Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 17:23:42 (2829)

1997-12-19 17:23:42# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[17:23]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson gerði vandamál sjúkrahúsanna í Reykjavík talsvert að umræðuefni. Það er athyglisvert í máli hans að hann reyndi hvergi að hrekja það sem kemur fram í nefndaráliti minni hluta fjárln. og það sem hefur margoft komið fram við umræður á síðustu dögum og varðar þá miklu fjárhæð sem vantar til þess að hægt sé að reka sjúkrahúsin með svipuðu sniði og þau eru rekin í dag. Hv. þm. gerði hvergi tilraun til þess að vefengja það með nokkrum hætti. Ég dreg þá ályktun af því að hann telji að mikið sé til í því sem staðhæft er að það þurfi hátt á annan milljarð til þess að það sé hægt að ná þessu markmiði. Hvernig ætlar hv. þm. að gera það? Ég spyr hann að því. Hvernig ætlar hann að tryggja það að sjúkrahúsin geti rekið sig með sæmilegu sniði? Hann ætlar að gera það með því að endurskipuleggja. Hann sagði: Stóra málið er endurskipulagningarvinna, og hann sagði: Stóra vandamálið er hvort hægt sé að hagræða svo í rekstri að endar nái saman. Og hann vísaði til skýrslu VSÓ um það.

Nú er það svo að hv. þm. vill ekki sameina spítalana eins og skýrsla VSÓ gerir ráð fyrir en ég spyr þá: Dettur honum virkilega til hugar að það sé hægt eftir það sem á undan er gengið að hagræða svo í rekstri Sjúkrahúss Reykjavíkur að hægt sé að reka það án þess að draga stórkostlega saman þjónustu? Ég dreg sérstaklega fram að hv. þm. staðfesti í máli sínu að það hafi tekist mjög vel upp varðandi hagræðingu nú þegar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Hann sagði meira að segja að það hefði tekist betur upp en hjá Ríkisspítölunum. Dettur hv. þm. virkilega í hug, herra forseti, að hægt sé að hagræða á næsta ári sem svarar 700 millj. en það er u.þ.b. sú tala sem verður að hagræða til þess að hægt sé að reka spítalann með svipuðu móti og á þessu ári?