Fjárlög 1998

Föstudaginn 19. desember 1997, kl. 17:25:47 (2830)

1997-12-19 17:25:47# 122. lþ. 49.14 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[17:25]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er misskilningur hjá hv. 15. þm. Reykv. að ég hafi sagt að það bæri að verðlauna eitthvað sérstaklega stjórn eða hagræðingaraðgerðir Sjúkrahúss Reykjavíkur. Það hef ég hvergi sagt. (ÖS: Ég sagði hvergi verður.) Nei, það mátti lesa það út úr orðunum en ég tel hins vegar að við megum ekki gera lítið úr því sem menn hafa verið að reyna að gera. Hins vegar er það þannig að við getum ekki staðið í ræðustól á Alþingi og talað eins og sérfræðingar í heilbrigðismálum og ég treysti mér ekki til þess áð bera ábyrgð á tillögum sem ég hef ekki séð og þess vegna förum við þá leið sem við förum. Við ætlumst til þess að þeir menn sem verða fengnir til að fara ofan í saumana á rekstri spítalanna og gera tillögur leggi fyrir okkur tillögur sem verði til þess að bæta megi þessa starfsemi og það þurfum við að skoða þegar þar að kemur.

Hvernig á þetta að gerast? Við höfum margsinnis talað um það hér. Það þarf að leita leiða hjá báðum sjúkrahúsunum til hagræðingar. Við höfum fengið VSÓ-skýrsluna. Þar er talið líklegt að hægt sé að ná árangri í hagræðingu og við þurfum að halda áfram vinnunni. Það ætlum við að gera en við ætlum ekki fyrir fram eins og ég hef margsagt, við ætlum ekki fyrir fram að komast að niðurstöðu. Við höfum nokkra fjármuni til þess að vinna að þessu verki og menn þurfa bara að halda ró sinni og ganga til verks á nýju ári með þá sannfæringu í farteskinu að við eigum að geta bætt rekstur sjúkrahúsanna þannig að viðunandi sé eða gera tillögur um þær breytingar sem við verðum síðan að taka afstöðu til.