reiðu. Ekki er óhóf á neinum hlutum en reynt að láta fólki líða vel. Þessar íbúðir eru alltaf fullsetnar og biðlisti eftir íbúðarhúsnæði. En þarna er aðeins um tímabundna lausn að ræða fyrir hvern þann sem á þarf að halda. Nú er svo komið að húsin eru orðin mjög illa farin á báðum þeim stöðum sem Félag einstæðra foreldra rekur húsnæði í þessu skyni og verður ekki komist hjá því að bæta þar úr. En til þess þarf fé og þess vegna höfum við hv. þingkona Guðný Guðbjörnsdóttir leyft okkur að leggja fram tillögu um styrk á fjárlögum til þess að létta þeim þetta verkefni og teljum það ekki goðgá þar sem um þjóðþrifamál er að ræða. Við höfum reyndar lækkað tillögu okkar niður í 5 millj. kr. í þeirri von að hv. þingmenn sjái sér fært að styðja þessa tillögu. Þetta er ekki stórt mál á mælikvarða ríkissjóðs en gríðarlega stórt á mælikvarða þeirra sem hlut eiga að máli.

Ég minni líka á brtt. minni hlutans sem var dregin til baka til 3. umr. og er hér flutt aftur, um að liðurinn Lækniskostnaður, undir sjúkratryggingum, hækki um 100 millj. kr. Hugsunin á bak við það er að þessari fjárhæð verði varið til þess að stytta biðlista eftir aðgerðum, ekki síst í sambandi við bæklunaraðgerðir. Ég held að þetta sé mjög nauðsynleg aðgerð til þess að stytta biðlistana.

Ég hafði áður nefnt brtt. frá minni hluta félmn. vegna nýrra meðferðarúrræða í málefnum barna og ungmenna. Ég sé hér nýja tillögu sem ég held að sé að koma fram núna frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og ég styð einlæglega, um 5 millj. kr. framlag til Lýðskólans við Hverfisgötu í Reykjavík. Það er starf sem er afar merkilegt og ég veit að það hefur notið velvildar hæstv. menntmrh. Ég held að það sé verkefni sem við ættum að taka undir okkar verndarvæng.

Ég get nefnt fleiri tillögur en ég vænti að hv. þingmenn muni mæla fyrir þeim og ætla ég ekki að taka af þeim það ómak. Ég vil aðeins að lokum fara örfáum orðum um sjúkrahúsmálin. Ég hef haldið um þau margar og sjálfsagt langar ræður og þarf kannski ekki miklu við þær að bæta. En það sem stendur í nefndaráliti minni hlutans er samantekt í stuttu máli á tölulegum vanda þessara sjúkrahúsa og þar er að mínu mati ekkert ofsagt. Við bendum meira að segja á það atriði sem hefur komið fram í viðræðum við fulltrúa sjúkrahúsanna að bæði að þeirra eigin mati og að mati ráðuneytisins eiga þessi stóru sjúkrahús að geta dregið á eftir sér halla sem nemur ákveðnu hlutfalli af þeirra rekstri þannig að enda þótt það sé deginum ljósara að stóru sjúkrahúsin í Reykjavík hafi verið skilin eftir með 700 millj. kr. halla núna í árslok, þá er brýn fjárvöntun, samtals um 400 millj., vegna þess að Ríkisspítalarnir geta búið við um 200 millj. kr. halla og Sjúkrahús Reykjavíkur getur búið við um 100 millj. kr. halla. Við vildum nefna þetta í nefndaráliti vegna þess að nógu há er nú þessi fjárhæð þó að ekki sé verið að mikla vandann.

[16:45]

Að lokum vil ég aðeins lesa upp bréf sem barst til allra alþingismanna frá starfsmannaráði Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ekki hefur verið á það minnst fyrr. Ég fékk þetta í hólfið mitt eins og aðrir alþingismenn og ég tel rétt að það komi fram hér í fullum stöfum því að ekki hefur heyrst frá starfsmannaráðinu á sama hátt og stjórnarmönnum og fulltrúum borgarinnar. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn SHR [Sjúkrahúss Reykjavíkur] hafa orðið þess áskynja að starf þeirra er þyngra en áður var. Á sjúkrahúsið leitar aukinn fjöldi sjúklinga og slasaðra. Þar sem legurúmum hefur fækkað hefur þróunin leitt til þess að heilbrigðisstarfsmenn hafa skemmri tíma til að sinna hverjum og einum sjúklingi. Auk þess hefur fækkun legurúma orðið til þess að á álagstímum vistast fleiri alvarlega veikir á göngum sjúkrahússins. Talið er að álagið á sjúkrahúsið eigi e.t.v. þátt í að fjöldi sjúklinga sem þarf að leggja inn aftur innan sjö daga frá útskrift vex nú ár frá ári.

Það er augljóst að við núverandi rekstrarstöðu sjúkrahússins verður ekki búið. Verði fjárhagsvandi sjúkrahússins ekki leystur strax mun það ekki aðeins hafa áhrif á framboð sjúkrarúma á SHR og atvinnuöryggi starfsfólks heldur einnig á getu sjúkrahússins til að valda grundvallarhlutverki sínu, þ.e. sinna sjúkum og slösuðum. Ekki verður unnt að sinna fimmta hverjum sjúklingi sem leggst inn á sjúkrahúsið verði fjárframlög til þess samkvæmt núverandi frv. til fjáraukalaga 1997 og fjárlaga 1998.`` --- Það er eins og eitthvað vanti í þessa setningu, en meiningin er að sjálfsögðu: Ef framlögin verða látin standa sem gert er ráð fyrir í þessum frv.

,,Við sem störfum í framlínunni á sjúkrahúsunum vitum að stjórn og framkvæmdastjórn SHR er ekki að reyna að þeyta upp moldviðri í þeim tilgangi að véla ráðamenn þjóðarinnar til að auka fjárframlög til SHR. Okkur sem sinnum fárveiku fólki á göngum sjúkrahússins er fjárskorturinn daglegur raunveruleiki. Starfsmannaráð beinir þeim tilmælum til allra alþingismanna að taka fullt tillit til ábyrgðarfulls málflutnings stjórnarmanna SHR varðandi fjárhagsvanda stofnunarinnar við afgreiðslu fyrrgreindra frumvarpa til laga fyrir jól 1997.

Starfsmannaráð Sjúkrahúss Reykjavíkur.``

Þetta er sem sagt þeirra innlegg í umræðuna. Ekkert er þar ofsagt. Ég vil aðeins taka fram að mér er fullkunnugt um að meiri hlutinn hefur ekki síður áhyggjur af þessu ástandi en minni hlutinn og vissulega má líta á það sem góða viðleitni að í tillögum meiri hlutans kemur fram tillaga um 100 millj. kr. framlag til meiri háttar viðhalds til Sjúkrahúss Reykjavíkur og það munar um allt í þessu efni. Undir það hefur verið tekið og kom fram í ræðu hv. formanns fjárln. að þetta framlag sé til marks um þann vilja stjórnvalda að þarna verði farið af stað með viðhald sem dugi, en áætlað er að til þurfi meira en 1 milljarð kr. til þess að gera svo við Sjúkrahús Reykjavíkur að það verði sómasamlegt húsnæði. Til þess þarf að gera áætlun til nokkurra ára og þetta fjármagn er til þess að koma því verkefni af stað.

Það ber því að fagna því að þarna kemur fram viðleitni til þess að taka á þessum vanda, en meira þarf til.