Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 17:19:01 (2826)

1997-12-19 17:19:01# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[17:19]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Það virðist vera viðkvæmt gagnvart alþýðuflokksmönnum að nefna að þeir séu að leggja til skattahækkanir. En það er nú engu að síður þannig að það kemur fram í nefndaráliti minni hluta fjárln. að (GE: Tillaga á borðinu.) já, og tillaga á borðinu, þar sem þeir gera grein fyrir þeim vilja sínum að hækka skatta. (GE: Á fyrirtæki.) Skattar eru skattar og það skiptir ekki máli hver greiðir skattana. Þeir eru teknir út úr atvinnulífinu. (GE: Það skiptir öllu máli.) Þeir eru teknir út úr atvinnulífinu. Hins vegar er fróðlegt að heyra að þingmenn telji það blekkingar sem verið er að leggja fram. Það er mjög alvarlegt mál og er nauðsynlegt að heyra frekari rökstuðning fyrir því.

Við kölluðum fyrir hv. fjárln. fulltrúa sem fjölluðu mjög ítarlega um tekjuhlið og forstjóri Þjóðhagsstofnunar kom og fór yfir stöðu mála og hv. þm. fengu mjög gott tækifæri til þess að spyrja. Ég varð þess ekki var að nokkur af gestum okkar væri rekinn á gat með þeim hætti að hægt sé að fullyrða að ekki sé hægt að standa við þau áform um tekjur sem við leggjum upp með. Það kemur fram hjá hv. þingmönnum að þeir gera ráð fyrir því að hægt sé að ná inn meiri tekjum, það sé vanáætlað frekar en hitt.

Varðandi fjárvöntun liggur alveg fyrir að við höfum lagt til ákveðnar leiðir til þess að styrkja stöðu sjúkrahúsanna og hvað varðar peningaskort hjá háskólanum er bara um að ræða ákvarðanir um útgjöld. Það er ekkert sem hægt er að tala um sem skort.